Síki, mannlíf og gömul hús

Í þessari viku kom ég í fyrsta sinn til Írlands, í snöggri ferð til Dublin. Það er að vísu alveg stórundarlegt, hef bara ekki átt erindi þangað. Þegar menntaskólaárgangurinn minn fór í fyrsta sinn í fimmta bekkjarferð til útlanda var það til Írlands. Í þá ferð fór ég ekki, bæði vegna blankheita og líka vegna þess að ég hafði dvalið í Englandi í hálft ár árið á undan. Á þeim árum útilokaði svoleiðis lagað nánast að rápa meira næsta ár. Nú er ég komin á þann aldur að geta leyft mér að minnka vinnu, eða alla vega að gera hana sveigjanlegri en áður, og stökkva jafnvel á virkum dögum á nothæf tilboð út í bláinn og næstum án erindis. Þess vegna var ég allt í einu komin til Dublin. Á heimleiðinni heyrði ég í kring um mig ávæning af því hvað aðrir Íslendingar höfðu verið að gera á Írlandi og áttaði mig allt í einu á því að ég er ekkert að sækjast eftir því sama og margir aðrir í svona ferðum, sem er auðvitað besta mál. Fer ekki á víkingasöfn, krár, í bjór- eða viskíverksmiðjur, á leiksýningar (það geri ég reyndar í London) né söfn og gallerí, nema ég viti af einhverju sérstöku sem ég ,,verð" að sjá. Og mér finnst ekkert gaman að fara í búðir, er venjulega fljót að afgreiða það sem ég ætla að kaupa (guð blessi Google frænda) í þeim búðum sem selja það sem mig vantar/langar í og get fengið handa mér eða öðrum. 

Allt frá því ég fór ein til Kaupmannahafnar 1967, þá fimmtán ára, bjó í London 1970, rápaði um Evrópu, mest austanverða, 1974 og fram til þessa dags þá gerist nokkurn veginn það sama þegar ég kem til nýrrar eða kunnuglegrar borgar. Ég rölti af stað, hoppa upp í strætó, finn falleg hverfi (alltaf kostur að sjá falleg hús og flest gömul) og bara geng um, skoða mannlífið, best finnst mér að finna vatn og þá gjarnan síki. Þar er oft skemmtilegasta umhverfið og mest að gerast. Datt auðvitað í lukkupottinn Hamborgarárið mitt, 2015, sem var alls ekki heilt ár, en þar er Alster-vatn og ótal síki auk hafnarsvæðisins og fallegum slóðum meðfram Elbe. Nokkrar myndir úr nýjustu ferðinni minni svona í lokin. IMG_2177 (2) 

IMG_2184 (2)IMG_2188 (2)IMG_2194 (2)IMG_2462 (2)IMG_2470 (2)


Bloggfærslur 12. ágúst 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband