Uppörvandi ummæli Sigríðar Lillý Baldursdóttur varðandi lífeyrismál aldraðra

Sigríður Lillý Baldursdóttir hefur tekið við forstöðu Tryggingastofnunar og boðar breytingar. Allir sem þekkja eitthvað til þess kerfis í lífeyrismálum sem aldraðir þurfa að búa við vita að það er illskiljanlegt og ekkert sérlega réttlátt. Eitt sinn lenti ég í ríkisskipaðri nefnd sem vann hörðum höndum (launalaust) að því að skilgreina vandann, fékk ótal sérfræðinga á sinn fund og lognaðist síðan útaf með fullt af fróðleik og möguleika á tillögum í rétta átt, en ekkert gerðist. Sennilega hefur skort pólitískan vilja eða áhuga. Þetta er ekkert óleysanlegt verk, en það er svolítið flókið, og ég veit að Sigríður Lillý hefur bæði burði og vit til að láta ekki mata sig á neinu rugli. Forsendurnar sem hún gefur á því kerfi sem hún vill sjá eru sáraeinfaldar og góðar: Kerfið verði einfaldara og réttlátara en nú er. Það þarf í rauninni ekki aðra sýn en þessa og dug til að hrinda því í framkvæmd sem hægt er að gera. Þar er hún hins vegar uppá pólitíkusana komin og vonandi að þeir taki góðum rökum.

Á Kanarí er mikið um ellilífeyrisþega og þegar talið berst að óréttlæti og furðum í samskiptum þeirra við Tryggingastofnun er eins og bresti stífla og reynslusögurnar um alls konar dellu eru margar. Sumt af þessu hefði eflaust mátt fyrirbyggja með skýrari upplýsingagjöf og einfaldara og réttlátara kerfi. Gangi Sigríði Lillý vel í sínu mikilvæga starfi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sigríður Lillý er ekki í öfundsverðu starfi. Ellilífeyrir er t.d. ekki eftirlaun heldur aumingjastyrkur fyrir þá sem ekkert annað hafa til að reiða sig á. Taktu tam. eftir því að hann ber ekki nafn sem endar á -laun. Þó við höfum greitt í þennan sameiginlega sjóð alla ævi fáum við því aðeins úr honum laun til baka á efri árum að við höfum (næstum) ekkert annað upp á að hlaupa.

Ekki einu sinni grunnlífeyrinn -- hann er skerðingum háður eins og hvað annað. Allra versti glæpurinn er að hafa sparað og eiga von í/rétt á fjármagnstekjum. Það er það voðalegasta sem kerfið á bak við ellilífeyrinn getur hugsað sér. -- Hvernig er þetta í löndunum í kringum okkur? Ég veit fyrir víst að ákveðið lágamark ellilauna verður ekki skert t.d. í Svíþjóð og ég held líka í Danmörku.

Ef Sigríður Lillý fær við eitthvað ráð í þessu efni er ástæða til að taka ofan fyrir henni. Góður vilji er ekki nóg.

Kv. í bæinn

Sigurður Hreiðar, 3.3.2008 kl. 13:16

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hún hefur alla vega bein í nefinu og vilja til að knýja fram réttlæti. En svo sannarlega get ég tekið undir hvert einasta orð með þér, Sigurður. Mér blöskrar svo þetta virðingarleysi og úrræðaleysi í ,,kerfinu" sem virðist ganga út á að gæta þess að enginn hafi það nú ,,of gott" - því þannig er það núna. Þótt ég sé farin að hlakka verulega til þess að komast á eftirlaun (bara rúm 11 ár í það!) og fara að gera allt þetta sem ég ekki hef tíma fyrir núna vegna vinnu (skemmtilegrar vinnu að vísu) þá finnst mér hundhart að hafa ekki hugmynd um hvaða lífskjör bíða mín, sama hvað ég ólmast við að vera skynsöm.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.3.2008 kl. 13:47

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband