Hörð lending - ekki fyrir mig heldur landið okkar góða

Jú, raunveruleikinn er að hellast yfir mig með því að koma heim, á því leikur enginn vafi. En yndislegt að hitta fólkið sitt, það er eitt sem víst er, ... ,,allt er bjart fyrir okkur tveim, því ég er komin heim" er alveg hægt að syngja með Óðni Valdimarssyni, Bubba og síðast en ekki síst Sigurði Guðmundsson og Memphismafíunni. Sakna reyndar rosalega Nínu systur, Anne, Sóleyjar og Elfu og allra þeirra fjölskyldna. Verkefnið á næstunni: Nínu heim, hún er ekki hrædd við hremmingarnar!

En harða lendingin, fólk var bara bratt í ,,Markaðnum" áðan, en mér finnst að sá veruleiki sem ég er að heyra af sé mun alvarlegri en vefmiðlar vilja vera láta.

Bankastjóralaunin sem ekki átti að skerða og þjóðinni þóttu siðlaus verða lækkuð til samræmis við laun kvennanna sem taka við stærri bönkunum. Það er táknrænt skref í rétta átt.

Mótmæli: Kurteist ofbeldi yfirvalda, mjög góður frasi. Samfylkingin er í 99% stjórnarandstöðu, á að líða það að stjórnmálamenn í stjórnarsamstarfi sem ber fulla ábyrgð á ástandinu með aðgerðarleysi og blindu, skríði í skjól öskureiðra flokkssystkina sinna?

Seðlabankinn (tæknilega) gjaldþrota, úff. Hljómar illa.

Það hryggir mig líka að sjá hversu margir skoða ekki orsakir og afleiðingar ástandsins, annars vegar er nokkuð ljóst að við værum aldrei í þessari stöðu ef ekki hefði verið ,,bannað" að koma böndum á hömlulausa útrás bankanna í krafti EES. Hins vegar vilja menn fara enn dýpra í það fen og íhuga ESB aðild. Að vísu er þetta ekki í fyrsta sinn sem við (ekki ég, saklaus!) höfum fengið svoleiðis köst, en þetta kemur á óheppilegum tíma, við þurfum að sameinast um raunverulegar aðgerðir en ekki hál ,,haldreipi".

Hluti af vandamálinu nú er hörð lending eftir allt of mikla þenslu, gerir bara illt verra. Og samt eru einhverjir með glýgju í augunum að hugleiða enn meiri landspjöll í formi virkjana sem selja á til áhættuiðnaðarins, sem nú þegar sýnir merki um hrun, áliðnaðarins. Úff, aftur.

Sér ekki framtíðina fyrir tárum, er sagt í fréttunum núna. Sorglegt.

Samt er svo indælt að koma heim með ómetanlegar minningar (og fullt af vinnu sem ég hef komið í verk). Landið mitt var ekkert smá fallegt í dag þegar við ókum frá Keflavík til Reykjavíkur. Jamm, hvernig væri nú að fara að láta hjól atvinnulífsins snúast með framkvæmdum við lest til Keflavíkur, sem yrði arðbær framkvæmd til lengri tíma, bæði fyrir umhverfið og samfélagið.

En gaman að heyra hestasögurnar og hvernig gengur í hestamálunum sem taka þann tíma sem hann hefur aflögu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aprílrós

VElkomin til Íslands ;)

Aprílrós, 25.10.2008 kl. 19:59

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.10.2008 kl. 22:03

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Já, sannarlega, einmitt frá suðri, mikið gaman.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.10.2008 kl. 22:23

4 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Velkomin heim Anna

Vilborg G. Hansen, 26.10.2008 kl. 09:06

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk enn og aftur! Skrýtið en gott.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.10.2008 kl. 16:01

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband