Ég þarf eiginlega að fara að lesa Álftaness sögu

Sú saga er sögð um einhvern náunga sem tók þátt í spurningakeppni, sem haldin var á Hótel Borg held ég, fyrir eitthvað um það bil sextíu árum, að hann hafi getað hlustað á hvaða texta sem var og sagt úr hvaða bók hann væri. Þar kom þó að hann gataði, og bókin var eftir hann sjálfan! Þá á hann að hafa sagt: ,,Þá bók hef ég að vísu skrifað, en aldrei lesið." Ef einhver getur sagt mér nánari deili á þessum manni þá er það vel þegið, ég er alin upp með sögunni en man hana ekki á annan hátt en þennan.

En ástæðan fyrir því að ég rifja þessa sögu upp er sú að ég hef nokkrum sinnum að undanförnu heyrt eitthvað sem mér finnst áhugavert um sögu Álftaness og verið sagt að þetta stæði í Álftaness sögu. Það er svo sem allt í lagi, nema hvað ég skrifaði hana víst sjálf og það angrar mig aðeins að þekkja ekki efni hennar betur. Það eru ekki nema tólf ár síðan ég lauk ritun hennar.  Og núna, þegar ég er á fullu að skrifa texta sem varðar sögu Álftaness, þá er ég alltaf að uppgötva eitthvað nýtt, sem ég mundi ekki. Þannig að kannski væri það þjóðráð að lesa nú Álftaness sögu einhvern tíma. 

Annars er þetta að frétta af frelsisvinnunni minni: Brjálað að gera þrátt fyrir að Sandgerðissaga sé í biðstöðu meðan ég fæ viðbrögð við áætlun sem ég var að senda til ritnefndar. Er að reyna að sökkva mér ofan í stærðfræðina en líklega hef ég þurft að ljúka því verkefni sem ég er í núna til að geta einbeitt mér betur að henni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessuð láttu þér nú ekki detta í hug að lesa Álftaness sögu. Fáðu fólk heldur til að segja þér meira úr þeirri bók!  En þessi á Borginni, heldurðu að hann finnist á ættartrénu þínu? (Bara svona að velta fyrir mér að flest erfist - líka að vera utan við sig)  

Helga 16.11.2007 kl. 01:57

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Fljótlegra að lesa hana sjálf. Mér leikur hins vegar mikil forvitni á að vita hver náunginn á Borginni er, held ég myndi vita það ef hann væri skyldur mér, þannig að það eru líklega tveir viðutan ættleggir í gangi, lítið skyldir (allir Íslendingar eru skyldir í einhvern lið). Þetta er annars að verða svolítil anatómía, leggir og liðir ... ;-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.11.2007 kl. 13:19

3 identicon

Anatómía, já. Svo leggur kona konu lið.  Ansi notadrjúg orð.

Helga 16.11.2007 kl. 20:36

4 identicon

Björn Sigfússon, háskólabókavörður. Og þetta átti að hafa verið doktorsritgerð hans.

Þ. 19.11.2007 kl. 00:42

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk innilega, Þ, mig hefur lengi langað að vita þetta!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 19.11.2007 kl. 17:49

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband