Horft (undan) á sjónvarpsþætti - Grey's Anatomy

Seinþroska sjónvarpsglápari, það held ég að sé hugtak sem hægt er að gangast við með góðri samvisku. Það tók mig langan tíma að gefa Grey's Anatomy sjans, þótt þessir þættir mölluðu á skjánum þegar ég var í horninu mínu að gera eitthvað allt annað. Fór að lokum að gefa þeim auga og nú er ég lúmskt ánægð með að vera búin að fá þessa þætti aftur á skjáinn. Sem er auðvitað furðulegt fyrir manneskju sem lítur samviskusamlega undan alltaf þegar verið er að skera fólk, sprauta eða lækna með blóðsúthellingum. Það er reyndar bara í kvikmyndum og sjónvarpsefni sem ég þoli ekki svoleiðis, ekki hrædd við sprautur eða annað þvíumlíkt í veruleikanum.

Líklega er sama ástæðan fyrir þessari vaxandi aðdáun minni á Grey's Anatomy og langvinnri ást sem ég hef á rómantískum gamanmyndum. Að vísu myndi ég alveg þola meiri húmor í Grey's, en rómantíkin er kappnóg og það er greinilega að duga til að yfirvinna ógeðið á öllu þessu sulli með blóð og innyfli. Fékk líka klígju í þetta eina skipti sem ég var sett í að sauma vambir í sláturtíðinni. Oj, barasta.

Nú er ég á góðri leið með að læra nöfnin á Meredith og Derek og hin þekki ég þegar þau eru nefnd, svona flest alla vega, þannig að ég fylgist bara spennt með. Af tillitssemi við fjarstadda dóttur fer ég ekkert að upplýsa hvað er að gerast í þáttunum núna. Hún hefur reyndar faglega afsökun fyrir að horfa á þetta og lítur ekki undan í blóðsullsenunum.

Monk og House eru samt ennþá betri ... ennþá, hef samt grun um að ég hafi verið að missa af seinasta Monk þættinum í bili í stærðfræðivímu seinustu daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband