Safnararaunir

Við í vinnunni vorum að rifja upp í hádeginu safnararaunir okkar á barnsaldri. Sammála um að frímerkjasöfnun væri afskaplega leiðinleg. Mamma átti eina góð sögu frá því hún bjó í Englandi, þar sem einn þekktasti frímerkjasafnarinn átti að hafa setið við opinn glugga og skoðað safnið sitt þegar dyrnar voru opnaðar og dragsúgur myndaðist. Eftir það fór hann (víst) að safna gufuknúnum götuvölturum.

Reynsla og fjárhagur okkar vinnufélaganna var annars konar, en við hættum þessari iðju alla vega fljótt. Ég þó ekki fyrr en ég fékk mitt fáránlegasta sjokk í söfnuninni. Pabbi og Dolinda konan hans (svissnesk) bjuggu þá á Seyðisfirði og til þeirra kom ég á sumrin. Pabbi gat verið stríðinn en ekkert var fjær Dolindu en að atast í 10 ára barni, eins og ég var þá. Þess vegna gat ég bara ekki skilið þegar svona góð og grandvör kona var að reyna að gefa mér frímerki frá helvíti! Hún sem var meira að segja organisti í Seyðisfjarðarkirkju (sem ég held að hafi ekki verið orðin blá þá). 

zrj465tjt6eb3t9gmqotoogmg30u

Ef einhver skyldi deila þessum skilningi á uppruna þessa ágætis frímerkis með mér, þá er rétt að geta þess að þetta latneskta nafn er á öllum svissneskum frímerkjum. Hér er meira um það: Svissnesk frímerki 

Þetta var ekki í eina skiptið sem ég hafði alvarlegar athugsemdir að gera við hegðun fullorðins fólks gagnvart börnum. Þessa sögu segi ég oft og einhverjir þekkja hana, en ég var sem sagt pínulítil og rosalega lasin þegar einhver hávaxinn læknir reyndi að telja mér trú um að ég væri með rauða hunda! Við sem áttum ekki einu sinni kött þá. 

Áfram með safnararaunir. Mamma var mikill safnari og ég hélt mig lengi frá þeim sið, hélt ég. Á frímerkjasýningu vorið 1995 var mér boðið að sýna safn sem ég átti af smáskóm á alvöru-safnarasýningu og frétti síðar að ,,alvöru" söfnurum hefði sárnað að litlu, sætu skórnir mínir hefðu vakið svona mikla athygli en alvörusafnaranir minni. Var meira að segja boðuð í sjónvarpsviðtal eftir fréttir hjá Eiríki Jónssyni sem þá var enn starfandi við sjónvarpsstöð. Hann skildi ekkert í því hvað ég sá við þessa litlu, sætu skó, og ég ekkert hvers vegna hann skildi það ekki. Það var bara fyndið. 

2023-02-27_22-08-59

Enn kaupi ég eitt og eitt smá-skó-par, en ég er enginn safnari. Nei, nei, á bara nokkur hundruð myndir af bleikum húsum, eitthvað færra af Esjumyndum og kom með nokkrar litlar úlfaldastyttur frá Fuerteventura nýverið, en þær eru í hæsta lagi nokkrir tugir hér á heimilinu. Ekkert af þessu flokkast undir að vera ,,alvöru" safnari, svo mér er óhætt. 

unnamed (30)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband