Ég ætla að verða Færeyingur þegar ég verð stór, sagði gamall vinur minn einu sinni

Mér hefur alltaf fundist þessi setning: Ég ætla að verða Færeyingur þegar ég verð stór! svo rosalega skemmtileg. Ekki spillti að sá sem hana á upphaflega var engin smásmíði.

En þetta er einmitt það sem kemur upp í hugann þegar við finnum alltaf betur og betur hvaða hlýhug Færeyingar bera alltaf í okkar garð, sem kannski sinnum þeim ekki alltaf sem skyldi. Samt held ég að allir Íslendingar elski Færeyinga, það er ekki hægt annað. Og við kusum Færeying sem söngstjörnuna okkar, Jógvan, við ,,eigum" annan Færeying sem við erum að drepast úr stolti yfir, hana Eyvör, og ég held að seinasta þjóðin sem við myndum hætta að veita veiðiheimildir (ef við ösnumst ekki í ESB og missum forræðið yfir miðunum) væru Færeyingar. Jú, kannski hefur okkur tekist að tjá hug okkar til Færeyinga, svona einstaka sinnum.

En það eru Færeyingar sem eru í sviðsljósinu á Íslandi núna, þeir gengu í gegnum eigin efnahagsþrengingar fyrir allmörgum árum og áttu þá fá úrræði önnur en hrekjast til Danmerkur, - eða Íslands, ég ætla rétt að vona að við höfum tekið vel á móti þeim. Núna eru þeir fremstir í flokki vinaþjóða okkar, engin spurning um það. Þeir voru fyrstir og bestir að hjálpa okkur þegar snjóflóðin miklu féllu og í Heimaeyjargosinu.

Hér er linkur sem þið ættuð að skoða og þeir sem vilja sýna hlýhug sinn í verki geta skráð nafnið sitt þar:

http://faroe.auglysing.is/index.asp#


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sagði við færeyska vinkonu mína fyrir 3 vikum að ef ég myndi hrökklast frá Íslandi þá ætlaði ég að gerast flóttamaður í Færeyjum - og ég held bara að ég hafi meint það - enda sagði hún: Vertu velkomin.

Færeyingar eru núna í stórum hópum að gera innkaup hér (gjaldeyrir, gott fólk!). Ferðaþjónustan þeirra er ekki enn búin að slíta barnsskónum! Er ekki upplagt að gera ráð fyrir Færeyjum sem landi til að heimsækja þegar venjulegt fólk á Íslandi getur aftur farið að fara utan? Þetta segi ég ekki í framhaldi af þvi sem  Færeyingar voru að gera fyrir okkur, heldur hefur það árum saman verið skoðun mín að Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar eigi að vinna saman í ferðaþjónustu.

Helga 31.10.2008 kl. 22:08

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér var bent á dálítið í dag.  Undanfarnar vikur hefur eftirlit með fiskveiðilögsögunni verið í mýflugumynd.  Af þeim sökum er floti færeyskra togara innan landhelgi Íslands og moka þar upp fiski.  Hér er um að ræða ólöglegar veiðar.  Ef fram fer sem horfir, þá verða þeir fljótlega komnir langleiðina með að afla upp í þetta lán sem þeir ætla að veita okkur.  Vilji þeir sýna okkur vinaþel, sem ég virði þá mikils fyrir, hvernig væri þá að hætta ólöglegum veiðum.

En bara svo það sé á hreinu, þá mun einhver hluti íslenska fiskiskipaflotans haga sér jafn kjánalega líka.  Það er furðulegt, að íslenskir útgerðamenn skuli ekki bera meiri virðingu fyrir íslenskum lögum, að þeim finnist sjálfsagt að brjóta þau þegar færi gefst.  Þetta er nákvæmlega sama óábyrga hegðun og varð til þess að fiskistofnarnir hrundu á sínum tíma og að bankarnir hrundu eins og spilaborgir um síðustu mánaðarmót.

Marinó G. Njálsson, 1.11.2008 kl. 01:17

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Verslunarferðirnar eru auðvitað bara af hinu góða og ,,beggja hagur" eins og sagt er. Ég varð reyndar hálf klökk yfir viðtölunum á vísir.is - barnslega hlýleg.

Kemur mér ekki á óvart að allt sé að fara úr böndunum varðandi fiskveiðilögsöguna okkar og gæslu hennar. Fljótlega fer þetta allt í fastar skorður, þá er partíið búið hjá sumum (ofveiðimönnunum og bankaliðinu) og byrjar hjá öðrum, sem við ekki vitum hverjir verða. Ef ofveiðin verður ekki langvarandi þá má kannski segja að við höfum tekið upp sóknardagakerfið að hætti Færeyinga í smá tíma. Svo framarlega sem þetta verður ekki of langvarandi og bitnar ekki sérstaklega á smáfiski og heppilegasta hrygningarstofninum þá munum við eflaust þola þessa heimsókn í sóknardagakerfið, en best er auðvitað ef þessi undarlega staða verður skoðuð.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.11.2008 kl. 02:10

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Og fyrst við erum á játningastiginu, þá er ég reyndar kvartbauni, danska amma mín var skemmtileg kona.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.11.2008 kl. 02:11

5 identicon

Mér finnst leiðinlegt að sjá að Marinó talar eins og það sem honum var "bent á" séu staðreyndir. Mér finnst líka leiðinlegt að sjá að hann fullyrðir að Færeyingar séu að "moka" upp fiski ólöglega. Mér finnst leiðinlegt að sjá að hann segir að Færeyingar verði "fljótlega komnir langleiðina með að afla upp í þetta lán sem þeir ætla að veita okkur". Og mér finnst leiðinlegt að sjá að hann segir: "Vilji þeir sýna okkur vinaþel (...) hvernig væri þá að hætta ólöglegum veiðum".

Stóru orðin byggir Marinó á því sem honum var "bent á í dag". Það er leiðinlegt að sjá svona - engar sannanir . Honum var "bent á"!

Helga 1.11.2008 kl. 02:26

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Reyndar er þetta rétt ábending hjá þér Helga, við þurfum eflaust að fá meiri upplýsingar en ábendingu einhvers staðar frá. En þótt þessi væri raunin, og vissulega er margt í lamasessi nú, þá þyldum við það alveg í smá tíma með þeim fyrirvara sem ég setti áðan.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.11.2008 kl. 04:26

7 identicon

Ástæðan fyrir lánveitingum Færeyinga var sú, að þeir sáu fram á að tapa þessum aurum, sem voru b.t.w. geymdir í Landsbankanum, það kom fram í upphaflegu fréttinni. Snjallt "move" hjá þeim.

Nöldrarinn 1.11.2008 kl. 06:41

8 identicon

Helga, ég get ekki gefið upp minn heimildarmann, en hann er innan íslenska stjórnkerfisins.

Marinó G. Njálsson 1.11.2008 kl. 11:56

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Helga, frekari upplýsingar eru þær, að færeyskir togarar eru innan íslensku fiskveiðilögsögunnar og eru taldir vera að veiða um 60 tonn hver á sólarhring.  Aflaverðmæti er álitið 60 milljónir kr. á sólarhring hjá flotanum!  Vegna fjárskorts getur Landhelgisgæslan ekki haldið úti eftirliti.

En eins og ég segi, þá eru Færeyingar ekki einir um þetta.

Ef þú þekkir til minna skrifa, þá er ég ekki slúðurberi og mínar upplýsingar standast skoðun.

Marinó G. Njálsson, 1.11.2008 kl. 13:25

10 identicon

Marinó, ég met mikils að menn séu menn orða sinna og rjúfi ekki trúnað. En mér finnst afskaplega ósmekklegt að nota umræðu þar sem Færeyingum er þökkuð vinsemd þeirra og hlýr hugur til að koma því á framfæri að það er skoðun ýmissa að þeir stundi það að stela af Íslendingum (að veiða án leyfis er þjófnaður).

Ég veit ekki betur en að Færeyingar hafi leyfi til að veiða í landhelginni. Ég hef ekki hugmynd um hvað þeir mega veiða mikið og ekki heldur hvaða tegundir. Þú segir að þeir veiði 60 tonn á sólarhing. Eru þetta 60 tonn á sólarhring 365 daga á ári, eða 60 tonn annan hvern sólarhring, eða 60 tonn alla fimmtudaga? Eru þetta 60 tonn á sólarhring umfram það sem þeir hafa heimild til að veiða? Þú hlýtur að sjá að það er ekki vandað að setja svona fram. 60 tonn hver togari, segirðu. Hvað eru togararnir margir? Tveir? Fimmtán.

Enn á ný endurtek ég þakkir mínar til Færeyinga. Aðstoð þeirra er ekki bara peningaleg - það er hugurinn sem ég met mest.

Helga 1.11.2008 kl. 14:29

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Helga, það væri ekkert athugavert við þetta, ef þetta væri löglegt.

Varðandi það að nota þennan þráð, þá áleit ég þetta vera vettvang til að vekja athygli á þessu.  Sannleikur getur verið sár, en ég hélt að við værum einmitt að súpa seyðið af því um þessar mundir að hafa ekki hlustað á sannleikann.  Þú finnst þetta vera ósmekklegt af mér.  Mér finnst það á sama hátt ósmekklegt að á sömu stundu og færeyska þjóðin er að sýna okkur samstöðu, þá eru færeyskir útgerðarmenn að nýta sér að Landhelgisgæslan getur ekki sinnt því eftirliti sem henni er ætlað.  Ég er ekkert viss um að færeysku þjóðinni finnist þetta eðlileg hegðun af hálfu útgerðarmanna sinna.

Marinó G. Njálsson, 1.11.2008 kl. 15:00

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta átti að vera: ..Þér finnist ósmekklegt...

Marinó G. Njálsson, 1.11.2008 kl. 15:01

13 identicon

Marinó, ég vil trúa því að við séum meira sammála en ósammála. Það sem okkur greinir á um er að mér finnst ósmekklegt að nota vettvang þar sem Færeyingum (þjóðinni Færeyingum) er þakkaður hlýr hugur í garð Íslendinga. En mér virðist að þér finnist í lagi að breyta honum yfir í að vekja athygli á hugsanlega ólöglegri starfsemi færeyskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Ég geri ekki greinarmun á þjóðerni þeirra manna sem stela fiskinum okkar. En ég geri greinarmun á þjófunum sjálfum og þjóðunum sem þeir tilheyra. Íslenskir námsmenn í útlöndum eru núna að gjalda fyrir það að ýmsir gera ekki greinarmun á þeim sem einstaklingum og háttalagi stjórnvalda, embættismanna og viðskiptamanna sem tilheyra sömu þjóð og saklausir námsmennirnir.

Ég mótmæli því sem þú segir að "við" séum að súpa seyðið af því um þessar mundir að hafa ekki hlustað á sannleikann. Ég og þúsundir aðrir Íslendingar hlustuðum en við höfðum ekki möguleika á að hafa áhrif á athafnir þeirra sem ekki hlustuðu. Í vinsemd bið ég þig að segja ekki "við" þegar þú átt ekki hlut að máli: Ég tek ekki á mig sök annarra með því að segja "við gerðum" um atburði sem ég tók ekki þátt í. Það er mikilvægt að sökin sé sögð eiga heima þar sem hún á heim aog enn veit ég ekki nákvæmlega hvar hún á heima vegna þess að mér eru ekki veittar upplýsingar um það sem gerðist.

Enn hef ég ekkert sem sannfærir mig eða sannar að færeyskir útgerðarmenn nýti sér að Landhelgisgæslan getur ekki sinnt eftirliti. Fyrr en sannanir um það liggja fyrir mun ég ekki fordæma færeyska útgerðarmenn og aldrei mun ég heimfæra ólöglegt háttalag þeirra yfir á færeysku þjóðina.

Það er mjög líklega kominn tími til að ræða hvort Landhelgisgæslan sinni hlutverki sínu í að vernda landhelgina. Umræðan um hugsanlegar veiðar færeyskra útgerða á heima á þeim vettvangi en ekki þar sem þjóðinni Færeyingum er þökkuð vinsemd.

Helga 1.11.2008 kl. 15:33

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Helga, "við" erum að súpa seyðið af því, hvort sem það var einhvers annars að fara eftir því sem var sagt.  Fjölmargir einstaklingar eru að tapa milljónum og stefna í hugsanlega í gjaldþrot.

Viljir þú fá nánari upplýsingar um það sem ég er að ræða, þá get ég sent þér það í tölvupósti, en ég set það ekki hér.

Marinó G. Njálsson, 1.11.2008 kl. 16:11

15 identicon

Þakka þér fyrir spjallið Marinó. Gaman að spjalla við þig. Ég vona að Anna sé sátt við það að við höfum tekið síðuna hennar undir okkar.

Kreppan sem Íslendingar sökkva núna dýpra og dýpra ofan í opnar vonandi augu flestra fyrir því að hugsanlega eru sumir innviðir samfélagsins ekki eins traustir og reynt hefur verið að fá fólk til að trúa.

Það kæmi mér ekki á óvart að Landhelgisgæslan hafi ekki um langan tíma getað sinnt hlutverki sínu. Það er óverjandi að auðlindarinnar í sjónum sé ekki gætt. Um þetta erum við örugglega sammála.

Mikið rétt hjá þér "við" súpum seyðið, sumir saklausir og aðrir sekir af ástandinu. Mér finnst mikilvægt að fólk opni núna augun fyrir því að þau sem bera sökina gátu farið sínu fram vegna þess að hér vantar lýðræðislega hefð, lýðræðislega umræðu, lýðræðislegt aðhald o.s.frv. Reynist það vera rétt að erlend útgerðarfyrirtæki séu að veiða ólöglega innan landhelginnar þá spyr ég: Í hvers þágu er það að svelta Landhelgisgæsluna svo að hún stendur aðgerðarlaus hjá? Hvaða hlið lýðræðishallans gerir það að verkum að hægt er að svelta Gæsluna? Ég vona að þú áttir þig á hvað ég er að reyna að segja.

Helga 1.11.2008 kl. 16:40

16 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

En mórallinn í sögunni er alla vega: Færeyingar eru góðir - viðbrögð þeirra í snjóflóðunum og Heimaeyjargosinu höfðu ekkert með hagsmun að gera, bara manngæslu.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.11.2008 kl. 17:01

17 identicon

Mikil skelfing, Anna, tek undir það.

Helga 1.11.2008 kl. 17:15

18 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Manngæsku, átti þetta auðvitað að vera :-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.11.2008 kl. 18:42

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband