Færsluflokkur: Íþróttir

Bikarinn aftur heim

Ari vann þennan fína farandbikar í fyrra, í íþróttakeppni Sóta, fyrir fimmgang og annan minni til eignar. Svo um daginn þurfti hann að skila honum af því þetta er jú ,,farand"bikar, nema hvað, bikarinn er kominn aftur heim, hann gerði sér lítið fyrir og vann aftur í fimmganginum. Hann og Paradís geta fagnað mjög í kvöld ;-) og ég get endurnýtt myndina frá í fyrra.

Bikarinn hans Ara


Reykjavik - Fisher - Spasskí og allir hinir strákarnir okkar! Hugleiðingar eftir próf

Fyrst smá í leiðinni um handboltalandsliðið. Ég náði seinustu mínútunum, sem voru greinilega ekki þær skemmtilegustu, en skemmtilegar þó. Og bara gaman að fá þá á fullu trukki. Það verður gaman að horfa á fyrri hálfleikinn í endursýningu, búin að frétta af þessum dæmalausu tölum! Var búin að fá sms frá Ungverjalandi til að segja mér að fara að drífa mig að horfa, en ég var að koma úr prófi sem ég hef litla tilfinningu fyrir því hvernig gekk. Mig vantar nefnilega helst 7 í þessu fagi, og mér var bara hreint ekki ljóst um hvað var verið að spyrja í sumum tilfellunum, þannig að ég hef litla hugmynd um hvort markmiðið næst, ekkert gefið í þeim efnum. Þetta próf er þó miklu minni hjalli en það sem ég náði fyrir jól, ég get hækkað mig í öðrum fögum í staðinn eða endurtekið þetta til meiri hækkunnar. Á staðna einkunn í því, sem er of lág.

En þá að aðalefni pistilsins. Það eiga nefnilega margir sínar Fisher-minningar og mín er mjög skemmtileg, segir nefnilega mikið um hversu rosalega merkilegt þetta heimsmeistaraeinvígi Fisher-Spasskí var. Tveimur árum eftir einvígið var ég nefnilega á ferð í gömlu Júgóslavíu, í gömlu Austurlandahraðlestinni, sem fór alla leið til Mið-Austurlanda en ekki bara til Feneyja eins og þessu uppgerða, uppskrúfaða. Kryddlykt og fjölbreytt mannlíf. Og um miðja nótt var vegabréfaskoðun í skugga mikils lestarslyss, sem átti sér stað á brautinni á móti okkur. Júgóslavnesku landamæraverðirnir voru aldeilis ekki á því að það væri til land sem héti Ísland. Bentu á passann minn og sögðu að það væri ekki til land sem héti: Eyja (Island) og þetta væri bara plat-passi. Ég reyndi að sannfæra þá um að þetta land væri til og fram var dregið Evrópukort. En hvað var að finna efst í vinstra horninu? Ekkert Ísland, bara ekki neitt! Nú voru góð ráð dýr, en þá datt mér eitt í hug: Reykjavik-Fisher-Spasskí! sagði ég, og benti á útgáfustað vegabréfsins míns sem var sem betur fór Reykjavík en ekki Hafnarfjörður, eins og það hefði átt að vera. Aha, sögðu landamæraverðirnir, Aha, Reykjavík, Reykjavik-Fisher-Spasskí, og ég var ekki vefengd meira.

En guði sé lof fyrir að Júgóslavar eru líka miklir skákáhugamenn, eins og Íslendingar. Það kom sér að vísu ekki vel fyrir Fisher þegar hann vogaði sér að tefla þar í landi fyrir liðlega áratug, upphafið að útskúfun hans frá fyrrverandi heimalandinu og handtöku og fangelsisvist í Japan. Þeir sem stóðu að heimkomu Fishers til Íslands eiga heiður skilinn og ég gæti sannarlega glaðst ef hann myndi hvíla á Þingvöllum, fín hugmynd, kemur í ljós hvort það verður eitthvað úr því. 


Ég veit að þetta á að vera í blíðu og stríðu, en ...

Ææ, ekki gaman að horfa á Ísland-Svíþjóð. Það er eins gott að við höfum lofað að standa með þeim í blíðu og stríðu, það er þegar verið að innheimta þetta stríða ...

Svolítið einhæft að byrja allar fyrirsagnir á: Áfram ... en sem sagt: Áfram Ísland!

Ekkert meira um það að segja. Mikilvæg handboltahátíð framundan og ég segi auðvitað: Áfram Ísland! Frammistaða strákanna á móti Tékkum var alveg skínandi flott þannig að ég vona sannarlega að þeir njóti sín áfram.

Orðið ljósmóðir sigraði í fyrstu fegurðarsamkeppni íslenskra orða - glæsilegur lokasprettur

Orðið ljósmóðir sigraði í fyrstu fegurðarsamkeppni íslenskra orða hér á blogginu Orðið var lengst af í forystu en um tíma skákaði orðið kærleikur því og hnífjafnt var fyrir aðeins rúmum sólarhring, en á lokasprettinum stakk ljósmóðir öll hin orðin af. Í þriðja sæti kom svo orðið dalalæða, sem átti frækilegan lokasprett. Nánar verður sagt frá úrslitum á blogginu á morgun og sigurvegararnir kynntir og krýndir síðar. 

Stelpurnar okkar - 5:0

Stutt síðan allir grétu yfir markatölunni 5:0 en nú geta allir glaðst saman yfir úrslitunum. 5:0 - stelpurnar okkar rokka!

Stelpurnar okkar! ... og aðrar staðreyndir lífsins

Skemmtileg byrjun á leiknum gegn Serbum, glæsilegt mark! Óska þeim góðs gengis í restina af leiknum, verk að vinna hér heima fyrir eftir annríkisdag, tveggja tíma yndisleg skemmtiganga um Álftanes með Stellu vinkonu minni og vinnufélögum hennar, frábærum hópi, þar á undan ljúfsár jarðarför og erfidrykkja, ljúf því það er svo ljúft að hitta ættingjana, sár af því eftirlifendur eiga um sárt að binda. Morguninn var erilsamur í vinnunni, reyndi á en einhvern veginn tókst samt að ljúka því brýnasta og setja allt í farveg. 

Dúmbó og Steini sigra handboltaleik, eða þannig

Stemmningin í Laugardalshöllinni var greinilega alveg mögnuð áðan. Gaman að sjá svona leik og heyra ,,þjóðsönginn" Hæ, hó jibbí jei svona magnaðan. Ef stemmningin á jafn mikinn þátt í hrikalega naumum sigri Íslendinga og raunin virðist vera, þá verð ég eiginelga að eigna Dúmbó og Steina þennan sigur, og það er sannarlega ekkert diss á strákana ,,okkar" þeir eru flottir.

Formúlan

Ég hef ekki á takteinum formúluna fyrir hamingju, ekki fyrir réttlæti, nei, formúlan sem ég ætla að tala um er Formúla 1 kappaksturinn. Kannski hálf ,,splittað" að hafa gaman af því að horfa á kappakstur í sjónvarpi en vera um leið ofurgætin og hatrammur andstæðingur glæfraaksturs - á götum úti. Það er einmitt þetta seinasta sem skiptir máli, íþróttir eru vissulega margar hverjar hættuspil, Georg bróðir til að mynda tvisvar lent á slysó eftir að spila skvass við mig, en í íþróttum eiga allir að vera meðvitaðir um áhættuna sem tekin er. Þannig að lengi vel fannst mér formúlan meðal betra íþróttaefnis í sjónvarpi og hélt með mínum ágæta skoska Coultard. Hins vegar hefur hann ekki verið á nógu góðum bíl að undanförnu, þrátt fyrir góðan vilja Red Bull. Ég mun halda með honum áfram, á því leikur enginn vafi, en þegar hann er ekki að blanda sér í toppbaráttuna, er hætt að vera skemmtilegt að horfa nema endrum og sinnum. 

En nú held ég að áhugi minn sé að vakna á nýjan leik. Hamilton er spennandi karakter og ég hlakka til að fylgjast með honum á næstunni. Þannig að hver veit nema ég geti farið að horfa á formúluna af auknum áhuga fyrr en varir? Það sem er spennandi er að brjóta upp klissjurnar í íþróttinni, ungir hvítir karlar hafa ,,átt" þessa íþrótt fram til þessa, en nú e r óspart vitnað til Tiger Woods í golfinu sem hliðstæða innkomu og Hamilton á nú, þar sem einokun hvíta kynþáttarins er rofin. Ég vil líka benda á að Annika Sörenstam og Michelle Wie  eru að breyta ímynd kven-golfarans, þannig að ég á von á konum í keppendahóp í formúlunni innan fárra ára. Konur eru nefnilega svo lúmskt góðr bílstjórar ;-)


Fótboltavæl

Við hverju býst fólk þegar íþróttaþættir eru skírðir 14-2, alla vikuna á undan Lichtenstein leiknum keppast allir um að láta vita að Lichtenstein sé sýnd veiði en ekki gefin og svo er verið að tönnlast á því að við leikum nú svo sjaldan landsleiki? ... Ef þetta eru vandamálin, hvers vegna þá ekki að laga þau! Við eigum fullt af góðum atvinnumönnum, og hana nú!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband