Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Nýja Ísland í mótun - það sem þarf að gera og það sem þarf að varast

Fréttir berast um að Samfylkingin sé í raun öll horfin frá stuðningi við ríkisstjórnina, ef marka má þessar frétt á visir.is:

"Geir Haarde forsætisráðherra rangtúlkar skilaboð um framhald ríkisstjórnarsamstarfsins sem hann hefur fengið í samtölum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra síðastliðna tvo daga. Þetta fullyrti Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarkona Ingibjargar, við nokkra samflokksmenn sína í gær.

Geir sagði í fjölmiðlum í gær að hann hefði talað við formann Samfylkingarinnar þann daginn og þau væru ekkert á þeim buxunum að slíta stjórnarsamstarfi eins og sakir stæðu."

Búast má við stjórnarslitum. Næstu skrefin eru mikilvæg. Sú stjórn sem situr fram að kosningum hefur að mínu mati skyldu og umboð til eftirfarandi verka:

  • að grípa til ráðstafana þegar í stað til að koma í veg fyrir gjaldþrot og aðrar hremmingar fjölskyldnanna í landingu
  • að koma atvinnulífinu af stað með verklegum, opinberum framkvæmdum og úr þeirri stöðunum sem það er nú- við óbreytt ástand verður atvinnuleysistryggingasjóður tómur í haust, eins og Steingrímur J. var að benda á
  • að tryggja landinu nauðsynlegt fjármagn á sanngjörnustu fáanlegum kjörum (fjárhagslegum og án íþyngjandi pólitískra ákvæða) og láta ekkert óskoðað í þeim efnum
  • að kortleggja kosti í gjaldmiðlismálum

Starfandi stjórn fram að kjördag hefur ekki umboð til eftirfarandi að mínu mati:

  • að hneppa þjóðina í skuldaklafa sem ekki er hægt að vinna sig útúr
  • að hefja aðildarviðræður við ESB
  • að ákveða gjaldmiðilsbreytingu án þess að leggja valkosti fyrir þjóðina

Þung undiralda - stormur og öldurót sýnilegri

Fæstir velkjast lengur í vafa, ekki heldur þeir sem harðastir eru í afneituninni, að stjórnarslit og nýjar kosningar eru skammt undan. Á yfirborðinu geysar auðvitað stormur í samfélaginu og sumir eru hræddir við að erfitt sé að halda sjó í þessu ölduróti. Ef rétt er siglt er það hins vegar ekkert mál. Og það er mergurinn málsins, hverjir halda um stjórnvölinn og hvernig, þar til þjóðin hefur valið nýja fulltrúa, fulltrúa sem hlusta á þjóðina.

Hins vegar er þessi þunga undiralda sem ég hef skynjað um nokkurt skeið, um afdrifarík málefni sem varða alla framtíð þjóðarinnar. Um umhverfismálin og frelsi þjóðarinnar. Sú undiralda verður aftur greinanleg um leið og þessu óveðri slotar, sem nú ríkir og hreinsar fleira en aldin jólatré úr vegi okkar.

Ég vona sannarlega að gæfa fylgi þessari byltingu sem er að eiga sér stað. Það er löngu ljóst að þetta er engin flauelisbylting - það var aldrei boðið upp á slíkt. 


Samvinna, samráð, traust eða einræði/skrílræði? Ákall á ,,sterkan leiðtoga" er ekki það sem okkur vantar

Ástandið í landinu gefur tilefni til mikilvægrar umræðu um stjórnarfar. Það fer hrollur um mig þegar ég heyri ákall um ,,sterkan leiðtoga" sem stýri þjóðinni til farsældar. Við getum ekki treyst því að fá Nelson Mandela, Gandhi eða Móður Theresu heldur gætum við allt eins fengið okkar Stalín eða Hitler. Kvartað hefur verið um það að gæðasálin Geir sé fjarlægur, hrokafullur og ekki sterkur stjórnandi og jafnvel heyrast þær raddir að Davíð hafi þó alla vega verið mikill leiðtogi. Þarna er ég að tala um raddir sem ég hef heyrt meðal samherja hans. Á ekkert skylt við þann aðsúg sem gerður var að honum í dag, aðgerð sem ég er ekkert að verja. Hmmm ... efast ekki um það að Davíð hafi verið hörku,,leiðtogi", en var það einmitt gæfa okkar?

 Það sorglega í dæminu tel ég einmitt að sé að við búum við kerfi þar sem enginn má, þorir, getur eða vill gera neitt nema einhver foringi leyfi það. Ég hef aldrei nokkurn tíma haft trú á að sterkir foringjar séu nein lausn, aðrir firra sig ábyrgð ef alltaf er mænt á foringjann og beðið eftir orði hans. Þess í stað lýsí ég eftir víðtækri ábyrgð, miklu samráði, trausti og vinnubrögðum fyrir opnum tjöldum hjá þeim sem taka við stjórn landsins í kjölfar þeirra umbrota sem nú eiga sér stað og hljóta að leiða til breytinga, vonandi boðun kosninga og starfhæfrar ríkisstjórnar og ábyrgs þings þar til skipt hefur verið um þing.

Pirringur eða ótti við skrílræði getur verið að standa í einhverjum, að vilja ekki ,,láta undan skrílnum". Þessi skríll er þjóðin, takk fyrir! Mjög góð líking sem er í gangi - menn halda ekki vatni yfir fjöldanum sem var við innsetningarathöfn Obama, en fjöldinn þar og fjöldinn á Austurvelli í gær er hlutfallslega nákvæmlega sá sami!

Undarlegur ótti er við svokallað stjórnleysi eða anarkisma, en í eðli sínu er sú stjórnmálastefna, sem ég hef reyndar sérhæft mig svolítið í innan sagnfræðinnar, mjög friðsæl og hugsjónirnar mjög merkilegar. Það eru vissulega margar stefnur innan anarkismans, en yfirgnæfandi eru þetta mjög ábyrgar, ígrundaðar og vel útfærðar hugmyndir um breytt og bætt samfélag sem kallar alla til ábyrgðar. Tvennt í atburðum dagsins finnst mér einmitt renna stoðum undir að þegar allir bera ábyrgð saman á aðgerðum sé hægt að gera góða hluti, það var þegar hópurinn ákvað saman að taka tillit til jarðarfarar í Dómkirkjunni og þegar einn mótmælenda skýrði út hættuna af flugeldunum og sprengjum og stoppaði af beitingu þeirra í hópnum.

 


Þurfti breytingu á dagskrá þingsins til að fá það til að ræða efnahagsmál!

Það þurfti greinilega að gera breytingu á dagskrá þingsins, í kjölfar hinna sterku mótmæla í gær, til þess að þingið færi að ræða efnahagsmál! Þetta er auðvitað furðufrétt. Vissulega er líklegt að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu komið málinu á dagskrá fljótlega með því að biðja um utandagskrárumræðu, en til að koma henni hratt að hefði þurft að fallast á stutta umræðu eða bíða lengi eftir lengri umræðu. Ekki beint fýsilegir kostir.

Þannig að allt þetta sem gerst hefur þurfti augljóslega til að þingheimur færi að gera það sem þarf að gera, ræða efnahagsmálin, eins gott að eitthvað af viti komi fram í þeim umræðum. Útiloka ekkert, en ef þó vondauf.

En þar með er auðvitað bara hálf sagan sögð, mér þykir líklegt að bak við tjöldin þurfi að glíma við það sem er greinilega að gerast innan Samfylkingarinnar, kæmi mér ekki á óvart að annað tveggja myndi gerast, uppúr syði innan/milli stjórnarflokkanna eða að einhverjir baksamningar yrðu gerðir sem gerðu Sjálfstæðismönnum kleift að lafa eins og ekkert hefði í skorist fram að landsfundi þeirra sem styttist óðum í. Málið er bara að slíkt samkomulag verður ekki gert við þjóðina og ekkert víst að hún sætti sig við þann ráðahag.


mbl.is Rætt um efnahagsmál á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef byltingin er að byrja þá eru hér lögin við vinnuna

Lögin sem ég fæ á heilann núna eru líklega engin tilviljun:

 

og

 

Minni á að Obama tók við í dag í USA - og á Íslandi var fyrsti í byltingu.

Auðvitað var mamma þarna í miðri byltingunni

Var að spjalla við mömmu og auðvitað hafði hún mætt niður á Austurvöll í dag með háværa bjöllu í hönd (sem hún gaf öðrum mótmælanda þegar hún fór einhvern tíma um miðjan daginn). Við höfum farið saman og/eða skipt liði af og til í þessum mótmælum en ég ætlaði svo sem ekki að fara að ýta á hana að mæta fyrst aumingjaskapurinn í pestinni hjá mér hélt mér frá þessu. Spurning hvort annar ættliður sé niðurfrá núna eða ekki, spyr á eftir.

Byltingin er að byrja sagði maðurinn í sjónvarpinu (enda er lögreglan farin að ráðast á saklaust fólk sem hvorki er anarkistar né ungt, vinstri grænt)*

Stefán Eiríksson er reyndar búinn að segja að sumt í framgöngu sinna manna sé ekki verjanleg vinnubrögð (ef rétt er - og það er rétt, það vitum við sem föst erum við skjáinn vegna áhuga, pestar eða hvors tveggja). Það er sannarlega spurning hversu langur tími þarf að líða áður en stjórnvöld skilja skilaboðin, hversu marga þarf að meiða og hversu mikil verðmæti verða fyrir hnjaski (og þá er ég að tala um viðbót við það bankarán sem við mörg hver höfum orðið fyrir, án þess að njóta mikillar samúðar).

Þegar gömul kona er farin að lemja hækjunni sinni í ljósastaur til að reyna að vekja stjórnvöld af doðanum, svo ég vitni til lýsingar Kristjáns Hreinssonar, þá er byltingin hafin. Hvernig hún þróast er undir mörgum komin. Vonandi verður höggvið á hnútinn strax í kvöld og fregnir berist um að stjórninni hafi verið slitið og sú nýja, hvernig sem hún verður vaxin, boði til kosninga. Mér finnst ég ekki á réttum stað að sitja eins og klessa og hósta og hósta. Kannski hefði ég átt að hósta niðri á Austurvelli í dag, nægur er hávaðinn. Ég er bæði glöð og döpur yfir atburðum dagsins, gleðst yfir byltingunni sem varð þegar Obama var kjörinn, hann minnti okkur á að fyrir aðeins 60 árum hefði faðir hans ekki fengið afgreiðslu ... gleðst yfir kraftinum í mótmælunum, ekki eignaspjöllum eða meiðslum, heldur heilargri og réttlátri reiði yfir úrræðaleysinu sem yfir okkur hefur dunið, en er döpur vegna þess að ég veit ekki hvort það er orðið of seint að bjarga okkar dýrmæta landi og þjóð.

* Þetta er víst hámarkið, ef marka má viðtal við mann í fréttunum, áhugaverð sýn en við eigum samt öll samleið.


Vonin og breytingarnar sigruðu í USA - er ekki röðin komin að okkur?

Bankahrunið í Bandaríkjunum var ekki síður alvarlegt (í raun) en á Íslandi - kannski alvarlegra. Ríkisstjórnin þar miklu verri en á Íslandi. Stærðar- og áhrifamunurinn réð því hins vegar að öðru var slátrað og hitt sett á.

Nú hafa orðið breytingar í Bandaríkjunum - ótrúlegar breytingar sem fáir spáðu fyrir aðeins ári síðan. Það sem réði úrslitum um kjör Baracks Obama var víðfeðmt net - bæði stórs hóps sjálfboðaliða og öflugs tengslanets á internetinu. Ótrúlegur kraftur úr grasrótinni. Á Íslandi eru líka skýr skilaboð frá grasrótinni, í mótmælum á netinu, í blöðum og á götum úti. Mér finnst kominn tími til breytinga og tími til að við fáum okkar von um betri tíð með blóm í haga.


Langvinn mótmæli framundan - nema eitthvað GERIST! (af viti)

Það er ekki hægt að segja annað en stjórnin hafi fengið góðan tíma til að vinna í málum og upplýsa almenning. En þar sem það er annað hvort ekki vilji  eða geta til þess þá á hún að sjá sóma sinn í að játa sig sigraða. Mér finnst hundfúlt að liggja heima í pest og fylgjast með mótmælunum í fjölmiðlum, en mig grunar að þau verði langvinn og grenilega tími til að mæta aftur í hópinn.

Tvö ríki í kreppu: Í Bandaríkjunum tekur vonin við í dag - á Íslandi mótmæla ALLIR! vonleysi, vitleysi og ráðaleysi ráðamanna

Fleiri en tvö ríki eru farin að finna vel fyrir kreppunni - en tvö eru í sviðsljósinu í dag: Í Bandaríkjunum tekur vonin við í dag og þótt Obama bíði erfitt verkefni, að hreinsa til eftir hrikalega stjórn W - en á Íslandi mótmæla ALLIR! vonleysi, vitleysi og ráðaleysi ráðamanna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband