Óvænt sunnudagskvöld á föstudegi

Fann það í kvöld hvað ég er farin að sakna sunnudagskvöldanna, svona stundum. Fyrir ykkur lesendur sem ekki þekkið inntak sunnudagskvölda þeirra sem haldin voru árum saman hér heima, þá verð ég að upplýsa að ég fer ekki út í ítarlegar útskýringar núna, þótt það væri freistandi. Stutta útgáfan er þessi: Í 17-18 ár komu vinir, kunningjar og vinir vina minna saman hér heima á sunnudagskvöldum, drukku saman kaffi og borðuðu osta og/eða kex, spjölluðu og hlustuðu á fáránlega tónlist í bland við aðra venjulegri.

Tvö eða þrjú ár eru frá því þessi siður lagðist af vegna ýmissa viðburða í tilverunni og stundum söknum við, mörg hver, sunnudagskvöldanna. Fyrir hreina tilviljun var þó óvænt sunnudagskvöld hjá mér í kvöld.

Tilviljun 1: Talaði við Elísabetu systur þegar hún var stödd í nágrannabyggðarlagi ásamt Nínu systur og við ákváðum að hittast hjá mér eftir smá tíma. Tilviljun 2: Meðan ég beið eftir að fá systurnar í heimsókn (sem flokkast nú bara undir fjölskylduheimsókn) þá hringdi annar góðvinur sunnudagskvöldanna, Halldór, og við lentum á dæmigerðu sunnudagskvölda-flippi, en hann ber ábyrgð á mörgum furðulegustu tónlistaratriðunum sem kynnt hafa verið til sögunnar á sunnudagskvöldum. Var enn að kjafta við hann þegar systur mínar komu og þannig æxlaðist að áður en ég gat rönd við reist var Halldór búinn að senda mér tvo mjög geggjuð lög í tölvupósti, sem mér var uppálagt að hlusta á. Það er reyndar allur gangur á því hvort ég hlýði því. Elísabet systir átti eftir að tékka á hvort hann hefði fengið undarleg skilaboð úr nýlegu afmæli, skilaboð sem hún hélt jafnvel að gætu valdið vinslitum. Þannig að skyndilega var hún komin í hrókasamræður við Halldór, annað fyrirbrigði sem var furðu algengt á  sunnudagskvöldunum sálugu: Það er að fjarstaddir væru dregnir með í fjörið í gegnum raðsímtöl.

Svo þegar systur mínar voru lausar úr síma og spjalli við feðgana niðri í stofu (yfir frekar hefðbundnum sunnudagsveitingum) fórum við upp á loft í tölvuna mína. Það var orðið æði algengt á sunnudagskvöldum í seinni tíð að safnast væri saman kringum einhverja tölvuna. Þar spilaði ég fyrir þær Hó, hó Eurovison lagið hans Barða, sem þær höfðu ekki heyrt. Lagið sló í gegn enda eru hljómgæðin í gömlu tölvuhátölurunum mínum eru talsvert mikil, en á því þarf lagið að halda til að njóta sín til fulls. Fann þetta lag reyndar ekki strax á RUV-vefnum, sem var frekar lélegt því ég setti sjálf link á það hér á blogginu. Því leitaði ég aðstoðar í Ungverjalandi (með aðstoð msn) og Hanna mín fann það fyrir mig í hvínandi hvelli. Og fyrr en varði sátum við og hlustuðum á dellutónlist, meðal annars framlagið frá Halldóri, sem ekki olli vonbrigðum. Sannkallað en óvænt sunnudagskvöld, þótt það sé ekki kominn nema föstudagur. Gurrí mín, hvar varst þú eiginlega? Eða Óli Sig.? Þetta er engin frammistaða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Sat í leisígörl með hitapoka við bakið og bölsótaðist yfir lélegri sjónvarpsdagskrá seinni hluta kvölds ... Hefði svo gjarnan vilja vera með ykkur. Sunnudagskvöldin fyrir 1990 voru náttúrlega einstök áður en 3/5 klúbbsins ákvað að flytja til útlanda. Alltaf gaman samt og fínasta endurnýjun! Halldór frændi er sannkallaður smekkmaður á tónlist ... eins og þú.

Guðríður Haraldsdóttir, 17.11.2007 kl. 13:23

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Við gerum eitthvað í þessu á nýju ári! Og tryggjum þér þátttöku. Get huggað þig á því að það eru ekki komnir sérlega bakvænir stólar upp ennþá, en það stendur allt til bóta.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.11.2007 kl. 13:44

3 identicon

Mikið er gaman hjá þér. Liggur við að ég öfundi þig af því öllu nema laginu hans Barða. Ég er hrifin af mörgu frá Barða en ekki þessu lagi. En talandi um sunnudagskvöld. Það eru einu kvöldin sem ég sit límd við dagskrá stöðvar 2. Fyrst Monk, svo Næturvaktin og svo Damages. Verst að Monk er líklega hættur eftir að Prison Break byrjaði. Annars ætla ég að fara að hætta í áskrift þannig að kannski ég ætti að gera sunnudagskvöld að svona social kvöldi. Ekki galin hugmynd.

Anna Ólafsdóttir (anno) 17.11.2007 kl. 14:56

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Monk er heilagur, því miður hættur í bili. Ég læt alltaf blekkja mig til að horfa á Prison Break, en núna ætla ég ekki að láta plata mig, eða það held ég alla vega. Hins vegar er ég ekkert húkkt á Næturvaktinni, en gef henni auga þegar því er að skipta. Næst þegar ég tek sunnudagskvöldin upp þá er ég að hugsa um að nota föstudagskvöldin í þau, sé samt til.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 18.11.2007 kl. 01:03

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband