Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Þroskuð umræða á þrusufundi á Álftanesi

Íbúafundur á Álftanesi í kvöld sprengdi utan af sér húsnæðið í hátíðarsalnum okkar, enda eitthvað á milli 130 til 150 manns sem mættu til leiks. Greinilegt að miðbæjarskipulagið okkar er mörgum hugleikið. Missti því miður af fyrsta kynningarerindinu, sem ég var búin að hlakka heil ósköp til að heyra, en þurfti að vinna fram yfir kl. 20 (ég sem hélt að ég væri komin í tímabundið 69% hlutastarf!!!) en fundurinn átti að byrja kl. 19:30. En umræðan var lífleg, þroskuð og gagnleg að mestu leyti, blessunarlega lítið um pólitískt argaþras, enda hefur sem betur fer ríkt mikil samvinna um framtíðaruppbyggingu hins dýrmæta miðbæjarsvæðis okkar Álftnesinga, þvert á öll flokksbönd. Á næstunni verður hægt að skoða þennan fund á vef sveitarfélagsins okkar og eflaust tillögurnar líka, en í þeim var ýmislegt sem verið var að kynna í fyrsta sinn. Við getum fylgst með á www.alftanes.is

Umræðan um Evrópusambandið - í tilefni af atriðum í athugasemd Egils

Snemma í dag tók ég eftir skemmtilegum lista sem Páll Vilhjálmsson hafði sett saman í orðastað Evrópusambandssinna og setti smá bloggfærslu um hann. Egill Helgason sendi mér í athugasemd pistil sem hann hafði skrifað og mér finnst áhugaverður. Þótt ég sé á kafi í heimadæmum langar mig að taka upp þráðinn og mun eflaust halda því áfram á þessari síðu eftir því sem tilefni gefst til. Rök þau sem Egill færir og athugasemdir hans vekja forvitni mína og eru að mörgu leyti skemmtilegri umræðugrunnur en margt annað sem slengt er fram í umræðu um sambandið. 

,,Þau rök að ESB sé skriffinnskubákn standast ekki alveg. Þvert á móti hefur sambandið frekar fáa starfsmenn miðað við umfang."

Þessi athugasemd vekur forvitni mína, mig langar að vita hvaða tölfræði liggur þar á bak við, ekki til að ,,hanka" Egil, heldur vegna þess að það getur vel verið að gagnrýni sú sem komið hefur fram á skrifræði Evrópusambandsins hafi leitt til þess annað hvort a) að það hafi minnkað b) eða grunni tölfræðinnar hafi verið breytt. Ég hef ekki trú á hinu fyrrnefnda en verði mér færð frekari rök fyrir því þá hlusta ég með athygli. Hitt þykir mér hins vegar trúlegt að við þessari áratugalöngu gagnrýni hafi verið brugðist með því fækka þeim starfsmönnum sem eru starfsmenn sambandsins með beinum hætti, það er á launaskrá til dæmis. Evrópusambandið er þekkt fyrir að lesa vel í þá gagnrýni sem á sambandið/stofnunina (sem sumir kalla bákn) kemur og finna mótsvar. Starfsmenn ýmissa áætlana sambandsins geta vel staðið utan slíkrar tölfræði. Nær öruggt er líka að þeim starfsmenn sem vinna störf sem leiða af tilvist sambandsins, til dæmis starfsmenn við háskóla og stofnanir sem hafa að aðal eða eina starfssviði að vinna vinnu sem leiðir af tilskipunum og regluverki Evrópusambandsins í löndum ESB/EES, eru ekki inni í tölunni yfir starfsmenn Evrópusambandsins. Þeir eru hins vegar hluti af skrifræðinu.

Það sem þó hefur oft verið gagnrýnt enn meira þegar rætt er um skrifræði Evrópusambandsins er hvernig reglugerðaverk og tilskipanir eru settar með ógegnsæjum hætt, það er andlitslaus ásýnd skrifræðisins er ábyrg en ekki stjórnmálamenn með nöfn sem hægt er að kalla beint til ábyrgðar. Og fjarlægð almennings frá þeim sem ákvarðanir taka eru ekki bara fjarlægðin frá fólki -> sveitarstjórna -> ríkisvalds -> Evrópusambandsins heldur er á seinasta stigi erfitt að henda reiður á því hver ber ábyrgð. Það er sláandi hversu lítil þátttaka er í kosningum til Evrópuþingsins (sem er ekki ýkja valdamikið miðað við embættismennina). Það sýnir máttleysið sem fólk skynjar í samskiptum við þessa fjarlægu valdastofnun. 

,,Því má ekki gleyma að ESB er í aðra röndina friðarbandalag sem hefur notað aukin viðskiptatengsl til að tryggja frið í Evrópu í áratugi. Það er mjög merkilegt hvernig sambandið hefur boðið ríki Austur-Evrópu velkomin undanfarin ár. Spurning hvort við eigum að standa utan þessa?"

Þessi athugasemd Egils á sögulegar rætur og  ég held að það leiki enginn vafi á því að þetta var hugsjón fjölmargra sem stóðu að stofnun Efnahagsbandalags Evrópu og forvera þess. Evrópa var í sárum eftir seinni heimsstyrjöldina og margir litu á frelsi í viðskiptum sem svarið, leið til samvinnu. Hvernig til tókst er hins vegar miklu meira álitamál. Með breyttri heimsmynd þá eru hins vegar tollamúrarnir sem Evrópusambandslöndin reisa í kringum sig efni í jafn háskalegt ferli og múrar milli Evrópulanda voru áður fyrr. Þessi vestræni forréttindahópur hefur torveldað viðskipti við aðra hluta heimsins og fyrr eða síður getur það leitt til ójafnvægis í lífskjörum sem illt verður að ráða við. Það er rétt hjá Agli að opnun gagnvart Austurevrópulöndum var að mörgu leyti jákvætt skref í þróun sambandsins en innan þess hafa verið reistir furðu margir múrar milli hinna betur og verr settu landa, sumir tímabundið og aðrir varanlegar. Pólland er stærst hinna nýju ríkja og ég var einmitt í Póllandi þegar umræðan um aðildina var í hæstu hæðum, draumsýn þeirra var um önnur býti en urðu, enn eru þeir ,,annars flokks" meðlimir. Lífskjör munu án efa jafnast innan sambandsins með tímanum en þá standa eftir múrarnir utan um forréttindasamfélagið, sem ég nefndi hér á undan. 

Ég held að við Egill eigum á margan hátt líka drauma um réttlæti og samvinnu, okkur greinir hins vegar á um það hvort ESB sé nothæft tæki til að hrinda þeim í framkvæmd. 

 

 


Spurning um orsök og afleiðingu

Rannsóknir á borð við þessa í matreiðslu fréttamiðla eru líklega meira skemmtiefni en fróðleikur. Fyrir utan aldurssamsetningu ýmissa hópa þá má spyrja: Eru það mismunandi manngerðir sem fara á fætur á mismunandi tíma, er meira álag eða streita á hinum árrisulu? Það er alltaf verið að skipta fólki í A og B fólk eftir eðlilegum fótaferðartíma (ég skilgreini mig sem C) en í nútímasamfélagi geta flestir litlu um ráðið hvenær þeir þurfa að fara á fætur. Mér finnst alltaf svolítið skrýtið hversu niðurnjörvað samfélag okkar er gagnvart klukkunni og lít á það sem frelsiskerðingu. Kannski er það fólkið sem neyðist til að fara á fætur snemma en vill það ekki sem fær hjartaáföllin. Ef til vill er öllum þessum spurningum svarað í rannsókninn sjálfri (grunar þó að svo sé ekki) en vangaveltur um svefn og svefntíma eru alltaf áhugaverðar svo framarlega sem ekki er verið að hengja sig í að nú sé búið að finna stórasannleika enn einu sinni. Og að lokum einn sem eignaður er einum Reykjavíkurspekingunum (Púlla) frá miðbiki seinustu aldar: Sá sem ekki getur sofið til hádegis hefur slæma samvisku.
mbl.is Óhollt fyrir hjartað að fara snemma á fætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páll Vilhjálmsson í ham

Ég skemmti mér stórkostlega yfir nýjasta pistli Páls Vilhjálmssonar hér á blogginu, þar sem hann bendir á röksemdafátækt ESB sinna og leggur til smá framlag í þann sjóð (Rökfátæktarsjóðinn). Lesið bloggið hans Palla.

Breytingar

Haustið hefur yfirleitt verið tími breytinga í lífi mínu. Þetta haust ætlar ekki að verða nein undantekning. Nú er ég lögst í seinasta áfangann af skemmtilegu og sundurslitnu mastersnámi mínu í tölvunarfræð en samhliða hef ég skipulagt nákvæmlega 69% vinnu. Ekki spyrja mig hvers vegna einmitt 69% svona bara er þetta. Auk þess hef ég verið að gera allt klárt í sumar til að koma út einu stykki bók og stefni að því að ljúka því samhliða. Og eins og alltaf geri ég mér grein fyrir því að ég mun ekki stýra allri atburðarás. John Lennon sagði svo snilldarlega: Live is what happens when you're busy making other plans.

Hlakka til vetrarins með fiðring í maganum.  

 


Spásnillingar landsins, segið mér hvernig veðrið verður í vetur

Ég er búin að setja nýja könnun á netið, hana er að finna hér á vinstri hönd, fyrir ykkur sem þekkið hægri og vinstri. Hin bara leitið og þér munið finna ;-) 

Mig langar svo óskaplega til að vita hvernig veðrið verður í vetur, gaman að sjá hversu forspá þið verðið. Dalvíkurklúbburinn má alveg vera með, bara betra.

Af fyrri könnun er það að frétta að hún er hætt. Góðar niðurstöður. 


Hamfarir í lífi og landi

Sé að bloggheimurinn er sleginn vegna frétta af níu ára stúlkunni í Nicaragua sem er ekki einasta fórnarlamb ljótrar misnotkunar heldur einnig í mikilli lífshættu vegna þess að lögum landsins var breytt og fóstureyðingar bannaðar. Það er mikil ábyrgð í því fólgin að dæma saklaust barn til lífshættulegrar þungunar og fæðingar. Svona lagað get ég ekki litið á sem annað en hamfarir af mannavöldum. Eflaust hefur átt að þagga þetta, en móðir stúlkunnar hefur kært misnotkunina og þar af leiðandi er þessi samviskuspurning komin til umræðu. Mér finnst enginn vafi leika á því að fóstureyðing hefði átt að vera skýlaust val í þessu tilviki.

Talandi um þöggun: Undrast líka að heyra ekki meira um viðvaranir Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings vegna skjálftahættu á fyrirhuguðu virkjanasvæði í neðri hluta Þjórsár. 

 


Tímafrek heimadæmi og breyttar áætlanir

Óttalega ryðgar maður fljótt í þessum heimadæmum. Nú á námsefnið að vera kunnuglegt, því ég var í sama kúrs fram til 6. nóvember í fyrra þegar ég tók upp á því að veikjast. Mér fannst endilega að ég hefði verið sneggri með þetta í fyrra, en kannski er það misminni. Hlýt að slípast. Ara datt líka í hug að taka til hendinni á neðri hæðinni meðan ég var að stússast í heimadæmum þannig að ekki var haldið áfram með parket um helgina enda eru verkefni í húsi á endurbyggingarstigi öll jafngild.

Frétti af syninum í New Mexico og talaði heillengi við dótturina í Ungverjalandi í kvöld. Alltaf nóg að gera og pæla. Nýr staður að mæta á í fyrramálið, vona að syfjan reki mig ekki í Skipholtið til INNN heldur á Lynghálsinn til Eskils. Áríðandi fundur kl. 9 svo það er best að ætla sér nægan tíma. 


Í bláa lóninu græna og fleiri afrek helgarinnar

Á leiðinni út á flugvöll í dag, með nýsjálensku frændurna, var auðvitað komið við í Bláa lóninu, sem ég hafði reyndar frétt að væri orðið grænt. Það er orðið ansi mikið grænt! En við hliðina er verið að safna í blátt lón og gott ef ég var ekki búin að frétta að það ætti að víxla þessu einhvern veginn, sé reyndar ekki alveg hvernig, en það er ekki mitt vandamál. 

Svo er vetrarrútínan að hefjast, fyrstu heimadæmin í vinnslu, sem er bara gaman, svo er það skert vinna og aukavinnan mín, að koma út bók sem hefur legið í handriti í nokkur ár. Ekki seinna vænna. Segi meira um það fljótlega, býst ég við.

Veturinn má alveg bíða smá í viðbót, ég harma ekkert sérstaklega hlýindin þótt þeim fylgi vætutíð, en þegar ég gaut augum á Fargo í sjónvarpinu áðan, þá auðvitað veit ég að veturinn kemur, það er óhjákvæmilegt, ja.

Eftir frekar miklar keyrsluviku þá var gott að taka smá kúnstpásu í dag, hvíla sig smá og glápa á kassann, áður en heimadæmin voru tekin fram. Þau eru ekki búin, en hálfnað verk þá hafið er, eins og við líka sögðum þegar við settum fyrstu parkettfjalirnar á miðsvæðið margflotaða um seinustu helgi. Svo bústaðurinn fær að bíða og við verðum við stærðfræðiiðkun og parkettlagningu þessa helgina. Ekki amalegt.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband