Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Fjölskyldan og fríið

Stuttu sumarfríi að ljúka og allt að smella saman í sameiningu fjölskyldunnar. Nína systir flutt heim frá Ameríku, og ég er bjartsýn á að það sé varanlegt, Hanna mín að koma frá skátamótinu mikla á Englandi í dag og Óli okkar enn ófarinn til Ameríku þar sem hann ætlar að heimsækja Anne frænku okkar, dóttur Nínu. Ari að sækja hestana í Borgarfjörðinn en við vorum þar um helgina og erum svo að fara upp á Skaga í afmælið hennar Gurríar fljótlega. Sem sagt æði.

Vændi var á alþingi leitt í lög ...

Ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum þegar ég heyrði nýjasta framlag Bogomil Font til dægurlagaflórunnar. ,,Vændi var á alþingi leitt í lög" var glaðbeitt viðlag hans í hárbeittum texta í lagi um Gunnar og Geira (þið vitið hverja) og slær jafnvel hittaranum frá í fyrra við: ,,Veðurfræðingar ljúga" sem er næsta meinlaus texti hjá þeim sem hann teflir núna fram. Ég hef reyndar lengi verið eldheitur aðdáandi Bogomils Font og allra annarra alter-ego-a Sigtryggs Baldurssonar, en mér heyrist að í þetta sinn hafi hann tekið eldfimt umræðuefni og sett á dagskrá með sínum hætti og kallað hlutina réttum nöfnum. Þarf að komast yfir textann við fyrsta tækifæri, ef einhver á hann þigg ég hann með þökkum. 

Herleg verslunarmannahelgi í Helsinki og skútusiglingar í sænska skerjagarðinum

Skrapp frá í viku ásamt Ara mínum og hef ekki einu sinni litið á netið á meðan, þótt með smá tilfæringum hefði það átt að vera hægt. Eyddi verslunarmannahelginni á ráðstefnu í Helsinki en ráðstefnuhaldararnir sáu til þess að við vorum einn og hálfan dag af þremur í skoðunarferðum. Frekar vel með okkur farið. Finnst líklegt að ég eigi eftir að segja eitthvað frá þessari ráðstefnu á næstunni hér á blogginu.

Svo var haldið til Sigga vinar okkar í Svíþjóð og Cillu konunnar hans. Þau búa í miðjum sænska skerjagarðinum svo nú erum við búin að sigla nánast linnulaust síðan á mánudaginn, fyrst með Stokkhólmsferjunni í 17 stundir frá Helsinki, þá beint um borð í strætóbát í þrjá og hálfan tíma. Á þriðjudag var það heljar löng skútusigling um skerjagarðinn sem gladdi geð, eina sem vantaði var meiri vindur, svo í búð með 60 ára gamla eikarbátnum hennar Cillu, í gær fórum með í styttri ferð (3-4 tíma) með eikarbátnum en í morgun var gamli vélbáturinn tekinn fram og keyrt á eyjuna þar sem bíllinn er geymdur, og þaðan keyrt upp á land og beint á Arlanda. Lentum fyrir rétt rúmum tveimur tímnum og þegar búin að fara í vinnuna með Ara að heilsa upp á soninn, skreppa í bað og spjalla við Nínu systur, sem er nýflutt heim frá Ameríku, kom hingað í gærmorgun, vonandi til varanlegrar dvalar.

Í kvöld er það heimboð hjá tengdamömmu því Freyr mágur minn sem býr í Barcelona er á landinu og fer á morgun. Fjölskylda á ferð og flugi. 


Frídagur verslunarmanna framundan, þegar allir eiga frí nema verslunarmenn

Frídagur verslunarmanna framundan, þegar allir eiga frí nema verslunarmenn. Mér finnst það alltaf svolítið skrýtið ;-)

Palmitos Park - Kanaríeyjum - raunalegar fréttir

Veðurfarsbreytingar eru að taka á sig ýmsar myndir. Skógareldar á Kanarí eru ein þeirra. Ég var svolítið sein að uppgötva kosti þess að eyða fáeinum vetrarvikum á suðlægari slóðum og fara til Kanarí á veturna. En það sem af er öldinni hefur þessi siður verið í hávegum hafður meðal fjölskyldu og vina.

Fyrsta árið sem ég kom til Kanarí eyddum við góðum stundum með vinum okkar, gamalreyndum Kanarí förum, og vinkona okkar sagði nánast á fyrsta degi að við ættum að fara í Palmitos Park. Þar sem við höfðum engin börn með okkur til afsökunar fannst okkur þetta svolítið furðulegt, að fara í fuglagarð, hoppuðum samt upp í strætó, held það hafi verið nr 45 og eyddum yndislegum degi í Palmitos Park. Síðan höfum við komið þangað nokkrum sinnum, ekki á hverju ári, en nóg til að endurnýja kynnin af þessum unaðsreit þar sem oft er hlýrrra og skjólsælla en á láglendinu. Garðurinn er/var í þröngum dal og þar voru fágætir fuglar sem komu manni alltaf í gott skap. Nú hefur þessi fallegi garður orðið skógareldum að bráð og því miður sumir íbúanna líka. Mér finnst þetta sorglegt. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband