Sumarið sem KOM og tiltekt í fjarvinnu

Um daginn kom sumar. Náði yfir allt Suðvesturland og stundum um allt land. Það voru dýrðardagar. Sumarbústaðarferð var ekki á dagskrá þennan mánuðinn, nema rétt sem verðlaun í lok þessa mánaðar, ef mér hefði gengið eins vel og ég ætlaði að saxa hressilega á það óþarfa dót sem hefur safnast upp á 43 árum. Það er sá tími sem við höfum búið hér í húsinu sem við Ari minn byggðum barnung. Það þurfti ekki nema einn jarðskjálfta til að sannfæra mig um að ég ætti einmitt að drífa mig upp í bústað. Kl. 8:21 kom skjálftinn, fyrir klukkan níu var ég komin út í bíl og lögð af stað upp í bústað. Sem betur fer hafði ég engan tíma haft til að pakka uppúr ferðatösku eftir stuttan túr til Amsterdam þar sem ég sótti vatnslitanámskeið hjá Alvaro Castagnet (já ég veit hann var á Íslandi líka og átti góðan tíma með þeim hjónum hér líka). Þeirri tösku var kippt með og fáu öðru. Í henni var aðallega myndlistardót þannig að ég hélt bara áfram að vatnslita.

IMG-4235

Hef glímt við ýmis mótív uppi í bústað með misgóðum árangri, en í þetta sinn var útilokað annað en að drífa sig í stuttbuxurnar, setja upp trönurnar og njóta góða veðursins og mála og mála og mála. Smá tilraunastarfsemi í gangi, sem sagt að prófa mismunandi aðferðir við að mála sama mótívið, mikið unna mynd og aðra lauflétta, sem þykir yfirleitt betri latína. Sagt er að æfingin skapi meistarann (Practice makes perfect, sagði hún Alison á Butlins við okkur stelpurnar sem lögðum á borð og þvoðum kalkið af hreinu hnífapörunum þar). Að kvöldi var myndum kippt inn og kannski unnið aðeins meira í þeim áður en næsta verkefni tók við. 

IMG-2865

Svo þegar kvöldaði tókst mér meira að segja að saxa á verkefnin heima á Álftanesi með því að grisja bókasafnið uppi í bústað hressilega og losa þar með nokkra hillumetra undir bækur sem við ætlum ekki að henda, en þurfum ekki að blaða í frá degi til dags. Eitthvað verður eftir af afþreyingarbókum, vænt hestabókasafn hefur verið að vaxa og dafna og í það verður bætt, feminismabókasafnið mitt er á leið í bústaðinn en ljóðabækurnar þarf ég að hafa innan seilingar heima á nesinu mínu góða. Þetta var sem sagt tiltekt í fjarvinnu. 

IMG-4248

Um helgina fjölgaði í bústaðnum og tengdasonurinn var gripinn í módelstörf en dóttirin hélt sig í skugganum, ekki ósýnileg þó. 

IMG-4214

Svo kom gosið og ég einmitt rétt búin að klára að fara í gegnum allar bókahillur nema eina. Hún bíður betri tíma. Heim komin sátum við eldri systurnar saman úti í garði og grófsorteruðum bækurnar og nú eru fimm pokar farnir á Basarinn. Fimm aðrir pokar með fötum og garni farnir í gám eða á leið í hendur réttra aðila, einstaklinga og hugsjónasamtaka. Mér sýnist að ég nái 50 poka markmiðinu í þessum mánuði, allt umfram það er bara æði. Og sæludagarnir í sumarbústaðnum og garðinum hér heima sönnuðu svo ekki varð um villst að það KOM sumar þetta árið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband