Vatn - björtu hliðarnar

Vatn er máttugt, sem náttúrafl, óvissuþáttur í framtíðarsýn okkar jarðlinganna, en svo ótal margt fleira. Allt frá því ég hætti að vera einrænn krakki í turníbúð í gömlu húsi í miðbænum og flutti í blokk fulla af krökkum, hef ég notið alls konar vatnsævintýra. Fimm ára var það helst að uppgötva hvað það var gaman að sulla í pollum og af þeim var nóg í kringum blokkina okkar, þá fyrstu á Kaplaskjólsveginum. Man tilfinninguna þegar ég fann extra djúpan poll og vatnið var nógu mikið til að þrýsta stígvélunum að ökklanum og upp á legg. Það var sport. Pabbi tók mig stundum niður að höfn, fyrst í Reykjavík og löngu seinna á Seyðisfirði. Hann hafði fengist við skútusiglingar á yngri árum í Danmörku. Sport sem við fjölskyldan heilluðumst af þegar við kynntumst því gegnum vini okkar og komust í ferðasukk með þeim og víðar. Pabbi leyfði mér að klifra upp í vitann við Reykjavíkurhöfn þegar hann vann í Fiskifélaginu en eftir að hann flutti tímabundið á Seyðisfjörð sendi hann mig umsvifalaust á sundnámskeið þar, þótt ég teldi mig nokkuð vel menntaða í þeim fræðum eftir að Veturbæjarlaug var opnuð við hliðina á blokkinni minni. 

Þegar ég var sex ára fór ég í fyrstu sjóferðina mína, með mömmu og ömmu, á saltfisksflutningaskipinu Öskju til Gíbraltar. Sem betur fór var ég sjóhraust eins og amma, sem ferðaðist eins mikið og hún gat sjóleiðina, en hún var mjög ferðaglöð eins og við fleiri í fjölskyldunni. Hálfa árið okkar á Spáni var nálægt strönd og það var buslað í sjónum nánast á hverjum degi. 

IMG_5322

Nokkrar ferðir með Gullfossi, meðan hans naut við og svo ferjur alltaf þegar ég gat, einhverjar bátsferðir. Guðmundur í Vesturbæ leyfði okkur tveimur að koma með í einn aflalítinn veiðitúr á mjög litlum báti og eiginlega hef ég sótt í allar þær bátsferðir sem í boði hafa verið. Við Ari höfum siglt smálega á suðrænum slóðum og svo í sænska skerjagarðinum eftir því sem boðist hefur. Allt er þetta heillandi, þótt ég játi á mig algeran skort á því að langa í siglingu á skemmtiferðaskipi. Mér skilst að það geti elst af mér. 

Sjósund við Ísland prófaði ég fyrst hérna í fjörunni á Álftanesi þegar ég var svona 13-14 ára, og eitthvað buslaði ég í Bessastaðatjörn, en hún var skemmtilegri sem skautasvell, það verð ég að viðurkenna. 

2023-09-02_22-13-25

Það er því kannski engin furða að ég leiti í vatn og sjó þegar ég vel mér myndefni,  bæði í vatnslit og áður í olíu og jafnvel grafík. Liggur bara svo beint við. Og ég get lofað ykkur að það er ekkert auðveldara að mála og/eða þrykkja sjó, vötn eða drullupolla, en synda í sjó eða sulla í pollum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband