Kranar, málmur og fleira - ekki í ljósi kranavísitölunnar

Svo vill til að í kringum mig er óvenju mikið af krönum, þessum stóru og ógnvænlegu sem saman mynda hinar illræmdu kranavísitölur. Stundum fæ ég óbeinar skammir þegar ég birti mína daglegu Esjumynd (þegar skyggni leyfir). Það er þá af því að í forgrunni eru kranarnir á byggingasvæðinu fyrir framan vinnuna mína í Kópavogi. Þessum skömmum er reyndar oftast beint að samfélaginu, stjórnmálamönnunum, verktökunum, hruninu, minningunum um hrunið, framkvæmdum almennt og auðvitað er smá uggur í ljósi sam-íslensku reynslunnar. Sama umræða er hafin af fullum krafti varðandi miðbæjarsvæðið sem nú er komið í uppbyggingu hér á Álftanesi.

2023-05-10_02-14-47

Hrunið kom illa við mig beint og persónulega, eins og flesta Íslendinga. Slapp samt mjög vel miðað við marga aðra efnaminni sem máttu við litlu og ég tali ekki um þessa vellauðugu sem ,,töpuðu" svo háum fjárhæðum að ég kann ekki enn að telja núllin. Vorkenni síðarnefnda hópnum auðvitað ekki neitt. Samt finnst mér stundum að ég megi ekki taka myndir þar sem krönum bregður fyrir. 

Það var þess vegna mjög hressandi þegar náfrænka mín (sem ég þekki allt of lítið) búsett erlendis alla sína tíð, setti komment við Esju-kranamynd og sagðist hreinlega vera hrifin af krönum, og sama segði systir hennar. Það rann upp fyrir mér ljós. Mér finnast kranar nefnilega líka heillandi á sinn hátt.

Hef bara alls ekki viljað viðurkenna það. Þegar ég reyni, af mannúðarástæðum, að hafa ekki of mikið af krönum á Esju-myndunum mínum og taka ekki of mikið af kranamyndum í erlendum borgum, þá er það aðallega vegna félagslegs þrýstings.

unnamed (1)

Til að bíta hausinn af skömminni, þá get ég hér upplýst að ung heillaðist ég mjög af tröllafjölskyldunum sem ganga um umhverfi Ljósafossvirkjunar rétt hjá Kvenskátaskólanum á Úlfljótsvatni, þar sem ég var nokkur sumur. Það er að segja hinum fordæmdu háspennumöstrum. Nú má ekki misskilja mig svo að ég vilji ekki leggja línur í jörð á viðkvæmum stöðum, auðvitað vil ég það, en það breytir því ekki að þessi form heilla mig. Svo mjög reyndar að á einni sýningunni minni stillti ég einu slíku upp eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Verð að viðurkenna að ég fékk smá skömm í hattinn fyrir það. Tek skýrt fram að ég hefði engin áform um að drita háspennumöstrum eftir öllum skýjabreiðum sem ég sé, þótt ég hefði það vald. Það er hins vegar ekki vel tekið í það þegar ég dett í bernskunostalgíu á 2. holu á Urriðavelli, þar sem möstrin blasa við. Og talandi um bernskubrek, Hegrinn, Kolakraninn við rætur Arnarhóls, var heillandi strúktúr í mínu barnsminni. https://timarit.is/page/1390469#page/n10/mode/2up

1196879064_aabc639a31_b

Ekki nóg með það, í glæpasögunni minni nr. 2, Óvissu, gerist hluti af lokaköflunum við háskalegar aðstæður í byggingakrana í miðbæ Reykjavíkur.

unnamed (2)

Elsku besta Hamborgin mín, hvað einkennir hafnarsvæðið þar? Kranar, auðvitað. Skemmtisiglingar um hafnarsvæði grunsamlega margar undanfarin ár, Rotterdam, Amsterdam, Hamborg, Seattle, London ... 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband