Virðing fyrir veðrinu í hraðanum í tilverunni

Veðrið hefur verið æði brösótt að undanförnu, ekki síst í dag, og það hefur varla farið framhjá nokkrum. Hvort sem veðrið þessa dagana er beint eða óbeint afleiðing gróðurhúsaáhrifa þá þarf alla vega að taka það alvarlega. En hvaða svigrúm hefur venjulegt fólk til að virða veðrið? Skuldbindingar vegna vinnu og annarra skyldna verða stundum til þess að fólk leggur út í færð og veður sem í rauninni ætti ekki að þurfa. Oft eru það einhverjar gerviþarfir sem ráða því, en stundum er það hreinlega þrýstingur vegna samfélagsins sem etur fólki að óþörfu af stað á ákveðnum tíma leið sem kannski er greiðfær fjórum stundum fyrr eða fjórum stundum síðar.

Vissulega hefur margt áunnist á undanförnum árum, meiri sveigjanleiki víða, bæði varðandi vinnutíma, fjölskylduskyldur og möguleika á að vinna heima. Einnig hefur mörgum ofboðið hraðinn og upp úr kenningum um ,,Slow food" hefur sprottið annað sem kalla mætti ,,Hægláta borg" (Slow city). Akureyri hefur hafið þátttöku í þessari hreyfingu, til hamingju með það Akureyringar. Vona að vitundarvakning sé að verða og þetta muni ef til vlll vekja umræðu um hvort það sé alltaf nauðsynlegt að æða af stað á móti veðri, vindum og skynsemi.

Ég held að virðing fyrir náttúrunni og náttúruöflunum sé Íslendingum í blóð borin, en hins vegar vantar svolítið uppá að við séum nógu auðmjúk gagnvart veðurguðunum, þótt ég efist ekki um að í landi grjótfoks, snjóflóða og fárviðra beri fólk, innst inni alla vega, óttablandna virðingu fyrir veðrinu. Ætli það sé ekki stríðni eða ögrun sem ræður því að ætt er út í öll veður og fólk talið frekar huglaust sé það ekki tilbúið að takast á við allt sem veðrið býður upp á. En samt blundar, held ég, þversagnarkennt reyndar, vissan um að veðrið sé kraftur sem við eigum að taka mark á. Minni bara á þá skemmtilegu staðreynd að Íslendingar báðu veðurguðina að redda góðu veðri á 1000 ára kristintökuafmæli landsins. Biskupnum var ekki skemmt, en flestum fannst þetta bara hið besta mál og ég man ekki betur en þeir hafi tekið þessu vel (veðurguðirnir).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mörgum Akureyringum líst reyndar bara mátulega vel á að Akureyri verði "slow city", finnst hún nógu "slow" nú þegar og óttast að blóðið hreinlega hætti að renna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum

Anna Ólafsdóttir (anno) 20.3.2007 kl. 18:21

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég hef aldrei orðið vör við almennilegt rok síðan ég hætti að búa undir Eyjafjöllum.

Ester Sveinbjarnardóttir, 20.3.2007 kl. 19:36

3 identicon

Það er bara fyndið að þú skulir vera að tala um veðrið. Því kennari sagði í tíma að síðustu dagana hefði verið MIKIÐ rok í Ungverjlandi...

Það rétt hreifði vind eða varla það og hann talar um rok... Íslendingarnir skelltu upp úr að hlátri...

Jóhanna 20.3.2007 kl. 19:40

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Gleymdi því auðvitað að bæði veður og hraði eru afstæðar stærðir, en samt er ég viss um að rokið undir Eyjafjöllum slær flestu við. Er Akureyri virkilega svona hæglætisleg, hmmm, já líklega. Þannig að það þarf frekar að hægja á Reykjavík, tökum það til athugunar.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.3.2007 kl. 19:41

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Og eitt um Ungverjaland, hvernig tókst öllum þessum trjám sem við sáum í haust að fjúka upp? Ónýtar rætur? Of mikil yfirbygging?

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.3.2007 kl. 19:49

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Vildi gjarnan að "slow city" yrði Reykjavík.  Lætin og stressið eru stundum meiri en góðu hófi gegnir.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.3.2007 kl. 19:57

7 identicon

Ég fíla hraðann. Elska það að fylgjast með fólk borðandi á hlaupum, talandi í símann, hlaupandi yfir götu og að nikka höfðinu til einhvers hinum megin við götuna á meðan (hef reynda oft spáð í hvort þessar týpur séu gjarnar á að detta eða brenna sig á tungunni). Mér finnst líka frábært fólk sem er að tala í símann þegar það er að versla í matinn og getur ekki beðið eftir að koma til að tala í síma,,, ég elska að fylgjast með öllum hraðanum og spennunni og hugsa oft með mér "hvernig ætli það sé að vera svona?"...... Á meðan sit ég í rólegheitunum, sötra á kaffinu mínu og geyspa,,, ég er nebblega ekki þessi týpa en hefur alltaf langað að prófa  

Kveðja, Oddrún. 

Oddrún 20.3.2007 kl. 20:59

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér heyrist að þú þurfir ekki ,,slow city" Oddrún, þú fórst langt með að sannfæra mig, en svo rjátlaðist það af mér. Bestu kveðjur, Anna

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.3.2007 kl. 21:24

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband