Heimsins eðlilegustu kúvendingar og alvöru áhrifavaldar

Man það svo vel þegar ég heyrði á unglingsárum sagt frá því með samblandi af furðu og lotingu að einn af forvígismönnum Náttúrulækningafélagsins, Björn L. Jónsson, hefði kúvent og hætt að vera veðurfræðingur og farið í læknisfræði um fimmtugt og lokið því námi samhliða vinnu á sex árum. Þetta var um það leyti sem ég fæddist og á fyrstu æviárunum. Gerbreyting hefur orðið á bæði náms- og starfsframboði og hugsunarhætti. Það vekur ekki lengur furðu þótt einhverjar kúvendingar verði á starfsferli fólks og lífsstefnu, eða hvað? Man reyndar eftir, en síðan eru einhverjir áratugir, að það þótti í frásögur færandi að þeir Kristinn Sigmundsson menntaskólakennari og Kristján Jóhannsson plötusmiður og díselstillingamaður ákváðu að helga sig listinni og gerast óperusöngvarar á fullorðinsárum.

Ég á vini sem hafa söðlað um og farið út á nýjar brautir á miðri ævi og endrum og sinnum les ég viðtöl við fólk sem hefur gert það sama svo það þykir frásagnarvert. Mín kúvending á miðjum aldri, þegar ég hvarf að mestu frá blaðamennsku og sagnfræðiskrifum í heim hugbúnaðargerðar (og til þess þarf miðaldra kona að lágmarki mastersgráðu til að gera sig gildandi) er greinilega líka nógu dramatísk til að vekja nokkra athygli. Það er ekki eini viðsnúningurinn í mínum starfsferli um ævina, en engum þykir óvenjulegt ef fólk ,,lendir í" pólitík um lengri eða skemmri tíma eða reynir að þóknast myndlistargyðjunni samhliða öðrum störfum. Þar er ég bara ein af mörgum. 

Kem ég þá að alvöru áhrifavöldum, kennurunum sem við kynnumst á lífsleiðinni, ég hef áður fjallað um hvað ég tel þá hafa sannari áhrif í tilveru fólks en þau sem helga líf sitt hárgeli og öðru sem ég upplifi sem hégóma, eflaust í fordild minni. 

Í barnaskóla var ég í Sigríðarbekk og hún lagði gríðarlega áherslu á íslenskukennslu en var líka ágætur stærðfræðikennari (myndin af Sigríði með bekkinn sinn er reyndar frá því áður en ég fæddist, en Sigríður er þetta, ögn yngri en þegar hún kenndi okkur).

sigridur

Í Hagaskóla hafði ég ólíka en góða íslenskukennara, annan sem barði í okkur stafsetningarreglur, lét okkur þylja aftur og aftur: Hinn góði maður, maðurinn, tvö n, hinn góði maður o.s.frv. en í landsprófi var áherslan hjá Finni Torfa að kenna okkur að meta skáldskap og tjá okkur, veganesti sem ég met mikils. En við höfðum líka afburða stærðfræðikennara þar, Harald Steinþórsson og ómetanlegan teiknikennara, hann Guðmund Magnússon. Til þessa fólks get ég rakið flest það sem ég hef tekið mér fyrir hendur um ævina. Hef sannarlega ekki gleymt öllum hinum áhrifavöldunum (kennurunum) í lífi mínu. Og auðvitað nýt ég þess að hafa átt móður sem var frábær myndlistarkennari, föður sem var gangandi alfræðiorðabók, fóstra sem bæði elskaði íslenska tungu og var vel fróður um hana og stjúpmóður sem iðkaði bæði myndlist og tónlist svo unun var að fylgjast með. 

unnamed (3)

Og enn sækist ég eftir að komast í tæri við slíka áhrifavalda. Eftirminnilegir vinnufélagar í öllu mínu brölti á starfsævinni hafa jafnframt haft gríðarleg áhrif á mig, enda á ég og hef átt marga góða. Og eins og flest annað myndlistarfólk sækist ég eftir að komast í nám hjá þeim allra bestu á mínu sviði og alltaf jafn lukkuleg þegar það tekst, sem er furðu oft (greip tvo þeirra á sömu mynd frá í fyrra). Efast um að meiri símenntun eigi sér stað í mörgum fögum eins og gerist í listum, en þar miða ég við þau starfssvið sem ég hef komið nálægt. Held að við séum flest í mínum myndlistarhópum að skipuleggja kynni við næstu (alvöru) áhrifavaldana í tilverunni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband