Forsjárlaust kapp

Mér skilst að kapp sé best með forsjá. Grunar samt að lesendur þekki forsjárlaust kapp, þegar við æðum áfram langt umfram áætlun og stundum líka getu. Er svolítið veik fyrir því þegar það hendir, sem er svosem ekkert voðalega oft, svo framarlega sem það kemur ekki í bakið á mér - og hér á ég við það í bókstaflegri merkingu, bakið er veiki hlekkurinn þegar ég er eitthvað að djöflast. Hvort sem þið eruð að ofgera ykkur í fjallgöngum, eins og sumir vinir mínir, ekki ég, eftir að ég lét undan blessaðri lofthræðslunni, eða bara að taka tarnir í einhverju allt öðru, eins og mér hættir til að gera, kappið keyrir okkur oft hæfilega langt áfram.

2023-07-22_00-36-04

Fáránlega langar og harðar tarnir hafa oft skilað skemmtilegri útkomu þegar ég hef verið að glíma við verkefni í myndlist, en það má líka virkja keppnisskapið í hversdagslegri iðkun og í þeirri stöðu er ég þessa dagana. Finn að mér hleypur kapp í kinn þegar ég er komin á gott skrið og það skilar alltaf einhverju góðu. Sumum finnst mest gaman að keppa við aðra, mér dugar að keppa við sjálfa mig. Stundum vantar þá agnarögn upp á að vera forsjál, en það gerir ekkert til. Langtímamarkmiðið er alltaf þekkt og að því má vinna og helst fara framúr. 

Held ég geti þakkað Georgi bróður mínum það að ég fór að kannast við að hafa keppnisskap og þora að spila á það (og sjálfa mig í leiðinni). Í því undantekningartilfelli snerist það um að vinna einhverja aðra en sjálfa mig, það er að segja hann, í skvassi meira að segja. ,,Þú vilt bara tapa," sagði hann stríðnislega og meira þurfti ekki og mér fór hratt fram í íþróttinni á kappinu einu saman. Það hefði líklega farið illa ef ég hefði ekki á kapplausa tímabilinu lært sitt af hverju í tækninni og sótt mér kennslu í skvassi. Í því tilfelli smá forsjá, en það vissi ég ekki þegar ég var að læra. Spurning hvort forsjá án kapps sé algeng, spyr sú sem ekki veit. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband