Samkvæmislíf helgarinnar - óvirk hestakona og tímaskyn tveggja ætta

Fermingavertíðin er hafin og hófst með miklu brag í tengdafjölskyldunni minni, sem er reyndar ekki bara fjölskylda heildur heill ættbálkur. Á hverju ári eru haldin nokkur fjölskyldumót og meðalþátttaka aldrei undir 70 manns, oft nær 100. Fall er fararheill, við mættum stundvíslega, klukkutíma of seint. Smá misskilningur í gangi, í þetta sinni meðal innfæddra í ættbálknum, ég átti sem sagt ekki sök á þessum misskilningi að þessu sinni. En þar sem ég veit að ligg ávallt undir grun, þá fékk minn ástkæri að útskýra seinkunina óvenju ítarlega. Stundvísi hefur aldrei verið minn helsti kostur, þótt ég geti, með miklum sjálfsaga, haldið mig á mínútunni ef ég er í erindum vinnunnar eða að fara í jarðarfarir. Og svo giftist ég manni með sama þol fyrir tímasetningum þannig að við ættum sennilega að biðja börnin afsökunar á gölluðum genum. Velkist einhver í vafa um að svona geti legið í genum þá vil ég benda á að tvö hálfsystkini mín eru alin upp í systkinahópum allsendis óskyldum okkur, og skildu aldrei af hverju þau voru svona miklu frjálslegri í mætingu en hin systkini þeirra. Þegar við fjögur systkinin í okkar ætt loksins náðum saman og fórum að bera saman bækur okkar, þá kom ýmislegt merkilegt í ljós, m.a. ótrúlega lík rithönd þriggja systkinanna og óstundvísi annarra þriggja ... sú okkar sem á svissneska móður er stundvís. En þetta ætlar að verða skemmtileg fermingarvertíð.

Svo er auðvitað  sveitin mín, Álftanesið, með öllu sínu fjölbreytta félagslífi. Við sláum mörgum afskekktari bæjum úti á landi við í félagsstarfi innan sveitar. Með eigin ungmennafélag, kvenfélag, Lions, Rauða kross deild, Fugla- og náttúruverndarfélag, skáta, hestamannafélagið Sóta, Dægradvöl (menningarfélag), eldri borgara félag, kór og þannig mætti lengi telja, - eitt sinn var hér meira að segja eigið hundaræktarfélag. Í gær var það hestamannafélagið sem var með Góugleði, sem alltaf er mikil gleði. Í pínulitla félagsheimiliu var etið vel, drukkið, spilað á gítar og sungið undir forystu fyrrverandi bæjarstjóra og Jörundar Dalamanns (vissuð þið að Eurovisionlagið (Ég les í lófa þínum) er frábært sing-a-long lag?) Og loks var dansað eins og gólfrými leyfði. Þetta eru einstakar skemmtanir og hesthúsin eru á miðju nesinu (ennþá) þannig að allir gátu gengið heim sem ekki voru svo heppnir, eins og við, að eiga son sem sótti okkur.

Ég telst til óvirkra hestamanna. Þeir gera allt sem aðrir hestamenn gera, nema fara á hestbak. Ég drekk sem sagt kaffi, get drukkið brennivín og etið hákarl, tekið í nefið, ég heyja, rek saman hesta, kembi, fer í hestaferðir og var á tímabili liðtæk í hestaættum. En fer helst ekki á bak síðan ég hryggbraut mig um árið. Átti yndisleg unglingsár á hestbaki, en þau eru liðin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hahhaha, frábær færsla. Maður hefur svo sem heyrt um fólk sem þarf að bjóða á sérstakan hátt, segja að veislan hefjist kl. 3 á laugardegi til að það mæti örugglega kl. 4 á sunnudegi þegar veislar er! 

Álftanesið þitt er frábært, alveg einstaklega skemmtilegt samfélag!  

Guðríður Haraldsdóttir, 25.3.2007 kl. 14:33

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Já, bróðir minn er enn ekki kominn í eina veisluna, en ananrs er ótrúlega gaman að giska á hvenær hann kemur, ég er yfirleitt flokkuð sem eins klukkutíma manneskja, en því er ekki að treysta. Og omurlegasta óstundvísin er auðvitað að mæta of snemma!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.3.2007 kl. 14:45

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband