Barist við vindmyllur

Á ráðstefnunni sem ég fór á í Helsinki um verslunarmannahelgina var meðal annars fjallað um aðra valkosti en kjarnorku sem orkugjafa. Eins og flestir vita efu Danir framarlega í notkun vindmylla og prófessor við Álaborgarháskóla sem er í fremstu röð á sínu sviði í heiminum talaði m.a. um vindmyllur, sólarorku af ýmsu tagi og fleira. Hér er sólarorka notuð til að hita upp heilu sumarbústaðina en engar vindmyllur (hef að vísu frétt af myllum úti á landi sem hættar eru notkun, held það séu allt vatnsmyllur). Hef spurt nokkra Íslendinga eftir að ég kom heim hvort þeir kannist ekki við mýtuna um að það sé OF hvasst á Íslandi fyrir vindmyllur. Jú, flestir hafa heyrt það. En alla vega ég bara VARÐ að heyra skoðun sérfræðingsins á þessu. Hann fékk flog af hlátri. Sem sagt, ég er gengin í lið með ,,mythbusters" og búin að hrekja eina mýtu nú þegar. Mágkonum mínum leist ekki meira en svo á blikuna vegna þessarar umræðu minnar, þegar ég sagði þeim frá henni, og vildu nú ekki að ég færi að agitera fyrir vindmyllum út um allt Ísland. Mér FINNST reyndar að við eigum að nýta alla orkugjafa en ekki einblína á einn eða tvo, en það er önnur saga. Og alltaf þegar ég ek um flatar sléttur fyrir neðan Landvegamótin þá sé ég fyrir mér að þarna myndi það ekkert skemma að hafa smá vindmylluakur. Aðallega er mín hugsun, vindurinn er svo mikill hjá okkur, þetta er orkugjafi, veltu því alla vega fyrir okkur hvort við ættum að nýta hann. Tek á móti stuðningi og skömmum einmitt hér. Þetta heitir sko að berjast við vindmyllur. (Já, ég hef lesið Don Kíkóta). 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl. Smá ábending út af vindmyllum. Í Danmörku er rafmagn framleitt með olíu eða kolum. Hver kílóvattstund sem framleidd er með vindmyllu sparar því brennsluefni. Á íslandi er rafmagn framleitt með vatni frá vatnsföllum eða gufu frá hverasvæðum, þessvegna sparast ekkert við að framleiða rafmagn með vindmyllum hér. Vindmyllur geta framleitt afl c.a. 25 % tímans, þess vegna þarf aðra virkjun til að brúa bilið þegar framleiðsla er ekki í gangi. Hverskonar virkjun ætti það að vera? Kveðja GJ

Guðjón Jónsson 17.8.2007 kl. 00:33

2 identicon

Sæl. Það er alltaf gott að fólk velti fyrir sér orku auðlindum. Þegar talað er um vindmyllur á Íslandi loka allir eyrunum og segja að það gangi aldrei. Ýmist er sagt of mikill vindur eða ekki nógu jafn vindur. Það er mest allt rétt sem Guðjón bendir á hér að ofan en það væri vel hægt að fara aðrar leiðir á Íslandi. Til dæmis væri hægt að láta vindmyllur knía lokað vatnskerfi sem er lagt með góðri fallhæð. Þannig væri hægt að fá stöðuga orku. Í kringum þetta gæti svo skapast smá iðnaður og bændur og aðrir sem landsvæði hafa undir slíkar virkjanir fengju smá búbót. Þessi hugmynd kemur þó aðeins til góða þar sem fallhæð er nóg og ekkert vatn er til að virka. Því bið ég fólk að falla ekki í þá gryfju að loka á vísindin heldur halda öllum möguleikum opnum í framtíðinni . Kveðja Haraldur H 

Haraldur Hilmarson 17.8.2007 kl. 08:47

3 identicon

Sæl vertu, 

Takk fyrir þessa skemmtilegu færslu . Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér þessum möguleika en það stendur til hjá mér að byggja á suðurlandsundirlendinu þar sem oft er mikill vindur. Ég hef áhuga á að fá mér vindmyllu t.d. þar sem að ég hef ekki aðgang að hitaveitu og þarf því að nota rafmagnsofna og hita vatnið með rafmagni. Ekki væri slæmt að skella upp einum rafmagns nuddpotti upp í leiðinni en það færi eftir stærð myllunar. 

Draumurinn væri sem sagt að geta látið vindmilluna malla og síðan þegar svo ólíklega vill til að engin vindur væri að þá myndi "venjulega" rafmagnsveitan taka við. Ég gæti trúað að ég væri ekki mjög lengi að spara fyrir kostnaði vindmillunar. Ég er á byrjunarreyt í þessum pælingum og hef heyrt af íslensku fyrirtæki (Vindorka??) sem var með einhverja nýja uppfinningu, en það virðist hafa koðnað niður (ætli Landsvirkjun hafi drepið það í fæðingu??)

Ég auglýsi hér með eftir fólki sem getur frætt mig um þessi mál. Hvernig er það annars með sólarsellur er það ennþá of dýr lausn? Kannski að Richard Úlfarsson viti svörin:

http://www.vindorka.com 

Best að senda honum línu.

- Bjarki Björgúlfsson 

Bjarki Björgúlfsson 17.8.2007 kl. 09:57

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk fyrir innlegginn. Markmiðið var að fá umræðu. Þessi umræða var kýld í kaf fyrir svona 10-15 árum með rökum sem greinilega halda ekki (lengur). Ég veit ekkert mikið um vindmyllur, en vil vera opin fyrir öllum orkugjöfum. Við votum aldrei hvenær þetta eða hitt verður hagkvæmara en eitthvað annað. Opinn hugur hefur aldrei skaðað neinn en lokaður getur gert það. Hvort aðrar þjóðir gera eitthvað eða ekki ætti varla að skaða, hver veit nema við höfum gott af að skoða reynslu annarra. 

Og nei, ég vil ekki vindmyllur í Viðey en gæti sjálf alveg séð fyrir mér vænan akur sunnan við Landvegamót, það er mín persónulega skoðun. Ég veit ekki betur en það sé skipt milli mismunandi raforkugjafa á kerfi Landsvirkjunar nú þegar. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.8.2007 kl. 14:33

5 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Þegar ekið er um Tenerife sést í vindmillur á litlu svæði. Þær framleiða 5% orkunnar sem notuð er á eyjunni.  Restin er framleidd með gasi skilst mér.

Minnsta Kanaríeyjan, El Hierro er hins vegar búið að setja sér makmið. Þeir ætla að fá alla orku fyrir eyjuna úr vindmillum og verða fyrsta sjálfbæra samfélagið í heiminum.

Rafmagn verdur búið til fyrir 8.000 íbúa eyjarinnar med vindmillum. Við það spara eyjaskeggjar heiminum losun upp á 18.700 tonn af koltvísýringi og 6.000 tonn af díselolíu.

El Hierro er annars frægust fyrir það að það var síðasti viðkomustaður Kólumbusar áður hann hann hélt vestur um haf. Þá var eyjann talinn endi jarðar af sumum. 

Sigurpáll Ingibergsson, 17.8.2007 kl. 22:34

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér finnst alltaf gaman að sjá vindmylluakurinn á Gran Canaria, þrátt fyrir náttúrufegurðina þá taka þær sig bara vel út. Takk fyrir fróðleikinn, Sigurpáll, er er allt of löt að lesa um þessar eyjar sem mér eru samt mjög kærar.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.8.2007 kl. 23:14

7 identicon

Með fullri virðingu þykir mér þessi umræða lykta af NIMB (Not In My Backyard) heilkenninu. Að sjálfsögðu má ekki setja upp vindmyllur þar sem þær gætu sært fegurðarskyn viðkvæmra höfðuðborgarbúa, en að sjálfsögðu má drita þeim um sveitir landsins þar sem dreifbýlistútturnar geta unað við dyninn af þeim næturlangt.

Að allri kaldhæðni slepptri, þá lýst mér nú betur á að fylla upp í skurðina umhverfis óræktartúnin á Suðurlandi og freista þess að ná aftur mólendinu sem þeir eyðilögðu. Þá væri von til þess að mófuglastofnarnir næðu sér á strik á ný. Það er einmitt einn megin ókosturinn við þessar vindmyllur (fyrir utan hvað þær valda hrikalegri sjónmengun) að þær stráfella alla fuglastofna í nágrenninu.

Má ég þá frekar biðja um falleg uppistöðulón á borð við Elliðavatn og Þingvallavatn :)

Sigurður E. Vilhelmsson 18.8.2007 kl. 11:33

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband