Er ljósvakamiðlar í kosningabaráttu gegn VG? Og ef svo er þá hvers vegna? Myndi ekkert heyrast um VG ef við hefðum ekki snillinginn hana Katrínu?

Héldum yndislega fjölskyldu- og framkvæmdahelgi - þar sem við enduðum afmælishald Óla okkar með því að umbylta stofunni svo nóg pláss væri fyrir ættingjana í kaffiboði. Allt of langt síðan við höfum haldið smá fjölskylduboð, þetta var að vísu bara systkini okkar foreldranna og afkomendur þeirra, en samt drjúgur hópur því mætingin var nokkuð góð.

Forval VG í Suðvesturkjördæmi setti líka skemmtilegan svip á helgina, það er alltaf ákveðinn hátíðarbragur á því að merkja við góða kandídata á kjörseðli.

Fékk svo símtal í kvöld sem gerði mig aðeins hugsi, um kvöldfréttir ríkissjónvarpsins, sem höfðu sýnt viðtöl og alls konar spenning kringum öll prófkjör helgarinnar, nema VG. Það var afgreitt með upplesinni frétt og stillimyndum og athugasemd um að Guðfríður Lilja og Ögmundur hefðu skipt um sæti. Var það allt og sumt sem gerðist í því forvali? Ónei. Í hádegisfréttum Bylgjunnar eða RUV fékk ég þá tilfinningu að það  hefði ekki verið neitt forval hjá VG. Í öðrum hvorum miðlinum var nefnilega samviskusamlega ,,gleymt" að geta þess að forvalið hefði farið fram, hvað þá að úrslit hefðu fengist. Ég get eflaust lagst í rannsóknir á því í hvorum fréttunum þetta var, en hér á heimili var mikið að gera fyrir fjölskylduboðin og er enn nóg sem þarf að vinna í, þannig ég kemst ekki í svoleiðis rannsóknarvinnu fyrr en á morgun. Þá verður kannski einhver lesandi búinn að upplýsa málið, því þetta HLÝTUR að hafa stungið fleiri en mig.

Mamma, sem hlustar mikið á útvarp, er löngu farin að benda á að VG sé ótrúlega oft ,,gleymt" í umfjöllunum frétta. Þar sem ég er gömul Kvennalistakona þá er þöggun og ósýnileiki ekki allskostar ný upplifun fyrir mig. Og gaman að sjá umfjöllun um Katrínu Jakobsdóttur á fleiri en einni sjónvarpsstöð, þar var vel að verki staðið og skemmtilegt mótvægi við gleymsku einhverra fréttamanna.

Vinkona mín ein á þessa frábæru setningu - ég held hún sé ættuð frá fyrrverandi tengdamóður hennar: You may be paranoid, but it doesn't mean that there isn't someone out there to get you. Í því samhengi sem ég skrifa þessar vangaveltur má eiginlega snúa þessu við og túlka á þennan hátt: Þó maður sé svolítið paranoid, þá getur samt vel verið að einhver sé að reyna að þegja stjórnmálahreyfinguna þína í hel!

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Já það má með sanni segja að Katrín lyfti upp ásjónu VG og geri hreyfinguna sýnilega. Halar örugglega inn nokkrum atkvæðum á sjarmanum einum saman.

, 16.3.2009 kl. 00:08

2 identicon

Tek undir þetta.  Hef aldrei kosið VG hingað til en er að hugsa um það í þetta sinn.  Og verð að taka undir með þér, virkaði ekki á mig eins og neitt verið að gerast hjá VG þessa helgina.

ASE 16.3.2009 kl. 00:23

3 Smámynd: Þór Jóhannesson

Hef einmitt verið að furða mig á því sama - merkilegt hvað fjölmiðlaspillingin er í raun sýnileg eftir allt sem á undan er gengið á landinu. Held samt sem áður að VG komi bara vel út úr þessu núna þegar fólk er með æluna uppi í hálsi yfir þessum prófkjörum spillingarflokkanna - sem n.b. tefla fram nánast sama gengi og fyrir hrun.

VG hefur a.m.k. komið með fullt af öflugu nýju fólki inn í gegnum sín forvöl og þar er sérstakt gleðiefni að sjá hverja konuna á fætur annari (6 af væntalegum 7 nýliðum VG á þingi eru t.d. konur).

Þór Jóhannesson, 16.3.2009 kl. 00:28

4 Smámynd: Þór Jóhannesson

(t.d. eru 6 af væntalegum 7 nýliðum VG á þingi konur) - átti að standa þarna síðast.

Þór Jóhannesson, 16.3.2009 kl. 00:30

5 identicon

"Helst" fréttatíma Sjónvarpsins byrjaði á tveimur fréttum úr prófkjöri sjálfstæðismanna. Aðrir flokkar rúmuðust ekki í "helsti" fréttastofu Sjónvarpsins! Er það eðlilegt? Er það lýðræðislegt? Finnst almenningi hægt að sætta sig við svona vinnubrögð á ríkisreknum fjölmiðli?

Fyrsta "fréttin" var bein útsending um að það væri ekkert að frétta af framsóknarmönnum!

Þá kom löööng frétt innan úr Sjálfstæðisflokknum með viðtali við þann sem hreppti fyrsta sætið. Gott og vel, ef og þá aðeins ef öllum flokkum hefði verið sýnd sama framkoma, en það gerði Sjónvarpið ekki.

Eftir laaanga frétt fréttastofunnar af innhússsamskiptum í Sjálfstæðisflokknum las fréttaþulur kvöldsins upp hverjir verða í fjórum efstu sætum VG í tveimur kjördæmum og lesturinn var myndskreyttur með kyrrmyndum af frambjóðendunum. Átta frambjóðendur og fréttastofan talaði ekki við einn einasta þeirra! Hvers vegna ekki? Þetta er mjög ámælisvert!!!  "Þau hafa því sætaskipti miðað við síðustu kosningar", sagði fréttaþulan um það að Guðfríður Lilja bauð sig fram í 1. sæti og Ögmundur bauð sig fram í 2. sæti og bæði náðu því sem þau ætluðu sér. Af hverju var það ekki sagt berum orðum?

Þá kom önnur löööng frétt innan úr Sjálfstæðisflokknum með viðtali við tvo frambjóðendur.

Þá var komið að þriðju fréttinni af innviðum Sjálfstæðisflokksins. Viðtal sem ég kýs að hafa sem fæst orð um.

Loks var röðin komin að Samfylkingunni. Hún fékk langa og ítarlega umfjöllun. Áheyrendur fengu að heyra og sjá hvernig foringjanum í einu kjördæminu var hampað með klappi og njóta stúfs úr ræðu viðkomandi og áheyrendur og áhorfendur fengu líka að sjá vonsvikinn frambjóðanda úr þessum sama flokki sem að eigin sögn náði ekki takmarki sínu um fyrsta sætið, heldur "vann" hann annað sætið með því að vanta 50 atkvæði og hafnaði því í þriðja sæti! Sorry, en ég held að þessi maður eigi met í að snúa hlutunum á haus!

Hvar sem fólk stendur í pólitík þá hljóta allir sem vilja sjá að þetta eru algörlega óboðleg vinnubrögð fréttastofu ríkisrekins fjölmiðlis.

Komandi kosningar eru hugsanlega þær alla mikilvægustu frá upphafi. Þjóðin stendur frammi fyrri dýpri kreppu en hún hefur áður þurft að takast á við. Gríðarlega margt um efnahagsástandið hefur ekki fengist gefið upp, en komið er á daginn er hér hefur viðgengist meiri spilling en margan manninn óraði fyrir. Stjórnmálamenn eru lykillinn að því að uppræta spillinguna.

Það er ekki hlutverk Ríkisútvarpsins-Sjónvarps ehf. að taka málstað eins flokks umfram annan með því að gera einum, tveimur eða þremur flokkum hærra undir höfði en keppinautum þeirra. Sjónvarpið á að gefa kjósendum eins hlutlausa og upplýsandi mynd af frambjóðum, stefnu flokkanna og ástandi í samfélaginu og kostur er. Kjósendur sjálfir gera síðan upp hug sinn.

VG á fulltrúa í útvarpsráði. Ég skora á viðkomandi að horfa með gagnrýnum augum á fréttatíma Sjónvarpsins sunnudaginn 15. mars og gera það upp við sig hvort ekki sé ástæða til að gera athugasemdir.

Hafi þetta verið forsmekkurinn af því sem átti að vera framlag Sjónvarpsins í kosningabaráttunni þá er eins gott og stöðva svona vinnubrögð í fæðingu.

Hafi fréttastofan reynt að ná viðtali við frambjóðendur VG en ekki tekist, eða reynt að komast með myndavélina á kosningasamkomur þeirra, en ekki tekist, þá átti það að koma fram og þess vegna gef ég mér að það hafi ekki verið reynt.

Samfélagið er þjakað af tortryggni og vantrausti, og ekki að ástæðulausu. Í gær upplýsist að tveir fjölmiðlar selja aðgang að "fréttum". Almenningur á Íslandi þarf síst á því að halda að óvandvirkni læði þeirri hugsun að að kannski sé aðgangur seldur víðar. Vönduð, fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð fréttamanna geta komið í veg fyrir að slík tortryggni skjóti upp kollinum og landsmenn þurfa á því að halda. Þeir eiga rétt á því, það kallast lýðræði.

Helga 16.3.2009 kl. 02:38

6 identicon

Smáleiðrétting vegna þessar setningar úr innleggi mínu hér að ofan: Í gær upplýsist að tveir fjölmiðlar selja aðgang að "fréttum".  Hér átti auðvitað að standa innan gæsalappa viðtalsþáttum.

Helga 16.3.2009 kl. 03:08

7 identicon

Ég er nú sammála ykkur öllum, þetta stakk mig einstaklega mikið og ég er ekki flokksbundin á neinn hátt. Fréttatíminn var eins og kosningardagur hefði runnið upp ...en þó bara hjá framsókn og sjálfstæðisflokknum.

Agnes 16.3.2009 kl. 08:55

8 Smámynd: Helgi Már Bjarnason

Málið er að það var bara miklu meiri spenningur og áhugi fyrir prófkjörum sjálfstæðismanna og samfylkingarinnar.  Hörð kosningabarátta að baki og uppgjör milli manna.   Það er miklu meira status quo í VG og minni frétt.  Einnig er Sjálfstæðiflokkurinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins (já og stærsta kvennahreyfing) og Samfylking kemur þar á eftir.   Þetta er nú ekki flókið góðir hálsar.

Svo hefur mér nú fundist að fjölmiðlar vera í stjórnarandstöðu síðustu misseri, þar til nú einhverra hluta vegna.

Helgi Már Bjarnason, 16.3.2009 kl. 09:50

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér sýnist að flestir (nema einn) upplifi þetta svipað og ég og þá er það bara spurningin er þetta rétt fréttamat. Mér finnst lítið spennandi við mörg prófkjör Sjálfstæðismanna, mikið fyrirsjáanlegt þar, líka breytingarnar, þótt einstaka fréttapunktur sé þar innan um, þannig að það dugar mér ekki sem rök. Og það er verið að gefa sér fréttamat með því að dekka sum prófkjörin með lifandi fréttamennsku umfram önnur, fyrirfram.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.3.2009 kl. 09:56

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband