Smáþjóðirnar Litháen og Ísland

Í dag er verið að fagna 20 ára afmæli þess viðburðar að Ísland viðurkenndi sjálfstæði Litháens og í kjölfarið aðrar þjóðir, mishratt eflaust. Smáþjóð viðurkenndi aðra smáþjóð (liðlega tíu sinnum fjölmennari, en samt líka smáþjóð). Forseti landsins, Dr. Dalia Grybauskaitė, er hér á landi af því tilefni, kona sem ég held að Litháar hljóti að vera stoltir af að hafa sem þjóðhöfðingja. Dagurinn hjá mér hefur borðið þessa merki, fyrst kl. 9:15 í dag í Höfða þegar ég mætti í stutta og hátíðlega móttöku vegna starfa minna fyrir 20 árum (!) um miðjan dag sat ég svo í hringborðsumræðum og þá vegna þátttöku minnar í stjórnmálum nútímans, það er ESB-andstöðunni, og loks kem ég væntanlega við í móttöku litháenska sendiráðsins á eftir á leiðinni á flokksráðsfund VG. Fyrir hundkvefaða konu er þetta bara töluverður dagskammtur því á milli þessa er ég auðvitað í vinnunni, stutt að fara úr Höfða í morgun, reyndar.

Kvefið kom mér í koll í lok umræðunnar í dag, þegar ég hrökklaðist út með smá hóstakast. Sem betur fór var fundurinn nánast á enda þá og ég náði nánast allri umræðunni. Þarna voru hinar fyrirsjáanlegu spurningar í ýmsum myndum frá hinum fyrirsjáanlegu fulltrúum: Hvernig gengur Litháen sem smáríki innan ESB? (Rukkað um svarið: Frábærlega, hefur dúnduráhrif) - Hefur Litháen tapað einhverju af fullveldi sínu með inngöngu í ESB? (Rukkað um svarið: Nei, auðvitað ekki) og: Er Litháen (nokkuð) að missa sýn á sjálfsmynd sinni inni í ESB? Þótt dr. Dalia hafi verið mjög virk og ótrúlega áhrifamikill einstaklingur innan ESB þá féll hún ekki í þá gildru að bregða upp einhverri glansmynd af verunni í ESB, en hún hafði hins vegar mörg góð heilræði fyrir þá Íslendinga sem vilja að landið gangi í ESB. Þau helstu voru kannski að berjast ekki fyrir of mörgum málum, vera reiðubúin að gefa sumt eftir til að ná öðru fram.

Ég stakk inn í umræðuna þeirri staðreynd að eins og mál horfðu núna þá myndu Íslendingar hafna aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af orðræðu ,,hinna talandi stétta" má oft draga þá ályktun að Íslendingar vilji allir ólmir inn í ESB og ekkert síður rétt að minna Íslendingana í umræðunni á það en gestinn okkar. Ísland er svosem ekkert eitt um það að hafa miklu fleiri af algengustu álitsgjöfum þjóðarinnar hlynnta aðild að ESB en gengur og gerist í öðrum þjóðfélagshópum, þetta er reyndin í flestum löndum Evrópu, utan og innan ESB. Og þar sem Dr. Dalia Litháensforseti hafði þegar gefið Íslendingum allmörg heilræði um samskipti við ESB ef við værum á leiðinni inn þá bað ég um eitt eða tvö fyrir okkur ef við enduðum nú utan ESB, eins og þjóðin hefur lengi viljað. Þegar út var komið var ég að velta því fyrir mér með Birgittu Jónsdóttur hvort hún hefði beinlínis gefið okkur heilræði og Birgitta hló og sagði: - Jú, hún gerði það. Hún sagði: Þið eruð fyrir utan núna og þið spjarið ykkur bara vel!

Ekki að hún hafi verið að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem bæði Ísland og Litháen hafa gengið í gegnum, síður en svo. Þvert á móti lagði hún áherslu á tvennt, hver er sinnar gæfu smiður, innan og utan ESB þarf alltaf að standa vaktina - og það sem bæði Íslendingar og Litháar vita svo vel, enginn annar getur ákveðið það fyrir okkur, hvað okkur veitist best.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband