Gran Canaria er aðeins öðru vísi í fjallshlíðinni

Mér datt það í hug fyrir fjórum árum að það gæti verið bráðsnjallt að gista einhvern tíma í ,,þorpunum" eins og fararstjóri Heimsferða kallaði bæina ofan við flugvöllinn, Agüimes og Ingenio, einhverju sinni. Var þá á leið frá vellinum til Hildu skáfrænku minnar í kaffi, en hélt þá aðallega til á Fuerteventura. Leiðin lá um svo fallegar, spánskar, götur að ásetningur varð til. Eftir á að hyggja sé ég að hin eiginlegu þorp eru sennilega mun ofar í fjallinu en strætóleiðin sem ég fór. Til að staðsetja þau þá er alla vega Ingenio á leiðinni þangað sem Íslendingar fóru löngum til að borða í hellum og gera kannski enn. Miðbær Ingenio er í meira en 300 hæð yfir sjó og ég slæ á það, ekkert mjög ábyrgðarlaust, eftir að hafa stikað þar margar brekkur, að kirkjan sé allt að 100 metrum ofar, en hæst nær sveitarfélagið um 1200 metra yfir sjó. 

IMG-1636

Fyrir skemmstu gisti ég rétt hjá nefndri (fallegri) kirkju og má með sanni segja að það var ólík upplifun þeirri sem ég er vönust á þessari góðu eyju, þar sem Playa del Inglés hefur yfirleitt verið aðsetur minn á flakki þangað.

Rápaði um fallegar, brattar götur eftir vinnu á daginn og naut verunnar þar. Stoppaði í verslun sem selur ekkert nema góðar vörur af svæðinu.

IMG-1618 (2)

Fékk mér ost og kaffi heima á gististaðinn góða, Casa Verde, sem er í hliðargötu ekki auðfundinni. Það var samt ekki þess vegna sem leigubílstjórinn, sem átti að sækja mig kl. 13 á laugardegi og hafa mig með á flugvöllinn, mætti seint, illa eða ekki. Þegar þar var komið sögu voru gestgjafar mínir, Marek og Magdalena, búin að taka málin í sínar hendur, báru í mig kaffi að skilnaði og mér var skutlað niðureftir.

IMG-1645 (2)

Á leiðinni sagði Marek mér meðal annars að í Ingenio væri heitasti staður eyjunnar á sumrin, en ögn kaldara er þar á veturna en á ensku ströndinni. Og hvers vegna sækja leigubílstjórar ekki saklaust fólk um helgar? Jú, rétt eins og leigubílstjórnarnir á La Palma segja blákalt að þeir sæki fólk ekki um nætur, þá bara líkar þeim ekki þessi vinnutími. Betra væri auðvitað að vita það og geta lagt af stað eftir þröngum götum niður brekkur, þar sem sums staðar eru þröngar gangstéttir eða öngvar. Í fyllingu tímans finnst strætóstoppustöðin góða, en það kannaði ég með dags fyrirvara (og komst að þeirri niðurstöðu að tryggara væri að taka bíl, ,,einmitt"). Sem sagt sama leigubílamenning og á La Palma, nema þar er látið vita af því fyrirfram að leigubílstjórum detti ekki í hug að sækja fólk nema á hagstæðustu tímum.

IMG-1687 (2)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband