Kæra króna ...

Ég er ein af þessum undarlegu manneskjum sem fyrirlít ekki krónuna, tel að vel sé mögulegt að nota hana, sé vilji fyrir hendi. Þar með loka ég ekki á aðra möguleika og geri ekki lítið úr því að erfitt sé að vera með lítinn gjaldmiðil í alþjóðlegu umhverfi. En það eru mýmargir möguleikar á að stýra notkun gjaldmiðils, við þekkjum nokkra þeirra, fljótandi gengi, gengi bundið við myntkörfu, jafnvel við tiltekinn gjaldmiðil, en fyrst og fremst þarf að eyða óvissunni um hvaða gjaldmiðil við hyggjumst nota í framtíðinni og gera síðan þær ráðstafanir sem hægt er að gera (og skynsamlegt er) til þess að hægt sé að nýta okkar sjálfstæða gjaldmiðil af einhverju viti. Nýta möguleikana, sem eru miklu meiri til stýringar í efnahagssveiflum ef við ráðum yfir gjaldmiðli okkar, og sneiða annmarkana, til dæmis hávaxtastefnuna, af. Ekki má gleyma því að gengi krónunnar var lengi allt of hátt skráð og það vissu allir, til ómælds tjóns fyrir útflutningsatvinnuvegina. En þeir sem taka þátt í þessar furðulegu umræðu sem hefur verið að undanförnu gera það eflaust af ýmsum ástæðum. Mér sýnist í fljótu bragði að bera megi kennsl á eftirfarandi erkitýpur:

  1. Þá sem vilja taka upp gjaldmiðilinn Euro (Evra er ekki til á Evrusvæðinu) til að koma okkur inn í Evrópusambandið.
  2. Þá sem vilja taka upp Evruna með samningum til að halda okkur utan við ESB. Við fáum skýr skilaboð úr öllum áttum um að þetta sé ekki hægt, en engu að síður er þessi hópur til.
  3. Þá sem vilja taka upp Evruna einhliða og segja við ESB: Sorrí, okkur er sama þótt við verðum ekki vinsæl.
  4. Þá sem vilja taka upp einhvern annan gjaldmiðil en Euro og halda okkur utan við ESB.
  5. Þá sem vilja taka upp einhvern annan gjaldmiðil en Euro og hafa ekki gefið upp afstöðu sína til ESB (sem merkir oft að þeir vilji ólmir inn).
  6. Þá sem vilja tengja krónuna einhliða við annan gjaldmiðil.
  7. Þá sem vilja tengja krónuna við myntkörfu.
  8. Þá sem vilja taka á efnahagsvandanum og halda krónunni.
  9. Þá sem vilja taka á efnahagsvandanum og gera eitthvað annað en að halda krónunni, vita ekki alveg hvað.
  10. Þá sem stinga hausnum í sandinn.

Þið megið bæta við þennan lista.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband