Kirkjan á horninu

Kirkjan á horninu vakti þegar í stað áhuga minn. Við vorum stödd í Richmond Hill, útborg Toronto, um vikutíma um daginn og beygðum til hægri af Yonge stræti einmitt við þessa kirkju, önnur kennileiti, svo sem Starbucks, voru einhvern veginn ekki eins mikilfengleg. En það vafðist fyrir mér hvaða kirkja þetta væri eiginlega, giskaði á rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna, en samt ekki af neinni gífurlegri sannfæringu, og leitaði svo á náðir Google frænda, einu sinni sem oftar, og fann út að þetta var koptísk kirkja Maríu og Jósefs. Það fannst mér reyndar nokkuð spennandi. Í Richmond Hill er urmull af guðshúsum þeirra sem trúa á alls konar guði, sumar háreistar og afskekktar, aðrar í iðandi mannlífi aðalgötunnar, eins og þessi Koptakirkja. Vissulega vissi ég dálítið um koptísku áður en ég kynntist þessari kirkju á horninu, annað var ekki hægt þar sem ég er gamall nemandi Ólafs Hanssonar. Og svo þegar þeir sættu seinustu ofsókunum sínum eftir seinustu róstur í Egyptalandi, þá hrökk eitthvert ryk af þeirri þekkingu. En svo þegar við vinkonurnar, báðar gamlir nemendur Ólafs, vorum að spjalla saman í síma áðan, þá fórum við að ræða kristna trúarhópa í Miðausturlöndum og núna veit ég meira að segja meira en það sem Ólafur kenndi okkur um allmarga þeirra, og hvernig þeir standa nú í kjölfar átaka síðustu ára, ekki síst í Sýrlandi. Allt í einu er auðveldara að aðgreina Marónítana í Líbanon, vita meira um bakgrunn Kaldea og ýmislegt fleira, og þó er ég bara rétt að byrja að grufla í þessu öll saman. Og allt er það kirkjunni á horninu að þakka. koptakirkja


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband