Framlag þeirra, sem ekki eru á netinu, til fegurðarsamkeppni íslenskra orða

Viðbrögðin sem ég fæ við fréttinni í sjónvarpinu í gær um fegurðarsamkeppnina okkar láta ekki á sér standa. Og nú er ég farin að heyra í fólkinu sem er ekki á netinu. Auðvitað er flestum það ljóst að lokað hefur verið fyrir tilnefningar, en rétt eins og fleiri falleg orð hafa komið til sögunnar eftir það, þá ætla ég að koma hér að smá innleggi úr símtölum og spjalli:

Lausaleikur, þetta orð nefndi ég í gær, afi minn sem var kvensjúkdóma- og fæðingalæknir á fyrri hluta 20. aldarinnar hafði mikið dálæti á þessu orði vegna þess að það væri svo lýsandi fyrir nákvæmlega þær aðstæður sem gátu komið upp, þegar stúlkur áttu börn í lausa-leik (og honum var sannarlega annt um örlög bæði stúlkna og barna) ... þessar aðstæður sem voru á þeim tíma oft erfiðar. Núna held ég að orðið hafi glatað merkingu sinni miðað við aðstæður í samfélaginu - er einhver lengur að tala um að barn fæðist í lausaleik? Ég verð seint þreytt á að minna á það sem dóttir mín sagði, 3ja ára gömul, þegar við foreldrar hennar vorum að fara að gifta okkur: Nei, ert þú að fara að gifta þig, mamma? En gaman, pabbi líka! 

Þá hafði samband við mig maður sem var 52 ára þegar hann eignaðist yngsta barnið og þolir ekki orðið örverpi, sem hann heyrir æði oft. Stingur upp á orðinu kvöldljós í staðinn.

Og kona sem hringdi í mig í gær var að velta fyrir sér hvort þátttakan í keppninni hefði verið bundin við nafnorð. Svo er ekki. Henni finnst sögnin að njóta svo falleg.  

Og svo er komin stuðningsyfirlýsing frá ljósmóður við orðið ljósmóðir. Því miður get ég ekki kosið fyrir hana en þessu er komið á framfæri. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Sæl Anna

Ég á eitt örverpi og mér finnst kvöldljós, lýsa betur þeirri upplifun. 

Ester Sveinbjarnardóttir, 20.7.2007 kl. 13:25

2 identicon

Sæl Anna

Ég er hrifin af þessu framtaki þínu með fallegustu orð íslenskrar tungu. Ljósmóðir er án efa fegursta orðið, en það er eitt orð sem mér finnst afskaplega fallegt en er ekki oft notað í daglegu tali. Þetta er orðið Maríutjásur, en það hefur verið notað til að lýsa þunnri skýjabreiðu á himni sem er eins og ullartjásur að sjá. Gamla fólkið sagði að María mey væri að breiða út ullina sína þegar þessar tjásur birtust á himni. Sjást oft á kyrrum sumarkvöldum.

Sesselja Jónsdóttir 20.7.2007 kl. 15:05

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Svona snúast hlutirnir. Dætrum okkar hjóna finnst dæmalaust óréttlátt að við foreldrar skyldum giftast áður en þær fæddust. Auðvitað vildu þær vera þátttakendur!

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 23.7.2007 kl. 11:59

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband