Fjölbreytta/fjörbreytta Fuerteventura

Hef ekki farið dult með það að ég sæki frekar í aðrar Kanaríeyjar en Tenerife og ekki síst Fuerteventura. Þangað hef ég farið þrisvar til þriggja, mjög ólíkra bæja og fjórða ferðin á áætlun fljótlega. Um að gera að nýta sér beint flug og gott verð, meðan hvort tveggja endist.

Það er mjög skemmtilegt að sjá hvað fólk upplifir þessa eyju misjafnlega, en skilgreiningin ,,hippalegri en Tene" er kannski alveg jafn góð og hver önnur. Það sem ég sæki þangað er það sama og kemur fram sem hálfgerð afsökun í greininni sem ég linka hér á Nýr áfangastaður: ,,Minna er um ferðamennsku og sést það ágæt­lega á búðum og veit­inga­stöðum. Það er þó margt hægt að gera á eyj­unni sem gæti heillað ís­lenska ferðamann­inn." Það er einmitt af því að þarna er svo miklu minna af ferðamennsku en víða annars staðar sem mér finnst gott að vera þar. Og það er svo sannarlega fleira en ,,búðir og veitingastaðir" sem heilla marga íslenska ferðamenn, ég þori að fullyrða það. Að því sögðu sá ég ýmislegt ágætt í þessari grein og mun eflaust tékka á einhverju af því í næstu ferð minni á þessar slóðir. Upplifun mín og greinarhöfundar skarast helst á Corralejo, þar hef ég ekki gist en komið þangað í tvígang og finnst staðurinn fínn. Fuerteventura er einfaldlega mjög stór og fjölbreytt eyja og þar er margt að finna fyrir margs konar ferðamenn, en ef aðaláherslan er að komast í búðir, þá eru aðrir staðir heppilegri, veitingastaðir eru annað mál og margir ágætir. Alls konar valkostir, frá hörðustu vegan-stöðum í alls konar þjóðlega, alþjóðlega, sólarstrandarlega og óvenjulega.  

Mínar ferðir til Fuerteventura hafa að mestu leyti verið til annarra staða en þarna eru nefndir, á suðuroddann Morro del Jable/Jandia, höfuðborgina/-bæinn Puerto del Rosario og svo ferðamannabæinn sem er næst 2 bestu golfvöllunum á eyjunni, Caleta de Fuste. Ef þið eruð golfarar, þá sleppið því alveg að tékka á syðsta vellinum nálægt Morro. 

Puerto del Rosario og Corralejo eru kátir bæir með alls konar skemmtilegheitum, ólíkir hvor öðrum þar sem túrismi er mun meiri í Corralejo en lókal-fjör í höfuðstaðnum. Það eru alls konar gönguleiðir um alla þá bæi sem ég hef komið til, heilmiklar strendur mjög víða og svo er það öll listin, sem greinilega er mjög meðvitað styrkt um alla eyjuna. Vegglistaverk eru alveg ótrúlega víða og mörg skemmtileg, skúlptúrar margir og sumir framúrskarandi og litríkt bæjarlíf bæði í útliti og upplifun. Kaffihús, sem mér finnst að séu ómissandi í tilverunni, eru mörg virkilega skemmtileg og lókal bragur á mörgum þeirra, en almennt mjög gott kaffi á alvöru kaffihúsum. Bókmenntanördum er bent á hús Miguel Unamuno í höfuðstaðnum. 

Almenningssamgöngur eru góðar, sem er mikill kostur, þar sem eyjan er löng og mjó og vegalengdir nokkuð miklar miðað við stærð eyjarinnar. Sem sagt, mikil fjölbreytni, eins mikið fjör og þið óskið (kynnið ykkur málin, en Corralejo er nokkuð öruggur staður) og mikil náttúrufegurð og skemmtilegt bæjarumhverfi út um alla eyjuna. 

2024-01-07_15-23-552024-01-07_15-26-172024-01-07_15-26-41

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband