Ljósmóðir leiðir naumlega eftir fyrsta daginn í kosningu milli 12 fegurstu orða íslenskrar tungu

Ljósmóðir leiðir naumlega eftir fyrsta daginn í kosningu milli 12 fegurstu orða íslenskrar tungu. Fast á eftir koma orðin Dalalæða og Kærleikur. Mjög góð þátttaka var á fyrsta degi, þegar hafa 160 kosið og ég sé fram á að þær niðurstöður sem fást verði góðar. Öll orðin eru falleg, en vissulega á ég mín eftirlætisorð meðal þeirra og kannski upplýsi ég það eftir keppnina. En þangað til verðið það þið, þátttakendur í atkvæðagreiðslunni, sem ráðið ferðinni.

Annars var föstudagurinn 13. alveg yndislegur.  Ég var komin með snert af fordómum í garð föstudagsins 13. eftir að hafa upplifað nokkra leiðinlega 13. daga mánaðar, ekki alla á föstudegi, einn var að minnsta kosti á miðvikudegi, en í þetta sinn stýrði ég því svo að föstudaginn 13. myndi ég bara gera eitthvað skemmtilegt og það gekk eftir. Með mjög skemmtilegan fund í vinnunni í morgun, tengist framtíðarverkefnum, og eftir kl. 14 var ég komin í stutt en bráðskemmtilegt ferðalag um Suðurland með gömlum og góðum félögum. Hvar sem við komum var tekið yndislega á móti okkur og ég kom með sælubros á vör heim um hálf níu leytið. Náði meira að segja að skreppa í smá golf í annað skiptið í sumar, en þar er sannarlega mikið verk óunnið í að æfa sig til að verða skammlaus á vellinum. Mun ekki láta mitt eftir liggja. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Þetta eru frábær orð! Bíð spennt eftir úrslitunum.

Guðríður Haraldsdóttir, 14.7.2007 kl. 00:51

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þú ert vonandi búin að kjósa, Gurrí (og rétt, eins og alltaf ;-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 14.7.2007 kl. 00:56

3 identicon

Ekki tekst mér að kjósa það orð sem mér líkar skárst af þessum orðum.

Get bara opnað og séð % sem kominn eru fyrir hvert orð.

Kanski er búið að loka fyrir kosningu.

Kv Björg Akureyri. 

Björg Guðjónsdóttir 14.7.2007 kl. 10:18

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mig langaði til að leggja til orðið HA?  Fátt er meira notað, Íslenskara, einfaldara og áferðafallegra en hefur þó óendanlega misjafna merkingu eftir tóntegundum og samhengi.

Jón Steinar Ragnarsson, 14.7.2007 kl. 15:54

5 identicon

Þetta er skemmtileg keppni.  Keppnin um fyrsta sætið hjá mér stóð milli dalalæða, andvari og blær. Dalalæða hafði að lokum vinninginn vegna þess fyrst og síðast að í því koma fyrir tveir stafir og tvö hljóð sem íslenskan deilir með fáum öðrum tungumálum. En keppnin stóð milli þessara orða vegna þess að íslenskan er svo rík af orðum sem lýsa veðri. Svo íslenskt!

Helga 14.7.2007 kl. 21:08

6 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Dalalæðan er flottust. En hin orðin eru flott líka. Gaman hvernig dalalæðan, sem orð, læðist upp yfir heiðarnar metafórískt. Og djúp, sem orð, er djúpt ... og blær, það er eins og heyrist örlítill þytur ... og heyrið bara hrynjandina í hrynjanda!

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.7.2007 kl. 22:08

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Björg, er þú sérð prósentuna fyrir hvert orð, þá er einhver búinn að eyða möguleikanum á að kjósa frá þinni IP-tölu. Þú þarft að komast í aðra tölvu til að kjósa þitt orð, það er eina leiðin. Annars þakka ég góðar umræður.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.7.2007 kl. 09:07

8 identicon

Ja há, einhver búin að eyða mínum kosningamöguleika. Ég hefði skilið það ef sonur minn væri heima,en hann er bara í Rússlandi. En ég læt mér nægja að segja hvaða orð er mest heillandi í mínum huga... Dalalæða...

Tekst kansi að kjósa í tölvu á Amtinu. 

Kv Björg.G. 

Björg Guðjónsdóttir 17.7.2007 kl. 20:04

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband