Hvað getur ósáttur viðskiptavinur gert? Snúið sér annað!

Lenti í því um daginn að verða ósáttur viðskiptavinur, sem kemur ekki oft fyrir, held ég sé með óþarflega mikið langlundargeð og finnst það stundum kannski of mikið. Ég er þessi sem finnst ég geta sjálfri mér um kennt ef ég kaupi mat á síðasta degi (og ekki á niðursettu verði) og það þarf eflaust nokkur svoleiðis tilvik til að ég hætti að versla í góðri búð.

Hins vegar lenti ég í atviki um daginn sem dugði til að ég ákvað að færa viðskipti mín annað. Kortafyrirtækið mitt, Visa, sem hefur þjónað mér ágætlega í langan tíma, tók upp á því hætta að bjóða upp á gjalddaga um miðjan mánuð, án þess að láta mig vita á fullnægjandi hátt. Það má vel vera að það hafi einhver snepill verið sendur til mín sérstaklega út af þessu, held þó ekki, ég opna allt nema það sem ég get lesið í hraðbankanum og er búin að lesa seinasta Visa-yfirlitið mitt án þess að finna neinn snepil um þetta. Eftir tilkomu heimabanka er sárafátt sem fer framhjá mér og ég fer ekki að grafa í körfunni sem geymir póstinn minn í allt að ár aftur í tímann bara til að sanna eða afsanna eitthvað. Ef ég hef ekki tekið eftir tilkynningu um breytingu á þessu fyrirkomulagi, þá hefur hún ekki verið tilkynnt á fullnægjandi hátt, það er mitt mat.

Og þetta var það sem gerðist: Ég stóð í búð og var að kaupa sæmilega dýran hlut 8. maí síðastliðinn þegar kortinu mínu er neitað. Þar sem ég vissi að ég var í fullum skilum alls staðar þá harðneitaði ég að þetta gæti verið, klukkan komin fram yfir 16 og enginn gat sinnt mér í bankanum mínum. Komst á netið í búðinni og í heimabankann minn og sá að allt var í himnalagi þar. Endaði með því að borga með debetkortinu, sem hafði þó alls ekki verið meiningin, stundum vill maður eiga val.

Morguninn eftir fann ég það út að það var búið að afnema þennan gjalddaga sem hentaði mér, þar sem ég vinn free-lance og fæ mínar launagreiðslur ekki endilega fyrsta hvers mánaðar. Hinn gjalddaginn er í byrjun mánaðar. Enn er boðið upp á gjalddaga í miðjum mánuði hjá öðru kortafyrirtæki þannig að ég sneri viðskiptum mínum þangað.

Svo sá ég frétt um þetta í blaði í dag, smá tilkynningu um afnám þessa gjalddaga sem hentaði mér, hjá Visa. Þar sem við erum bara 3% viðskiptavina þá er hætt með þessa þjónustu. Mér finnst ég alveg nógu merkilegur viðskiptavinur þótt ég tilheyri 3% og tel mig því hafa gert rétt með því að skipta um kortafyrirtæki fyrst svona er litið á málin. Mér sýnist á fréttinni að fleiri hafi lent í að fá þessa breytingu í bakið á sér.

Best að taka það fram að ég ætla að nota gamla kortið mitt í þær ca sex vikur sem ég á eftir fram að endurnýjun, enda hef ég ekki gefið mér tíma til að sækja það nýja enn, sem er búið að liggja tilbúið í bankanum síðan á föstudag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

Og hana nú. Vinkona mín lenti í einhverju visa-stríði í vetur, hún var sko ekki ánægð. Hún hætti með kortið hjá þeim.

Það er ágætt að fólk er ekki að láta fara illa með sig eða vaða yfir sgi, breyta einvherum reglum án þess að láta kóng eða prest vita.

Linda litla, 15.5.2008 kl. 18:43

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Já, ég er seinþreytt til vandræða, en mér blöskraði einhvern tíma á fyrstu búskaparárunum þegar ég vildi geta lagt út fyrir málningu á þríbýlishúsinu sem ég bjó í og þurfti víxil í bankanum sem ég átti launareikning í og fékk inn reglubundið ágætar tekjur. Það eina sem ég var spurð um var hvað maðurinn minn segði um þetta. Ég hafði ekki meira við þennan banka að ræða og færði mig yfir í Háaleitisútibú Iðnaðarbanka, sem nú er Glitnir. Hef ekki þurft að kvarta þar, yfirleitt alveg rosalega ánægð þar, einu sinni hitt ungan hrokafullan millistjórnanda (sem hvarf fljótlega), en fullt af alveg yndislegu fólki, einkum hana Árnínu mína.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.5.2008 kl. 19:06

3 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ekki spurning um að skipta. Ég varð ósátt við Júró eitt árið og skipti alfarið yfir til VISA þar sem ég hef verið ánægð síðan. Fólk á að gera þetta ef það verður óánægt.

Þegar Vodafon reyndi sem mest í vetur að fá mig til að skipta alfarið við þá, flytja heimasímann minn og hinn gemsann þangað, klúðruðu þeir því með því að segja mér ekki frá einum kostinum við skiptin ... eða að fá Sýn (Enska boltann) ác.a. 1.500 kall á mánuði. Þar sem ég er kona var greinilega talið útilokað að ég horfði á fótbolta. Komst að þessu síðar og þar sem vertíðin var að verða búin gerði ég ekkert í þessu. Meiri bjánarnir ... hehehehe. Annars sá ég að bleika dagskráin á Stöð 2 í sumar inniheldur m.a. Ally McBeal, ekki spurning, ég ætla sko að horfa, á meðan það hittist ekki á að fótboltaleikur sé í gangi.  

Guðríður Haraldsdóttir, 15.5.2008 kl. 19:21

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Einmitt, ég geri þetta ekki oft, en núna fannst mér það rétt.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.5.2008 kl. 19:32

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband