Meira um bókabúðir ... og bókasöfn - aðeins fyrir bókaunnendur

Datt niður á aldeilis yndislega umræðu um bókabúðir hjá einum bloggvini mínum, Júlíusi Valssyni, þar sem unnendur bókabúða hafa sannarlega dottið í skemmtilega umræðu. Og auðvitað blandaði ég mér í umræðuna, en finn að ég var ekki hálfnuð með allar yndislegu bókabúðaminningarnar þegar ég ákvað að setja punktinn. Og þess vegna er bara best að taka upp umræðuna hérna.

Bókabúðir og bókasöfn hafa einhverja ótrúlega töfra. Fyrsta ástin mín á því sviði var litla útbú  Borgarbókasafnsins við Hofsvallagötu, þar sem mátti ekki taka nema 4 bækur á dag. Oft reyndist það of lítið. Seinna fór ég að læra bókmenntafræði í háskóla og eftir það hefur lestrarhraðinn dottið aðeins niður, en athyglin færst á fleiri atriði en bara blákaldan þráðinn. Á menntaskólaárunum tók ég ástfóstri við aðalsafnið í Þingholtsstræti (þar sem ég held að sé nú einkavilla Odds Nedrums) og loks var það Landsbókasafnið sem heillaði. Einu jólafríinu varði ég á bókasafninu í Bristol í Englandi og las þar undir próf og undraðist lélegar bókakost. Hafði ekki haft með mér nema 25 kg af bókum og treyst því að ég fyndi restina sem mig vantaði á ensku bókasafni. En notalegt var það engu að síður.

Einkabókasafnið Gurrí á Akranesi er eitt skemmtilegasta bókasafn sem ég kem á, enda leggur Gurrí metnað sinn í að stilla upp hlið við hlið Ísfólkinu og Birtingi eftir Voltaire.

Bókabúðir nálgaðist ég hins vegar af meiri lotningu og varúð til að byrja með. Lotingu af því ég þorði ekki að detta í lestur (og gat þar með ekki leikið eftir það sem sagt var um einn sem rölti niður Laugaveginn milli bókabúðanna meðan þær voru fleiri en nú og náði að ljúka nýútkominni bók í einni slíkri ferð). Varúð af því bækur kosta peninga. En svo fann ég fornbókaverslanirnar, við Gunna vinkona fórum aðallega á Laufásveginn og einhvern veginn var allt til þar, eða næstum allt. Ég á líka góða minningu frá Prag úr fornbókaverslun sem seldi mikið af íslenskum bókum, aðallega Laxness og Kristmann, og aðallega á tékknesku. En innan um mátti sjá ótrúlegustu höfunda. Fornbókasalar á götum úti á Kúbu og í London eru líka spennandi. Mamma sér um þessa deild fyrir hönd fjölskyldunnar núna og hefur fært mér ófáar perlur frá Braga á Hverfisgötunni. 

Núna er hins vegar svo komið að ég kaupi bækur aðallega á ferðalögum og í fríum, en það ræðst bara af tímaleysi. Eitt og eitt kvöld í Mál og menningu krydda lífið að vísu. Og á netinu finn ég margar ófáanlegar gersemar, seinast framtíðarskáldsögu um róbota eftir Karel Capek, tékkneskan höfund sem m.a. skrifaði bókina Salamöndrustríðið, það merkilega er að þetta var skrifað um 1950. Hlakka til að lesa hana, hún hefur verið ófáanleg um áratugaskeið. Nú er ég að leita að bók um anarkisma, sem hefur verið ófáanleg lengi, er eftir Georg Crowder, nýsjálenskan frænda minn sem ég hef aldrei hitt, við þetta með anarkismann er greinilega í genunum.

Á ferðalögum er hins vegar alltaf hægt að finna tíma fyrir bókabúðir. Og fátt eins yndislegt og góð bókabúð í nýrri borg. Kvennabókabúðin í Tucson sem Nína systir kynnti mig fyrir, grúskbúðin á leiðinni til Georgstown í Washington sem Jón Ásgeir sýndi mér, stóra búðin í New Haven sem Heiða og Fibbi sýndu mér og svo uppáhaldið mitt, Foyles í London, þar sem ég er annar eða þriðji ættliðurinn sem eyði þar ómældum stundum. Ég hreinlega elska Foyles, þar keypti ég fyrstu kennslubækurnar mína í serbókróatísku á fimmtu hæð árið 1970 og svona tíu kíló af stærðfræði og tölvubókum í seinustu almennilegu ferðinni minni þangað, fyrir rúmum tveimur árum. Síðan hef ég reyndar komið þangað svona 2-3 sinnum, en maður verður að stoppa í nokkra klukkutíma til að njóta verunnar þar til fulls. Og það er einmitt kjarni málsins, það eru ekki allir eins og Jón Ásgeir, Heiða og Fibbi, og stundum verður fjölskyldan óþolinmóð. Þetta er vandamál sem við Nína systir eigum báðar við að stríða, þannig að við fórum í bókabúða-sukkferð til London fyrir 2-3 árum, saman, aðeins ríflega helgarferð, og eyddum 22 stundum þar af í bókabúðum. Náðum samt leikhúsi og síðdegis-sunnudagboði í Camden í leiðinni.

Og þá eru ótaldar stóra Barnes and Nobles í New York, sem ég hef alls ekki fullkannað enn og mun sjálfsagt aldrei gera, fallega en fátæklega bókabúðin í Lancaster og þessi tveggja hæða í Liverpool, en ég fór reyndar sérstaka ferð frá Lancaster til Liverpool, gagngert til að komast í almennilega bókabúð! Svo eru nokkrar afspyrnudýrar bókabúðir í Osló og Kaupmannahöfn sem ég hef stundum glapist til að heimsækja, en þar verslar maður ekki nema í neyð. Dýrari en íslenskar bókabúðir! 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilegur pistill hjá þér.  Það er einstakur sjarmi yfir bókabúðum og notalegt að gleyma sér það klukkutímunum saman. Þegar ég dundaði mér í bókabúðum í Prag í leit að vandaðri tékkneskri-enskri og enskri-tékkneskri orðabók (sem ég reyndar fann á endanum og keypti), þá sjá ég hvorki Laxness né Kristmann eins og þú heldur Nonna. Á götumarkaði í Istanbúl vildu karlar hins vegar ólmir selja mér hvert "meistarastykkið" eftir annað og urðu afar hnuggnir þegar ég sagði þeim að ég læsi ekki tyrknesku, en síðan duttu þeir niður á "lausn" og sóttu arabískar útgáfur. En, því miður, ég var jafnilla sett með arabísku og tyrknesku. En þarna voru þeir að selja sögulegur bækur sem mér sýndist vera áhugaverðar og verðið var sorglega lágt séð með augum seljenda. Líklega hefði ég rogast heim með mörg kg hefði ég getað lesið þær.

HG 2.6.2007 kl. 20:24

2 Smámynd: Ólafur H Einarsson

Það er aldrei of mikið af bókum.  En varðandi það að kaupa bækur erlendis þá eru flugfélögin búin að drepa það.  Yfirvigtin kostar orðið það mikið að ég er alltaf í basli með það.  Það þarf að fá sérstaka vigt fyrir bækur hjá flugfélögnum sem reiknast ekki með farangri.  Flugfélögin eru bókfjandsamleg.  Takk fyrir pistilinn og ekki hætta að tala um bækur.

Ólafur H Einarsson, 3.6.2007 kl. 01:17

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Oft lent í þessum vandræðum sem Ólafur nefnir, en hingað til sloppið með skrekkinn þótt bækur séu óþarflega þungar og flugfélög óþarflega bókfjandsamleg.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.6.2007 kl. 01:42

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég gæti eitt heilu dögunum í bókabúðum, er alltaf að kaupa mér nýjar bækur ;)

Ester Sveinbjarnardóttir, 3.6.2007 kl. 02:15

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Ummmm, elska bókabúðir! Þegar mér tókst að stinga samstarfskonurnar af í London fyrir jólin og var ALEIN (jesssss) fór ég í bókabúð (líklega Foyles) og varði þar drjúgum tíma. Ef bókaormar eru ekki með í för á maður að stinga þá af.

Bjó í sama húsi og uppáhaldsbókasafnið þitt við Hofsvallagötu og fannst skelfilegt þegar það flutti út á Grandaveg. Fór þá bara að safna bókum sjálf frekar en að fara á Grandaveginn. Verst að Dean Koontz-bækurnar mínar hylja algjörlega Ísfólkið, raða tvöfalt í hillurnar núna. Enda les ég Ísfólkið ekki nema fimmta hvert ár. Dean oftar. Skrifaðu endilega oft og mikið um bækur, dásamlegt umræðuefni.

Guðríður Haraldsdóttir, 3.6.2007 kl. 03:20

6 identicon

Uppáhaldsbókabúðin mín er Waterstone á Princes Street í Edinborg. Verð í viku í Edinborg í sumar og fer örugglega minnst einu sinni á dag þangað, næ mér í bók og sest í kaffikrókinn.

Uppáhaldsbókasafnið er Þjóðarbókhlaðan. Ég leigði mér vinnuherbergi þar í hálft ár á síðasta ári og það er allt eitthvað svo notalegt við andrúmsloftið þar. Dóttir mín hefur mikið notað það í sínu námi líka. Þegar ég er fyrir sunnan í námstörn lærum við gjarnan þar báðar og tökum svo pásu á kaffihúsinu þar. Nice

Anna Ólafsdóttir (anno) 3.6.2007 kl. 13:33

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Á tímabili var Dillons (seinna Waterstone) í London - stóra búðin nálægt Russel Square - í enn meira uppáhaldien Foyles hj'amér.Þekki innviði þeirrar verslunar jafnvel betur en Foyles, en  nú hefur henni hnignað aðeins, vonandi bara tímabundið. Skyldustoppustöð engu að síður.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.6.2007 kl. 16:25

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband