Flakkað milli lífa án þess að yfirgefa eitt ...

Eyddi deginum í að undirbúa og halda fund í Sandgerði. Nú er lokaátakið hafið, sem felst í því að koma út bókinni minni um Sandgerði, bók sem ég lauk við í janúar 2001. Eftir næstum sjö ár í vinnu við hugbúnaðargerð er ég búin að ákveða að vera sagnfræðingur næstu eitt eða tvö árin alla vega. Hætti í vikulokin hjá Eskli, sem áður hét INNN, en hef dregið að tilkynna það á opinbera blogginu mínu, ekki síst þar sem mér fannst að allir viðskiptavinirnir sem ég hef séð um verkefnisstjórn fyrir ættu að fá að vita af þessu fyrst. Þótt ég eigi eftir að sakna góðra vinnufélaga og vina í þeim fyrirtækjum sem ég hef unnið fyrir, þá efast ég ekki andartak um að ég sé að stíga rétt skref á þessari stundu. 

Það var óskaplega hressandi að hitta ritnefndina í Sandgerði og fara yfir seinustu handtökin áður en við komum bókinni út. Ég sé líka fram á tíma til að sinna náminu þegar ég hætti í núverandi starfi, sem hefur reyndar verið 69% seinustu 6 vikurnar, sem reyndist ekki nógu mikill niðurskurður og þar að auki tókst mér aldrei að standa við að vinna bara 69%, hlaupandi í tölvuna að svara vinnupósti milli tíma uppi í háskóla.

Fyndið að núna þegar ég er að klára mastersnám í tölvunarfræði skuli ég snúa til baka í sagnfræðina, en þar hef ég álíka grunn, annan master, undir dulnefninu cand. mag. sem sagt 60 eininga nám eftir B.A. prófið og stóra ritgerð. Ári eftir að ég kláraði var námið endurskírt án breytinga og er núna kallað meistaranám. 

Framtíðardraumarnir mínir í tölvunarfræðinni eru nokkuð villtir og ég er staðráðin í því að vinna bæði í sagnfræðinni og tölvunarfræðinni í framtíðinni, auk þess sem ég sakna blaðamennskunnar stundum líka. Það eru svo margar hugmyndir og svo margt sem mig langar að gera og fram til þessa hef ég reyndar verið svo lánsöm að hrinda meiri hluta hugmynda minna í framkvæmd, auk ýmissa annarra hluta sem aldrei hvarflaði að mér að ég myndi taka þátt í. Það er gaman að flakka svona á milli lífa, án þess að yfirgefa nokkurt þeirra ...  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og hvað ætlarðu svo að verða þegar þú ert orðin stór?  Upps, nei, ég veit það ekki heldur!

Hvað segirðu um kaffi í næstu viku? Sendu mér endilega uppl. um hvenær þú ert laus.

Guess who 11.10.2007 kl. 01:06

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Fullkomlega ótímabært að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór ;-) en hins vegar veit ég hvar ég verð í næstu viku, í Ungverjalandi að heilsa upp á dótturina, tilboð heimsferða einfaldlega of freistandi. Þannig að þarnæsta vika hljómar vel.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.10.2007 kl. 10:02

3 identicon

Sæl Anna mín. Takk fyrir skemmtilegar bloggfærslur. Mér finnst (af persónulegum ástæðum) leiðinlegt að heyra að þú sért að hætta hjá Eskli en gaman að heyra að þú sért að leggja síðustu hönd á bókina um Sandgerði og að masterinn í tölvunarfræðinni sé í augsýn. Gangi þér vel að klára bók og er það rrr sem er síðasti kúrsinn? Sameinar þú ekki bara tölvunarfræðina og sagnfræðina í sagntölvunarfræði? Þeas beitir tölvunarfræðilegum aðferðum á sagnfræðileg verkefni! Og svo má ekki gleyma myndlistarmanninum..... Gangi þér allt í haginn.

Með bestu kveðjum og góða ferð til Ungverjalands. Þ.

Þóra Jónsdóttir 11.10.2007 kl. 11:52

4 identicon

 Rendez-vous í þarnæstu viku.

Bon voyage!

Helga 11.10.2007 kl. 14:42

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég á ábyggilega eftir að sameina sagnfræðina og tölvunarfræðina fyrr eða síðar og líka að skemmta mér í Ungverjalandi og líka að drífa mig í kaffi í þarnæstu viku. Viðurkenni alveg að það stóð aðeins í mér að fara áður en ég fékk tækifæri til að vinna með þér, Þóra, en þegar ég fór að reyna að vera í 3 hlutverkum í haust þá varð fljótlega ljóst að það myndi ekki ganga neitt of vel og þá varð ég að velja og hafna. Þetta varð niðurstaðan.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.10.2007 kl. 17:41

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband