Finnst þér ekki leiðinlegt að ferðast ein?

Stutta svarið er nei. Mér finnst líka gaman að ferðast með fjölskyldu og vinum, enda á ég mikið dýrðarfólk í kringum mig. Yfirleitt ferðast ég þó ein, núna seinni árin. Alltaf með einhver áform um hvað mig langar að gera, fyrir utan að skoða það sem áhugavert er í áfangastað. Fer ekki annað en á góða staði. Kláraði að smella Sögu tölvuvæðingar saman í risherbergi í Londum fyrir nokkrum árum, fór í einnar konu golfferð til Spánar þegar ég kolféll fyrir þeirri íþrótt. Hef eitt sinn tekið dagvinnuna með mér til Gran Canaria og Fuerteventura, það gekk rosalega vel en tók of mikinn tíma af mér frá öðru til að ég endurtaki það. Eitt af því fáa sem ég geri alltaf er að njóta góða veðursins og almennilegra almenningssamgangna til að fara í alls konar langar gönguferðir, alltaf í bæjarumhverfi og yfirleitt þar sem fallega útilist er að sjá eða áhugaverðar borgir og bæi. Ég er ekki fjallageit og mér finnst ekkert gaman að ganga út í buskann í mis-ósnortnu víðerni. Ég er alltaf að fara ,,eitthvert“. Heimsækja rennilásaskúlptúr, komast á áhugavert kaffihús, elta blá (eða bleik) hús sem ég fann á google maps, skoða staðhætti í glæpasögu sem ég er að skrifa (þannig ,,lenti“ ég á La Palma, ekkert mjög löngu áður en eldgosið á eyjunni fór að herma svolítið eftir söguþræðinum í Mannavillt).

Gaf í skyn hér um daginn að ég ætlaði að skjótast, enn einu sinni, til Fuerteventura í náinni framtíð. Gerði það, annað var ekki hægt þegar hræbillegir flugmiðar í beinu flugi voru allt í einu í boði til þessarar uppáhaldseyjar minnar. Þá er nú heppilegt að vera komin á eftirlaun í annað sinn, hversu lengi sem það endist, og talandi um það, hversu lengi það endist, þá veit ég líka að þessu lágu fargjöld þarf að nota meðan þau eru í boði. Annað hvort slær áfangastaðurinn í gegn og verðið hækkar svo flugið beri sig, eða ekki, og þá verður þetta skammgóður vermir.

Þrennt var á dagskrá þessa allt of stuttu viku:

Rápa út um allt

Auðvitað var mitt yndislega ráp út um allt á dagskrá, endaði venjulega í svona 8-11 þúsund skrefum, meira þolir bakið mitt ekki, núna þegar gamalt hryggbrot minnir á sig. Fór í tvígang til Correlejo og skrapp í bakaleiðinni í fyrri ferðinni að kíkja á sólarlagið í bæ sem ég hafði ekki áður komið í, El Cotillo. Skaust á uppáhalds kaffihús í Caleta de Fuste, meira um það undir vatnslitakaflanum. Svo einn daginn var skýjað í Puerte del Rosario, en þaðan gerði ég út. Þá kíkti ég á vefmyndavélar og endurnýjaði svo kynnin við Morro del Jable. Óþarflega löng strætóferð var vel tímans virði og ég náði aftur ansi skemmtilegu sólarlagi því næstbesta. Mestum tíma varði ég þó í höfuðborginni þar sem ég leigði litla íbúð í viku og fór víða.

Vatnslitasukk

Fyrst staðreyndir, 12 kaffihúsa-vatnslitamyndir litu dagsins ljós í ferðinni. Flestar fyrstu dagana, því svo fór þriðja viðfangsefni ferðarinnar að taka yfir, skrif. Fyrstu myndirnar gerði ég í Puerto del Rosario, en svo dreif ég mig á eftirlætiskaffihúsið mitt, Café del Town, í Caleta de Fuste, sem er ferðamannabærinn sem ég gerði að bækistöð þegar ég flutti vinnuna mína þangað í fyrra. Þá vatnslitaði ég líka dálítið þar, en sat mest með tölvuna og latté-ið mitt á borðinu. Erin, írska stelpan sem þar vinnur, tók sig til og seldi allar myndirnar mínar jafnharðan og ég vatnslitaði þær, þegar ég var þar í fyrra. Ég sá við henni núna og gerði eina mynd af fólki sem tókst að forða sér áður en hún var búin að selja því myndina. Svo sá ég hann David fastagest, gerði mynd af honum í fyrra, og ákvað að hlífa honum. Það var ekki við það komandi, hann bara kom röltandi til mín og spurði hvort ég myndi eftir honum. Ójá, ég hafði skoðað hann nokkuð vel í fyrra. Myndin þín er í ramma uppi á vegg í stofunni hjá mér, sagði hann stoltur. Erin kom og sagði að nú yrði ég bara að gera aðra mynd af honum og ég hlýddi. Hver hlýðir ekki henni Erin? Áður en ég var hálfnuð kom David og borgaði mér myndina en sagði að ég ætti eftir að klára hana. Svo bara fór hann og ég ákvað að bæta aðeins við smáatriði í fötunum hans, en ekki mikið. Erin vildi ólm selja honum myndina, en ég sagði henni sem var að hann væri þegar búinn að borga hana og hún ætlaði að koma henni til hans. Hér eru myndirnar af David, í fyrirsætuhlutverkinu, myndin frá í fyrra og nú í ár, af konunni sem ,,slapp" frá Erin og svo auðvitað af Erin, umboðsmanninum mínum á Fuerteventura. Ég bauð henni umboðslaun, hún hló og splæsti á mig latté. 

2024-02-02_22-50-04

Erin benti mér á að koma aftur á sunnudeginum áður en ég færi, því svo væri lokað mánudaga og þriðjudaga og á miðvikudegi var ég á heimleið. Ekki komst ég nú í að fara aðra ferð þangað, nóg annað að skoða og ég komin á kaf í skrif.

Við næsta borð sat maður og lýsti mjög fjálglega einhverri söngkonu sem hann dáði  mjög. Enginn komst hjá þá að vita það. Svo heyri ég allt í einu ,,Icelandic“ og spurningin var, átti ég að segja þeim að Laufey héti ekki Labví?

Fylla í skörðin í næstu glæpasögunni minni

Á þriðja degi komst ég í skrifstuð og tók upp þráðinn við að bæta í skörðin og gera nauðsynlegar breytingar á handritinu á næstu glæpasögunni minni, sem var komin í 80% af fullri lengd þegar ég fór að vinna hjá Controlant fyrir tveimur árum. Síðan hefur margt breyst og ég var nær því að vera í 65% af fullri lengd þegar ég sneri aftur í tölvuna og fór að bæta inn, lagfæra, leiðrétta, breyta alvarlega og á þessum fimm virkum dögum endaði ég með að skrifa 10 þúsund orð í mislöngum köflum og einhverjar tengingar, á þær þó mikið til eftir. Það kom mér verulega á óvart hvað ég naut þess mjög að sitja á útikaffihúsum og upphugsa vélabrögð og vesen, en saklausa fólkið í kring hafði ekki hugmynd um hvað fór fram í hausnum á þessari gráhærðu, meinleysislegu konu með latté sér við hlið. Endurskrifaði morð í flugvélinni á heimleiðinni. Það gleður mig ekkert smávegis hve mikið er farið að rukka mig um næstu glæpasögu, en ég átti samt ekki von á að það gengi svona greiðlega að koma sér í gírinn.

Út af öllu þessu er svo gott að ferðast stundum ein síns liðs. Og, nei, mér leiðist aldrei. Engar tvær ferðir eru eins, þessi var einstaklega góð og eflaust hefur það hjálpað til að ég var hálfpartinn búinn að samþykkja, alla vega til vors, að vinna á fullu í verkefni á mínu fagsviði í febrúar og apríl á þessu ári. Í mars og sennilega einnig um mánaðarmótin apríl/maí verð ég síðan að eltast við vatnslitamyndirnar mínar sem eru komnar á erlendar vatnslitasýningar/-hátíðir. Það er ekki hægt annað en ,,fórna“ sér og halda til Córdoba og Bologna/Fabriano með vorinu. Þá verð ég í félagi við annað gott myndlistarfólk, svo það er annars konar upplifun.

Í lokin nokkrar fallegar myndir frá Fuerteventura:

424989147_341731642165064_4114983204406373166_n425536404_341729542165274_5651503651296915612_n425499694_341729662165262_5117035713523621759_n425359995_341730472165181_1743560945807682652_n

 


Ný stefna í tilverunni: Tvær af myndunum mínum á leið á alþjóðlegar vatnslitasýningar

Núna snemma árs er ljóst að tvær af vatnslitamyndunum mínum eru á leið á sterkar alþjóðlegar sýningar erlendis. Sú fyrri er í mars í Córdoba á Spáni, það er meira en vikulöng vatnslitahátíð, en aðaldagskráin stendur 4-5 daga. Hún var haldin í fyrsta sinn í fyrra og tókst alveg stórkostlega vel. Það var í fyrsta sinn sem ég freistaði þess að komast á slíka hátíð og þótti spennandi að myndin mín var tekin inn á sýninguna. Vissi þá ekki að þetta var um leið samkeppni og þegar ég landaði öðru sætinu í henni hristi það upp í mér að fara að endurskoða forgangsröð viðfangsefna, ekki seinna vænna á áttræðisaldri.

Samt sem áður vissi ég sem var að það var ekki sjálfgefið að komast aftur inn á þessa sýningu, samkeppnin er mikil og hver fær aðeins að senda inn eina mynd. Það var ekki fyrr en 16.11.23 að ég fann að ég var búin með mynd sem gæti verið nokkuð öruggur kandidat, en þá voru innan við tvær vikur í lokaskil. Myndin var vissulega þornuð þegar ég tók myndina sem ég sendi inn, sem hefði ekki verið ef um olíumálverk hefði verið að ræða. Það er nefnilega ekki sama mynd af blautri mynd eða þurri. Viðraði þessa mynd einmitt hér í blogginu sama dag og ég málaði hana, en síðar bætti ég við rauðu peysunni, af því mig vantaði að myndin segði sögu. 

Iceland_Anna.Olafsdottir.Bjornsson_Lost.Red.Sweater_56x38_2023

Setti síðan á bið ákvörðun um hvort ég ætlaði að taka þátt í annarri sýningu síðar um vorið, Fabriano sýningunni í Bologna á Ítalíu apríl/maí, sem verður svo sett upp í Austin, Texas í október. Félagar mínir úr Córdoba-ferðinni í fyrra voru að hvetja til þess en í þetta sinn ákvað ég að velja ekki ,,örugga" mynd til að senda, heldur eina sem ég taldi svolítið áhættusama, þar sem ég var alveg til í að taka sjansinn varðandi þessa sýningu. Hún var tekin á sýninguna, svo ég þarf að gera upp við mig hvort ég elti hana líka, dagskráin í kringum þá sýningu er ekki síður spennandi en í Córdoba, þótt hún sé svolítið öðru vísi. 

2024-01-29_23-03-54

Við vorum þrjú, Íslendingarnir, sem tókum þátt í Córdoba-sýningunni í fyrra, en það verður ögn stærri hópur Íslendinga á hvorri sýningu fyrir sig í vor, 6 og 8 ef ég hef tekið rétt eftir. Með því að taka þátt í svona sýningum, en sýningargjald er mjög lágt, fáum við sjálfkrafa og frítt aðgang að alls konar viðburðum, útimálun, sýnikennslu og skoðunarferðum þannig að það er gríðarlega freistandi að fylgja myndunum sínum. 

Þótt ég sé búin að ráðstafa meiru en ég sá fyrir af tíma mínum núna eftir að ég gerði heiðarlega tilraun til að fara á eftirlaun í annað sinn, þá held ég þessu í forgangi, og stend við það. 

 

 


Eini almennilegi prinsinn (fyrir utan Prins Póló)

Eins og sjá má á fyrirsögninni er ég ekki royalisti. 

Litli prinsinn hefur fylgt mér lengst af ævi og ég á nokkur eintök af þessari litlu og mögnuðu bók, sem lengi fékkst á góðu verði hjá Menningarsjóði í Næpunni. Næpan var á mínu nánasta svæði í Reykjavík, í rammanum: Uppsalir við Aðalstræti vestast (meaðn þeir stóðu); Kaffi Tröð, Austurstræti nyrst; MR og Næpan í miðjunni; Þingholtsstræti, 29a (Borgarbókasafnið) og Þingholtsstræti 31, þar sem Beta frænka og Elísabet, litla systir bjuggu, suðaustast. Þar var alltaf gaman að koma í Næpuna og einhvern tíma var verðið á bókinni orðið svo hagstætt að ég keypti nokkur aukaeintök til að gefa. Síðasta eintakið sem ég gaf, vona ég, var til vinkonu minnar sem var tveimur árum yngri en ég en alltaf ári á undan í skóla, svo hún var aðeins ári á eftir mér í Menntó. Við lásum oft saman á lesstofunni á Borgarbókasafninu. Eftir að við útskrifuðumst vorum við í góðum tengslum sem entust þar til um hálfu ári áður en hún féll frá, þá voru samskiptin orðin stopulli. Ég spyr mig stundum hvort ég hafi ekki örugglega náð að gefa henni bókina? Hvort hún hafi viljað bókina? En eins og blómið í Litla prinsinum, sem ekki vildi fá hjálminn sér til varnar þegar prinsinn fór af stjörnunni þeirra, en hann hafði svo sífellt áhyggjur af því hvernig því hefði vegnað svona hjálmlausu, þá veit ég auðvitað að ein bók skiptir bara engu máli í þessu samhengi. Áhyggjur mínar eru óþarfar. Alveg sama hversu góð þessi bók er. 

Þýðing Þórarins Björnssonar á íslensku er alveg afbragðsgóð, en ég hugsa oft, hvernig hefði farið ef pabbi minn hefði lokið við sína þýðingu? - ég á nefnilega í fórum mínum upphaf hans þýðingar á bókinni, ódagsetta. Ætli hann hefði haft framtakssemi til að koma henni til útgáfu? Man hvað mömmu sveið mikið þegar hann hafði lokið fínni þýðingu á bókinni Félagi Don Camillo, en kom sér ekki að því að finna útgefanda að henni. Það var ekki fyrr en rúmum áratug eftir að þau skildu skiptum að bókin kom út í annarri þýðingu, ári eftir að pabbi lést. 

Í þessum fáu blöðum af þýðingu pabba á Litla prinsinum, sem mér finnst NB mjög góð og ekkert mjög ólík þýðingu Þórarins, sá ég eitt sem ég alltaf breyti ósjálfrátt í huganum þegar ég les bókina. Ég les: ,,Börn! Varið ykkur á apabrauðtrjánum!" (en ekki baóböbunum, eins og Þórarinn segir í sinni þýðingu).  

Gamalt og snjáð eintak á frönsku var til á æskuheimilinu mínu og er nú komið milli lítils og stærra eintaks af íslensku útgáfunni. Ég hélt endilega að ég hefði keypt annað eintak á frönsku í Montreal, þegar ég var þar á rölti ásamt tengdadóttur minni, þá hafði ég ekki tekið við bókasafni foreldra minna. Fannst svo upplagt að eiga franska útgáfu líka, því þegar ég blaðaði í henni fannst mér um stund að ég kynni meiri frönsku en frönskukennarann minn í menntó hefði nokkurn tíma grunað. Man eftir munnlega prófinu í frönsku þegar hann lagði fyrir mig sérlega léttar sagnbeygingar og fikraði sig varlega yfir í ögn þyngri sagnir. Undrun hans þegar ég beygði þær allar rétt var svo ósvikin að við lá að ég færi að hlæja. Það sem hann vissi ekki var að Gunna vinkona hafði tekið sig til og búið svo um hnútana að ég kunni þessar sagnbeygingar alveg upp á punkt og prik. Hvort ég endaði á að kaupa bókina eða ekki veit ég ekki fyrir víst, því hún er ekki með hinum eintökunum, en mig minnir að hún sé í of stóru broti fyrir lágu hilluna sem hinar eru í. Það verður gaman að flokkar bækurnar okkar betur, sem stendur til eftir yfirvofandi flutninga, tímasetning óviss.  

Mörgum árum seinna var ég stödd í búðkaupi vinkonu minnar rétt hjá Bordeaux í Frakklandi. Við vorum allnokkur vinir og ættingjar sem fórum með til borgardómara og hún og hennar franski ektamaður voru gift upp á frönsku (sjálf er hún kínversk/íslensk og þau búa í London). Allt í einu fór ég að skilja allt sem blessaður borgardómarinn sagði, enda var hún að lesa upp kaflann um blómið úr Litla prinsinum. 

Uppáhald mitt á Litla prinsinum blossaði upp þegar við Ari fórum á heimssýninguna í Lissabon, ekki síst til að skoða ísvegginn hans Árna Páls Jóhannssonar, en Ari og hann höfðu þá brasað svolítið saman, sem þó ekki tengdist þessu stórkostlega og vinsæla verki. Á leiðinni af sýningunni, stolt yfir að hafa ekki keypt neitt, féll ég fyrir gleraugnahlustri. Þó notaði ég ekki gleraugu, bara linsur. Nú í seinni tíð hef ég hvílt augun á linsunum af og til og þá er ekki amalegt að eiga þetta gleraugnahulstur, með öllum góðu minningunum. litli prinsinn


Stríð stjórnvalda, ekki fólksins

Árið 2024 er gengið í garð og ég finn að margir vina mínna bera kvíða og harm í brjósti vegna þeirra átaka sem standa yfir víða um heim, þótt við heyrum mest af Gaza-átökunum og stríðinu í Úkraínu af því þau eru okkur landfræðilega næst.

Það fer auðvitað eftir aldri fólks og áhugasviði (við sagnfræðingar erum ekki barnanna best) hversu mikið af átökum og stríðum hafa raðast í minnið. Foreldrar mínir voru enn talsvert brenndir eftir minningar frá árum seinni heimstyrjaldarinnar og eftirstríðsáranna í mömmu tilfelli, því hún upplifði skortinn og kuldann sem var á þeim tíma er hún var unglingur á kvennaskóla í Skotlandi. Afabróðir minn féll í fyrri heimsstyrjöldinni, eftir að hafa flutt til Kanada, ungur Íslendingur, eftirvæntingafullur og óvitandi um framtíðina, sem var ekki löng. Jafnvel við á Íslandi tengjumst átökum úti í heimi bæði persónulega og að því leyti sem við fylgjumst með. 

Mér eru helst í barnsminni (minni barns með hrikalegan fréttaáhuga) Alsírdeilan með sínum vígum, stríðið í Kongó og Kúbudeilan. Sumarið 1959 bjuggu í raðhúsi við hliðina á okkur mömmu á Suður-Spáni belgísk fjölskylda sem hafði flúið forréttindastöðu sína í ,,Belgíska Kongó" og annan eins nýlenduhroka og bjó í þessum fallegu, ljóshærðu börnum sem voru á mínu reki, hafði ég aldrei upplifað né gert mér grein fyrir að til væri í heiminum. 

Svo tók við eitt af öðru, vorið í Prag og Víet-Nam stríðið setti svip sinn á tilveru ungmennaáranna minna og ég tók þátt í mótmælagöngum gegn báðum stórveldunum sem mest var mótmælt í þeim stríðum, Rússunum sem réðust inn í Prag og Könunum í Víet-Nam. Nokkrum árum síðar fór ég til Prag og mér rennur enn til rifja sorgin og kúgunin sem ég varð vitni að hjá þessari bældu þjóð sem hafði átt sínar vonir og drauma, og reyndar óraunsæja mynd af Vesturlöndum líka. 

En það voru önnur átök sem ég man líka á svipuðum tíma. Kveikjan að þessu bloggi mínu var þegar dóttir mín var að segja mér af ferð yfir á tyrkneska svæðið á Kýpur nú í haust. Á haustdögum 1970 var svokölluð Kýpurdeila enn mjög í fréttum (og óleyst enn) og ég, þá 18 ára, búsett í London og sinnti ýmsum störfum. Meðal annars var ég að vinna á frekar fínu kýpversku veitingahúsi í norðvesturhluta London um hríð. Eigandinn og stjórnandinn var Kýpurtyrki en yfirþjónninn Kýpurgrikki, báðir afskaplega notalegir menn. Mér fannst þetta dálítið merkilegt í ljósi aðstæðna, en þeir gáfu skýr skilaboð, þetta var ekki þeirra stríð. 

Sex daga stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs var líka á mínum unglingsárum og vakti mikinn ugg um alla heimsbyggðina eins og flest þau átök sem hafa orðið þar um slóðir og málstaður undirokaðs almennings í Palestínu er fleirum en mér hugleikinn. Þar, eins og annars staðar, tekur fólk afstöðu samkvæmt réttlætiskennd en ekki þjóðerni eða kynþætti. Mér er það minnisstætt þegar ég rifjaði það upp að ég hafði þekkt ágætlega væna konu sem hafði sinnt herskyldu í Ísrael, gyðingur í húð og hár. Hún tengdist Íslandi sterkum böndum og var búsett hér á landi um tíma. Þetta var Myriam Bat-Yosef, eða María Jósefsdóttir, eins og hún kallaði sig stundum uppá íslensku. Var þá gift Erró, meðan hann hét Ferró. Hún var tíður gestur á heimili mínu og mamma fékk hana til að mála risastórt málverk af mér þegar ég var fimm ára gömul, en þá framfleytti hún sér einmitt með því að mála myndir af ýmsu fólki, og hefur áreiðanlega munað um þennan eyri eins og annan. Hún gaf sér góðan tíma til að spjalla við mig, sem var forvitinn krakki, ekki svo mikið þegar ég sat fyrir í sparikjólnum mínum í kuldanum á háaloftinu í Iðnskólanum líklega, alla vega í skóla á Skólavörðuholti, heldur í hlýrri stofunni heima. Mér fannst alveg stórmerkilegt að hún, konan, skyldi hafa sinnt herskyldu. Hún hvarf svo til Parísar og síðar flutti hún til Ísraels í áratug en aftur til Parísar þegar hún var búin að fá sig fullsadda á herskárri pólitíkinni í Ísrael. Leiðir okkar lágu aftur saman snemma á níunda ártugnum þegar ég tók við hana heilmikið blaðaviðtal, en á þeim tíma vorum við uppteknari við feminískar pælingar en aðra veraldarpólitík. Þegar hún féll frá fannst mér vænt um að sjá í minningargrein um hana getið um einarða afstöðu hennar gegn stríðsrekstri Ísraels og að hún sýndi málstað Palestínumanna fullan stuðning. 

Það eru svo ótal margir sem ekki sætta sig við stríðsrekstur stjórnvalda eða þjóða sinna hvernig sem liggur í málum. Alina vinkona mín frá Kharkiv, 100% af rússneskum ættum, er sem betur fer flutt til Hamborgar en svarinn andstæðingur stríðsreksturs Rússa í Úkraínu og svo ótal margt annað fólk vill ekki sjá stríð stjórnvalda og síst af öllum ofstopa stórvelda í garð smærri ríkja. 

Og hverjir mata krókinn? Kaldrifjaðir vopnaframleiðendur og strengjabrúður þeirra, stjórnvöld hvar sem þau grípa til vopna. Ekki fólkið, ekki fórnarlömbin. 

 


Fjölbreytta/fjörbreytta Fuerteventura

Hef ekki farið dult með það að ég sæki frekar í aðrar Kanaríeyjar en Tenerife og ekki síst Fuerteventura. Þangað hef ég farið þrisvar til þriggja, mjög ólíkra bæja og fjórða ferðin á áætlun fljótlega. Um að gera að nýta sér beint flug og gott verð, meðan hvort tveggja endist.

Það er mjög skemmtilegt að sjá hvað fólk upplifir þessa eyju misjafnlega, en skilgreiningin ,,hippalegri en Tene" er kannski alveg jafn góð og hver önnur. Það sem ég sæki þangað er það sama og kemur fram sem hálfgerð afsökun í greininni sem ég linka hér á Nýr áfangastaður: ,,Minna er um ferðamennsku og sést það ágæt­lega á búðum og veit­inga­stöðum. Það er þó margt hægt að gera á eyj­unni sem gæti heillað ís­lenska ferðamann­inn." Það er einmitt af því að þarna er svo miklu minna af ferðamennsku en víða annars staðar sem mér finnst gott að vera þar. Og það er svo sannarlega fleira en ,,búðir og veitingastaðir" sem heilla marga íslenska ferðamenn, ég þori að fullyrða það. Að því sögðu sá ég ýmislegt ágætt í þessari grein og mun eflaust tékka á einhverju af því í næstu ferð minni á þessar slóðir. Upplifun mín og greinarhöfundar skarast helst á Corralejo, þar hef ég ekki gist en komið þangað í tvígang og finnst staðurinn fínn. Fuerteventura er einfaldlega mjög stór og fjölbreytt eyja og þar er margt að finna fyrir margs konar ferðamenn, en ef aðaláherslan er að komast í búðir, þá eru aðrir staðir heppilegri, veitingastaðir eru annað mál og margir ágætir. Alls konar valkostir, frá hörðustu vegan-stöðum í alls konar þjóðlega, alþjóðlega, sólarstrandarlega og óvenjulega.  

Mínar ferðir til Fuerteventura hafa að mestu leyti verið til annarra staða en þarna eru nefndir, á suðuroddann Morro del Jable/Jandia, höfuðborgina/-bæinn Puerto del Rosario og svo ferðamannabæinn sem er næst 2 bestu golfvöllunum á eyjunni, Caleta de Fuste. Ef þið eruð golfarar, þá sleppið því alveg að tékka á syðsta vellinum nálægt Morro. 

Puerto del Rosario og Corralejo eru kátir bæir með alls konar skemmtilegheitum, ólíkir hvor öðrum þar sem túrismi er mun meiri í Corralejo en lókal-fjör í höfuðstaðnum. Það eru alls konar gönguleiðir um alla þá bæi sem ég hef komið til, heilmiklar strendur mjög víða og svo er það öll listin, sem greinilega er mjög meðvitað styrkt um alla eyjuna. Vegglistaverk eru alveg ótrúlega víða og mörg skemmtileg, skúlptúrar margir og sumir framúrskarandi og litríkt bæjarlíf bæði í útliti og upplifun. Kaffihús, sem mér finnst að séu ómissandi í tilverunni, eru mörg virkilega skemmtileg og lókal bragur á mörgum þeirra, en almennt mjög gott kaffi á alvöru kaffihúsum. Bókmenntanördum er bent á hús Miguel Unamuno í höfuðstaðnum. 

Almenningssamgöngur eru góðar, sem er mikill kostur, þar sem eyjan er löng og mjó og vegalengdir nokkuð miklar miðað við stærð eyjarinnar. Sem sagt, mikil fjölbreytni, eins mikið fjör og þið óskið (kynnið ykkur málin, en Corralejo er nokkuð öruggur staður) og mikil náttúrufegurð og skemmtilegt bæjarumhverfi út um alla eyjuna. 

2024-01-07_15-23-552024-01-07_15-26-172024-01-07_15-26-41

 


Galdrafólkið kennarar

Hvað sem segja má um íslenska skólakerfið, og það er auðvitað ýmislegt, þá efast ég ekki andartak um að þar má nú finna frábæra kennara, rétt eins og þegar ég var í skóla (sem hefur verið furðu oft). Það er svo margt sem ég hef haft með mér út í lífið, sem ég get rakið til góðra kennara og annarra sem höfðu varanleg áhrif á mig til góðs eða jafnvel ekki. Man helst þetta góða. Sleppi því að nefna nöfn, en vinir mínir og gamlir skólafélagar geta eflaust giskað. Í barnaskóla var ég mestmegnis heppin með kennara, fékk mjög góða undirstöðu, einkum í íslensku, og afskaplega jákvæð skilaboð út í lífið. Bekkjarkennarinn okkar lagði mikla áherslu á að við væru góð hvert við annað og ég man að hún sendi eitt sinn einn nemandann, sem átti undir högg að sækja, úr stofunni til að reka fyrir sig eitthvert erindi og á meðan sagði hún okkur að ef við sýndum honum á einhvern hátt leiðindi væri henni að mæta. Vinkona mín sem kom síðar í bekkinn fann því miður ekki fyrir sömu velvild en hrósaði henni fyrir íslenskukennsluna, held að það fyrrnefnda hafi komið okkur flestum á óvart. 

Mamma útskrifaðist sem teiknikennari þegar ég var fimm ára og það hefur eftir á að hyggja verið mín lukka, þótt hún léti sem hún reyndi aldrei að kenna mér neitt. Var nefnilega ekkert sérlega heppin með teiknikennara í barnaskóla, en það breyttist heldur betur í gaggó, þegar við lentum hjá einum allra besta teiknikennara á landinu, þori ég að fullyrða. Þótt ég hafi síðar lært að nota (líka) aðrar aðferðir í myndlist en þær sem hann predikaði, þá var góður grunnur að læra að bjarga myndum án þess að nota strokleður, mæla ekki neitt, heldur þjálfa augað til að ,,sjá" hlutföll og nota íþróttasíður dagblaðanna til að finna módel í alls konar (undarlegum) stellingum. Í menntó stóð listafélagið hins vegar fyrir vikulegum kvöldum undir leiðsögn eins okkar besta teiknara og þar lærði ég að teikna með strokleðri. Í inntökuprófinu (sem stóð í heila viku) í MHÍ var ég örugglega eina manneskjan sem gerði tilraun til að teikna tauklemmu í yfirstærð í heilan dag, án þess að mæla. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég kæmist inn í skólann með bravör, en hefði ég fallið þá hefði það verið út af gömlu innrætingunni úr gaggó. Samt, ég held að hvor tveggja tæknin eigi rétt á sér.

Líklega hefur framúrskarandi sögukennari í MR ráðið mestu um að ég ákvað að fara (líka) í sagnfræði og bókmenntasögu meðfram náminu í MHÍ og þegar ég var þvinguð til að velja milli HÍ og MHÍ valdi ég sagnfræðina. Var svo lánsöm að hitta þennan velgjörðarmann minn í barnaafmælum síðar, af því hann var pabbi vinkonu minnar. Í sagnfræðinni var líka annar kennari minn úr MR sem hafði ekki minni áhrif á mig, sumir kölluðu hann alfræðibók og þá ekki til hróss, en hans þekking, þótt mikil væri, var miklu dýpri. Á háskólaárunum voru nýlendur, einkum í Afríku, ein af annarri að fá sjálfstæði og hann sagði fyrir um það með fáránlegri nákvæmni hvenær hver nýlenda yrði frjáls, hvers vegna og hvaða vandamál gætu fylgt í kjölfarið. Sama máli gengdi um upplausn Sovétríkjanna, sem voru löngu eftir hans dag, hann greindi með ótrúlegri nákvæmni þá togstreitu sem hefur verið á flestum átakasvæðum, vegna trúarbragða, efnahagslegra hagsmuna og mismunandi menningar. 

Stærðifræðikennari í gaggó var að prufukeyra námsefnið Tölur og mengi, einmitt á mínum bekk, og kenndi mér því snemma á galdra tvíundakerfisins og mengjafræðinnar. Þegar ég fór að bæta við mig framhaldsskólastærðfræði sem hafði breyst mikið frá árunum fyrir 1970, naut ég góðs af þessum grunni, og einhvern veginn komst ég í gegnum mastersnám í tölvunarfræði um og uppúr fimmtugu, þótt máladeildarstúdent væri. Seinasti stærðfræðikennarinn í þeirri lotu bjargaði mér alveg gegnum þá glímu, enda kennari af guðs náð. Í tölvunarfræðinni var það samt kennarinn sem kenndi kúrsinn Samskipti manns og tölvu, sem lagði grunninn að tveggja áratuga störfum í hugbúnaðargerð. Hún var skipuleg, skemmtileg og fann fyrir okkur námsefnið sem einmitt varð til þess að ég hugsaði: Hér á ég heima. 

Það er ekki öllum gefið að vera kennarar. Aðeins eitt ár af starfsævinni hef ég haft kennslu (í íslensku) að aðalstarfi og gleðst innilega yfir því að bæði ég og nemendurnir komumst heil frá þeim vetri. Þess vegna var ég undrandi þegar ég hitti, á myndlistarsýningu í fyrra eða hitteðfyrra, nemanda sem sagði mér frá þeim jákvæðu áhrifum sem ég hefði haft á hana. Engu að síður gerði ég rétt með því að velja mér ekki kennslu að ævistarfi. Það þarf sterk bein og mikinn mannkærleika og fagmennsku til að verða eins og þetta fólk sem reyndist mér svona vel. Það sem ég kann að hafa af svoleiðis löguðu nýttist þá í annað. 


Við C-fólkið

Var að glíma við svolítið lúmskt erfiða vatnslitamynd meira og minna frá kl. 16 í gær, með heilmiklum hléum til kl. hálf tvö í nótt. Þá þurfti ég að fara að sofa, því ekki vildi ég mæta seinasta vinnudaginn í hefðbundnu 9:40-17:40 vinnunni minni geispandi út í eitt.

unnamed (6)a

Er oft spurð hvort ég sé A eða B manneskja, því ég hef aldrei farið leynt með svefnvenjur mínar, að því leyti sem ég get ráðið þeim. Það eru allmörg ár síðan ég áttaði mig á því að ég er C-manneskja. Þetta merkir það að ef ég ætla að sofa þokkalega út, þá þarf ég að meta það hvort það er of snemmt fyrir mig að stilla vekjaratóninn í símanum á 12:20 til að missa ekki af hádegisfréttunum. Það merkir líka að ég þekki varla flugþreytu nema af afspurn, því ég er þaulvön frjálslegum svefnvenjum. Sömuleiðis kom það fyrir á aðal lausamennskuárunum mínum, þegar ég sinnti bæði myndlist og blaða- og útvarpsmennsku, að ég náði að elda hafragraut handa eiginmanni og börnum áður en ég fór að sofa, eftir langa nótt við grafíkpressuna mína. Hins vegar er ég gefin fyrir fallega sumardaga og hika ekki við að fara á fætur milli kl. 9 og 10 á fögrum sumardögum, heima og erlendis, til að njóta sólar og alls konar stúss í góðu veðri. En mér finnst nóttin og myrkrið líka góðir vinir mínir. Skammdegið hefur aldrei verið óvinur minn, bara hálkan og einstaka sinnum ófærðin. Elska líka bjartar sumarnætur og miðnæturgolf, þegar bakið leyfir mér svoleiðis lúxus.

unnamed (7)

Veit ekki hvort líf C-manneskjunnar á heimilinu, mitt sem sagt, mun taka neinum sérlegum stakkaskiptum þótt ég fari í annað sinn á ævinni á eftirlaun frá og með dagslokum í dag. Vissulega hefði ég haldið áfram með myndina sem ég var að glíma við fram eftir nóttu, ef ég hefði ekki verið bundin við að fara í vinnuna í morgun. Það er gott að geta lifað í takt við líkamsklukkuna, þótt hún gangi alla vega, og ég er jafn forvitin og aðrir um það hvernig hún muni haga sér næstu misserin. 

 

 


Vinnustaðir - morð á ganginum og gengið yfir brúna

Hef unnið á allmörgum (mishefðbundnum) vinnustöðum á starfsævinni og oftar en ekki verið í vinnu með góðum hópi fólks sem ég þekkti ekki fyrir. Nú, þegar ég er á 72. aldursári og búin að segja upp hefðbundnu launavinnunni minni veit ég ekki almennilega hvort ég á að skilgreina mig í lausamennsku, sem er vinnutilhögun sem ég er svosem vön (8 ár af starfsævinni alla vega), eða að ég sé ,,bara" að fara á eftirlaun, sem ég hef reyndar áður gert, í næstum fjögur ár, áður en ég fór að vinna í núverandi vinnu. Aðalmunurinn er vinnustaðurinn og vinnufélagarnir. Þótt minn ágæti eiginmaður hafi bent mér á að ég sé í góðum félagsskap þegar ég er í lausamennskunni (ein með sjálfri mér mestanpart) þá hef ég upplifað nokkra alveg óborganlega vinnustaði og uppátæki í góðra vina hópi. Fyrsti langtíma-heilsárs vinnustaðurinn minn var Vikan. Þar var ég í hópi einvalaliðs vinnufélaga í fimm ár. Helgi Pé var ritstjórinn sem réð mig í þá vinnu en hann og Eiríkur Jónsson (já, sá) voru skamma stund með okkur og við tók hópurinn sem er á þessari mynd. 

Vikan

Eins manns sakna ég af þessari mynd (sem NB ég þurfti að teikna fríhendis, því ekkert photoshop var komið þá). Hann var greinilega ekki byrjaður með okkur, en það var virðulegi auglýsingastjórinn okkar. Hann var ögn eldri en við flest, gríðarlega vel klæddur í óaðfinnanleg jakkaföt og datt hvorki af honum né draup (þrátt fyrir að hann ritað mjög umdeildar kjallaragreinar í annað blað). En, lengi skal manninn reyna. Í fyrsta sinn sem það gerðist uggðum við ekki að okkur, ritstjórnin, allt í einu heyrðist rosalegur hvellur á hljóðbæra ganginum okkar í Síðumúlanum og síðan hljóp þessi virðulegi maður út úr fremstu skrifstofunni á ritstjórninni, að því er virtist skelfingu lostinn og hrópaði: Hvað er að gerast, var verið að drepa mann? Enginn fann neitt, en þegar þetta fór að endurtaka sig sáum við hann laumast fram á gang með stóran, uppblásinn bréfpoka, sprengja hann frammi, hraða sér á skrifstofuna sína og svipta svo upp dyrunum og bera fram sömu spurninguna og síðast, og þaráður!

Ég var líka um það bil fimm ár hjá Betware, í fyrsta starfi mínu við hugbúnaðargerð, meðan ég var enn í mastersnáminu mínu í tölvunarfræði. Það voru skrautleg og skemmtileg ár, bæði vinnulega séð og af því að ég ákvað að hella mér út í skemmtanalífið með vinnufélögunum, börnin mín uppkomin og þau (vinnufélagarnir og börnin) flest án nokkurra fjölskylduskyldna, enn sem komið var. Við hliðina á okkur í Ármúlanum var ,,slísí" bar á annarri hæð, þar sem sungið var karókí og ekki síst með fulltingi ótrúlegra söngfugla úr okkar hópi. Hann gekk undir eldra nafni sínu, Jensen, meðal vinnufélaganna. Þar var svona Allie McBeal-stemning fyrir þá sem muna eftir þeirri sjónvarpsseríu. Þá kynntist ég líka alls konar tölvuleikjum og þrautum sem hafa síðan fylgt mér gengum þessa tvö áratugi sem ég hef starfaði við hugbúnaðargerð. Vegna persónuverndarsjónarmiða birti ég bara sjálfa mig hér, en ekki hina vinnufélagana, en lofa því að þau hlógu alveg jafn dátt og ég við eitt slíkt tækifæri.

Þrátt fyrir stuttan stans hjá Iceconsult féll ég alveg fyrir vinnufélagahópnum þar, og í fórum mínum á ég mynd af einum vinnufélaga sem fór í ,,brú" meðan annar síðan gekk yfir brúna og sá þriðji passaði upp á að hann dytti ekki af þessari ótrúleg brú. Aftur, skrambans persónuverndin sem stoppar mig í að birta þessa mynd en treysti á ímyndunarafl lesenda.

unnamed,Frau.W

Aftur á móti er nýrri mynd af ágætlegar óþekkjanlegum vinnufélaga mínum alveg birtingarinnar virði, efast um að nokkur þekki viðkomandi, en segir allt um fjölbreytileikann við leik og störf. 

393074400_909616107193300_2582729761996044063_n

Auðvitað hafa vinnustaðirnir mínir verið misfjörlegir, en sumir svo óborganlegir að ég bara varð að setja þetta á blað, og reyndar eftir hvatningu eins núverandi vinnufélaga svona rétt í bland. Og af hverju gæti ég ekki persónuverndarsjónarmiða vinnufélaga minna hjá Vikunni? Þessi mynd var á forsíðu blaðsins á sínum tíma, og þegar þú flettir síðunni, hvað blasti þá við? Nú, auðvitað bakhliðin. 

Vikan2

 

 


Gríðarlega mislangir mánuðir

Tíminn líður mismunandi hratt í hugum flestra. Breytilegt eftir æviskeiðum, er mér sagt, þótt ég geti ekki tekið undir það, hjá mér líður tíminn einfaldlega mjög mishratt. Jú, reyndar, að einu leyti. Vikurnar fjórar eða svo fyrir jólin voru alveg hrikalega lengi að líða þegar ég var lítill krakki, nú er leitun að hraðskreiðara tímabili. 

Eitt afhjúpar vel hve hratt tíminn líður. Þegar eitthvað endurtekur sig með nokkuð reglulegu millibili. Seinustu sex árin höfum við bekkjarfélagarnir úr MR mælt okkur mót mánaðarlega um vetrartímann eftir því sem unnt hefur verið. Tíminn sem líður milli þess að við hittumst er grunsamlega mismunandi langur og það helgast ekki af því að fyrsta laugardag í mánuðinum ber upp á daga missnemma í hverjum mánuði fyrir sig. Nei, það er eitthvað allt annað. Stundum hafa fleiri en einn á orði að það sé langt síðan við höfum hist, þótt það sé aðeins um mánuður, oftar er eins og við séum að taka upp þráðinn eftir fyrri viku eða næstsíðustu. 

Undanfarinn mánuður hefur verið ótrúlega langur, venjulega er nóvember með styttri mánuðum í lífi mínu, en ekki núna. Margvíslegir viðburðir í samfélaginu, bæði nærsamfélagi, á landinu okkar og á plánetunni okkar hafa áreiðanlega spilað þar inn. Seinustu mánaðarmót og dagarnir kringum þau buðu reyndar ekki upp á MR-hitting. Þess í stað fór ég í stutta og skemmtilega ferð til Skotlands og Englands, á hljómleika og sýningar, og ég bað jarðskjálftahópinn minn vinsamlegast að sjá til þess að skjálftarnir sem voru þá byrjaðir, mundu hætta áður en ég kæmi heim aftur. Völd þessa hóps eru augljóslega engin. Heim komin setti ég í snatri upp vatnslitasýninguna mína, sem ég tók niður í fyrradag og eftir yndislega opnun var einn árviss viðburður á dagskrá hjá mér. Kannski það eina sem var á réttum tíma og tók venjulegan (góðan) tíma. 

Var að velta því fyrir mér hvort það lengdi mánuðinn eitthvað að ég var búin að segja upp vinnunni minni, eins og ég nefndi í seinustu færslu. Var sem sagt farin að vinna uppsagnarfrestinn. Það skekkir þá mynd að ég sagði upp fyrir 7-8 vikum þótt uppsagnarfresturinn hæfist ekki fyrr en fyrir liðlega mánuði, sem sagt m.v. mánaðarmót. Mín reynsla hefur líka yfirleitt verið sú að að uppsagnarfrestur er allt of fljótur að líða, einkum fyrir fólk eins og mig, sem langar að klára svo margt áður en það fer. 

Böndin berast því að því sem eru ytri aðstæður fyrir mig, en snerta annað fólk svo hræðilega djúpt. Fólkið sem beið eftir að jarðskjálftum linnti en fékk þá bara verri, beið þess að líf þess á flótta undan náttúruöflunum reyndist bara vondur draumur. Og enn frekar fólkið á Gaza-svæðinu sem er statt í miðjum alvarlegum hörmungum sem ekki sér fyrir endann á. En líka fólkið í nærumhverfi mínu sem átti þess ekki kost að velja hvort það hætti í vinnunni sinni eða ekki. Við sem vinnum í sveiflukenndum heimi hugbúnaðargerðar höfum flest orðið vitni að eða upplifað þær skyndilegu sveiflur sem fylgja þessum bransa, en samt er það aldrei auðvelt, þegar niðursveifla á sér stað og fjöldi fólks missir vinnuna. 

Á þá jólaósk heitasta að allt þetta fólk fái sem allra fyrst öryggi og ró í tilveru sína. Og að tíminn þangað til verði fljótur að líða.  

 


Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!

Sagði vatnslitahópnum mínum í dag að ég væri búin að segja upp og væri að fara á eftirlaun (í annað sinn á ævinni reyndar). Datt þá ekki uppúr einum prímus mótor í hópnum: ,,Loksins að fara að vinna eitthvað af VITI!"

Mér þótti frekar vænt um þessa athugasemd, því þessi hópur hefur fylgst nokkuð glöggt með því hvað vatnslitaiðkunin hefur sífellt tekið meiri tíma og orku hjá mér, og á stundum líka skilað árangri. Myndin sem fylgir þessari færslu er frá því í dag og ég er sátt við ákvörðunina.

Leidin ut i vitann

Þurfti samt á því að halda að taka smá rispu í viðbót til að næra tölvunördinn í mér, og þessi tvö ár sem ég verð búin að vera hjá Controlant þegar ég endanlega hætti, hafa mætt þeirri þörf. Þess ber að geta að sá sem fagnaði því að ég færi að gera eitthvað af viti er sérlega jákvæður í garð fyrirtækisins sem ég er (enn) hjá og á þar góðan vin eða vini. 

Mér þótti líka vænt um það þegar ein úr hópnum sýndi mér hvað hún er að hlusta á í Storytel, en það er fyrsta glæpasagan mín, Mannavillt. Það er talsvert farið að rukka mig um glæpasögu nr. 3, svo ég reyni bara mitt besta, hún var langt komin fyrir 2 árum, en ögn skemmra komin nú. Er samt vön að klára það sem ég byrja á. 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband