Heimsókn í Foreldrahúsið

Ég skrapp i hádeginu að heimsækja Foreldrahúsið sem Vímulaus æska rekur með miklum myndarbrag. Var komin með alvarleg ,,fráhvarfseinkenni" eftir að hafa starfað með samtökunum í 12-14 ár eða þar til ég sagði af mér formennsku í vetur eftir að hafa verið formaður í nánast ósiðlega langan tíma. Af því ég hætti í stjórninni í leiðinni á ég sjaldan erindi þangað og þarf eiginlega að gera mér erindi til að hitta það ágæta fólk sem þar starfar.

Mér þykir alltaf mjög vænt um þessi samtök og það verk sem er verið að vinna á vegum þeirra er hreinlega ómetanlegt, en jafnframt allt of ósýnilegt. Þrátt fyrir að aldrei hafi tekist að byggja upp einhverja stórkostlega múgsefjun (sem reyndar hefði verið mjög gagnlegt) í kringum starf samtakanna, þá hefur árangurinn alltaf verið ótrúlega góður.

Samt finn ég sambland af gleði og magnleysi eftir heimsókn í Foreldrahúsið, gleði yfir öllu því góða fólki sem vinnur sleitulaust að því sem Vímulaus æska er að gera þessa dagana, en það er ekkert smávegis:

  • að sinna krökkunum sem þarf að styðja að meðferð lokinni – Vímulaus æska hefur fyllt inn í þá eyðu sem var með því að stofna hópa fyrir þessa krakka og veita þeim gott aðhald og mikla lífsfyllingu á erfiðum tíma og oft við erfiðar aðstæður
  • að sinna foreldrum og öðrum aðstandendum krakka sem eru að byrja að fikta við áfengi og vímuefni og valda sínum nánustu áhyggjum – þarna er ráðgjöf virkasta vörnin
  • að sinna fjölskyldum langt leiddra fíkla – það er oft þrautaganga gegnum kerfið og fjölskyldur þurfa á öllum þeim stuðningi að halda sem hægt er að veita þeim

Og magnleysi: Ég veit að sumt af því sem starfsfólk foreldrahússins kynnist í sínu starfi er átakanlegra en orð fá lýst, einkum er það erfitt þegar krakkar eiga í hlut sem eru virkilega að reyna að bæta líf sitt með vímuleysi. Því miður eru ekki aðstæður allra jafn góðar. Þótt við Íslendingar státum okkur af því að hafa náð nokkrum árangri í baráttunni gegn vímuefnum þá bætir það ekki aðstæður þeirra sem eru að brjótast út úr vandanum né þeirra sem þrátt fyrir tölulega góðan árangur eru að ánetjast vímuefnum. Þarna er oftast um bráðunga einstaklinga að ræða.

Fann það líka að umræður um lækkun áfengiskaupaaldurs og vilja ráðamanna til að lækka verð á áfengi veldur miklum áhyggjum í húsinu, enda oft búið að sýna fram á að hvort tveggja gerir aðgengi unglinga að áfengi greiðara. Einkum eru það áhyggjur af því að aldursmörkin færist niður hjá þeim hópi sem sækir í áfengi. Ég vona að það þurfi ekki mælingar á breyttum veruleika að halda til að sýna hvort þessar spár séu réttar eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þeirra starf er frábært. Ég keypti um daginn verndarenglana frá þeim, einn fyrir hvert barn og setti við barnamyndirnar þeirra og merkti  þeim englana. Mér finnst yndislegt að horfa á þá. Mér finnst að allir ættu að kaupa þessa engla. Takk fyrir greinina.

Ásdís Sigurðardóttir, 24.7.2007 kl. 20:18

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Gott að þú nefndir verndarenglana, takk fyrir að minna mig á þá, og takk fyrir falleg orð. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.7.2007 kl. 08:38

3 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Þakka þér fyrir Anna að vera ekki sama, að framkvæma, að gera, að hugsa út fyrir rammann...

Ef ég mætti ráða þá mætti fræða fólk betur um eiturlyfið áfengi. Furðulegt hve umburðarlyndin er mikil gagnvart því miðað við önnur vímuefni. Hygg að það væri ekki gott ef áfengiskaupaaldur yrði lækkaður. Aðgengi barna og unglinga að áfengi er nú þegar allt of mikill. Hin þverpólitíska ákvörðun um að lækka verðið á þessum ófögnuði er mér mikil ráðgáta. Væri nær að lækka verðið á mat og hækka styrki til úrræða fyrir börn og unglinga sem og aðstandendur þeirra sem hafa orðið þessum skaðræðisvaldi að bráð. Hef aldrei fyrirhitt neinn sem er í "ruglinu" sem byrjaði ekki á að drekka áfengi og fór þaðan í harðari neyslu.

Það væri allavega ánægðulegt ef það yrði hrundið af stað samsskonar herferðum gegn áfengi og hefur verið gert varðandi reykingar.

Birgitta Jónsdóttir, 25.7.2007 kl. 12:35

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Gæti ekki verið meira sammála þér, Birgitta, og þetta með reykingarnar eru í rauninni lexía um hvernig meiri hönlur á aðgengi (frá því sem áður var), hækkað verð og áróður getur skilað góðum árangri. Áfengi í höndum óharðnaðra krakka er meiri háski en ég held að fólk geri sér grein fyrir.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.7.2007 kl. 13:25

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband