Flug og frestanir

Tæplega þriggja tíma frestun á flugi er svo sem ekki mikil, nema kannski ef frestunin er frá klukkan tvö til að verða fimm að nóttu. Var svo ljónheppin að eiga mág í Barcelona þannig að eftir vænan blund heima hjá honum héldum við nokkrir ferðafélagar þokkalega hvíldir af stað um miðja nótt út á flugvöll. Ferðafélagarnir, sem beðið höfðu á vellinum mislengi, voru margir frekar framlágir þegar við mættum, kona með ótrúlega þægt barn hafði til dæmis beðið frá því um tíu leytið kvöldið áður. Hvers vegna hún mætti svona snemma veit ég reyndar ekki. Tvær vélar voru til Keflavíkur, við Heimsferðalangar þurftum ekki að bíða svo óskaplega lengi en hitt flugið sýndi alla vega sjö stunda frestun.

Sjaldnast neitt við svona löguðu að segja og eftir að hafa horft á fyrri myndina á leiðinni var bara að leggja sig, sem yfirleitt gengur vel, reyndar svo vel að ég svaf í gegnum lendinguna. Rumskaði reyndar svona hálftíma áður þegar skandinavíski flugstjórinn fór að segja brandara: ,,Svona lítur öryggisbeltaljósið út þegar kveikt er á því og svona þegar slökkt er á því! Núna er kveikt á því og allir eiga að drífa sig í sætin." Þetta endurtók hann tvisvar þar til tókst að smala liðinu í sætin. Norrænn húmor. Svo datt ég aftur útaf þegar ég kom heim í morgun, þannig að ég missti af tíma og ætla að bæta það upp með aukinni áherslu á heimadæmin, sem hvort sem er þarf að sinna. 

Eftir að heimanám og vinna hafa fengið þann fókus sem nauðsynlegt er ætla ég að reyna að setja inn myndir og smá ferðasögu úr frábærri ferð til Barcelona.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband