Borgirnar ,,mínar“ og skrýtin gleymska – og smá Absalon

Fyrsta borgin sem ég féll fyrir var París. Þá var ég sjö ára á ferð eftir hálfs árs dvöl á Spáni, þar sem ég hafði meðal annars komið til fallegu borgarinnar Granada, og einnig til Malaga og Madrid. Ólafur fóstri minn hafði komið átta sinnum til Parísar þegar hér var komið sögu og aldrei upp í Eiffel-turninn. Úr því var snarlega bætt. Eftir París tók við tveggja vikna dvöl hjá Fríðu ömmusystur á Vesterbrogade í Kaupmannahöfn, Tívolí með rússíbanaferð og gíraffahringekju. Kaupmannahöfn, borgin þar sem pabbi ólst upp, tikkaði ekki inn þá.

531248_4207401421748_730868893_nFimmtán ára gömul var ég orðin ólm að komast til London. Þar voru Bítlarnir (þetta var 1967) og Carnaby Street. Hvers var frekar hægt að óska sér? Ég nurlaði saman fé með því að vinna í prentsmiðju allt sumarið (í pilsi og nælonsokkum) fyrir Lundúnaferð, en praktísk eins og alltaf, endaði ég á ódýrari ferð með Gullfossi, sem þá fór enn til Leith og Kaupmannahafnar, þetta var haustferð og sex daga stopp í Höfn. Mér þótti það súrt í broti, en ferðin var einfaldlega næstum helmingi ódýrari en hin heittelskaða Lundúnaferð sem beið enn um sinn. Þarna kynntist ég frábærri dóttur háseta á Gullfossi, Sirrý, og við stunduðum bæði Tívolí og skemmtistaðinn La Carrusell fram undir morgun, og stundum lengur, því þegar La Carrusell lokaði klukkan fimm á morgnana opnaði Jomfruburet á Strikinu. Seinasta kvöldið vorum við á ferð með íslenskum nýstúdentum minnir mig og fórum meira að segja á Club Six. Á La Carrusell var allt það besta spilað, sennilega hljómsveitir og ég tengi þetta við að uppgötva Eric Clapton, Small Faces (Itchyco Park) og fleiri sækadelic hljómsveitir. Á Club Six aftur á móti heyrði ég A Whiter Shade of Pale og mér fannst hann aðeins of slísí fyrir mig (eins og Jomfruburet, sem var leiðindastaður).

Merkilegasta upplifunin í þessari Kaupmannahafnarferð var þó þegar við Sirrý fórum á árabát um höfnina og ég var rétt sest undir árina öðru megin nálægt Knippelsbro þegar stór ferja kom blásandi með látum stormandi undir brúna (sem opnaðist fagurlega) og við rerum lífróður, bókstaflega, undan þessu ferlíki. Ég hægar en messaguttinn sem rerir á móti mér, en hann hafði vit á að fara á mínum hraða svo við færum ekki í hringi. Ævinlega þakklát fyrir það, hann varð ekki eigin kraftahroka að bráð, sem hefði geta verið hættulegt. Í sömu ferð á árabátnum sigldum við inn eftir skurðum eða síkjum og sáum yfirgefin hús eftir herinn. Þetta var skrýtin draugaborg sem seinna varð Kristjanía.  Á þessum tíma voru hipparnir á Nikulais plads og ég var skíthrædd við þá, þeir voru virkilega skerí fyrir fimmtán ára stelpu sem þorði ekki einu sinni að drekka bjór. Við Sirrý keyptum flott flöt, satínblússur og stutt plíseruð pils og tvílita skó í stíl, hún í eplagrænum og grænum tónum og ég í appelsínugulum og brúnum.

Ári seinna var stoppið stutt í Kaupmannahöfn eftir sumardvöl í Osló, keypti notaðan pels í Nýhöfninni en þetta árið (1968) var Gullfoss farinn að leggja að nær henni. Mér fannst hún svolítið hættuleg að sjá. Gisti tvær eða þrjár nætur á KFUK með Sollu og Ernu, vinkonum mínum, sem voru að koma frá sumardvöl í Svíþjóð. Fór í Tívolí og í hangiróluhringekju í þetta sinn sem fór mjög hátt og ég gat snert trjágreinar með tánum.

Átján ára komst ég loks til London og gat ekki slitið mig frá henni, elska hana enn.

41517495_10217333447386621_796107875196862464_nNæst gerði ég stuttan stans í Kaupmannahöfn þegar ég var orðin 22 ára, var á leið í heils mánaðar Evrópuferð og vantaði hvíta stúdentapassann sem tryggði mér hræbillegar lestarferðir um alla Austur-Evrópu. Ég keypti flug með Guðna í Sunnu til Kaupmannahafnar, en Sunna hafði ekki lendingarleyfi í Höfn í hvorugri leiðinni, svo við lentum í Hamborg og ég rétt náði að hirða upp passann áður en ég fór í lestina til Parísar þar sem foreldrar mínir biðu mín. Á bakaleið var sama sagan, stutt stopp, gisti eina nótt á Missionshotel Absalon og svo rúta til Hamborgar. En á ferjunni aðra hvora leiðina hitti ég reyndar tilvonandi tengdaforeldra mína og mág í fyrsta sinn, ekkert okkar vissi auðvitað um framtíðartengslin okkar, en tengdamamma fann þetta út.

Síðan kom ég ekki aftur til Kaupmannahafnar fyrr en 1987 eftir tveggja vikna Evrópuflakk að hausti, með mínum heittelskaða, en við enduðum í viku með systkinum hans og þeirra mökum og börnum í Kaupmannahöfn. Frábær dvöl. Danir eru svo ,,fornuftig“ sagði mágur minn með réttu, þau bjuggu þarna, ekki við. Þremur árum síðar, eftir hartnær mánaðar skútuflakk um sænsku vötnin og skerjagarðinn kynntum við krakkana okkar, þá 11 og 13 ára fyrir Tívolí í Kaupmannahöfn (ég varð hrædd/sjóveik í hringekjunni þá) og gistum á Absalon í tvær nætur, í stóru, snyrtilegu risherbergi. Þremur árum seinna lenti ég í átta stunda óvæntu stoppi í Kaupmannahöfn, traffíkin yfir Evrópu var í hámarki, og seinkun á flugi til Parísar, þar sem flugvél til Kamerún beið (varla) eftir okkur. Við vorum fjögur saman, við tvö sem fórum í bæinn og keyptum fóðraðar rússkinnsúlpur á krakkana okkar (og tókum með til Kamerún) og svo hinir, þessir skynsömu, sem keyptu sér svefnskápapláss sem þá var í boði á Kastrup (1993). Við sem fórum í bæinn vorum þreytt daginn eftir á ráðstefnu, en ég vakti þó.

Einhver smástopp átti ég í Kaupmannahöfn næstu árin, man eftir skemmtilegu kvöldi í Nýhöfninni sem þá var orðin falleg og einhverju fleiru, en alltaf á leið héðan og þaðan og aldrei beinlínis þangað. Svo í byrjun ágúst 2001 fór ég fyrir vinnuna í 2-3 daga til Kaupmannahafnar, þá var ég farin að vinna í hugbúnaðargeiranum. Þessir fyrstu dagar urðu 10 og frá 1. október þegar ég fór í aðra 2-3 daga ferð þangað var ég alltaf frá sunnudegi til fimmtudags að vinna í Kaupmannahöfn (Bröndby) nema í desember, þá hætti ég að koma heim á fimmtudagskvöldum, fyrr en 17. desember (en þá átti ég eftir að fara í tvö próf fyrir jól – sem ég náði!). Það sem eftir lifði vetrar fór ég sjaldnar og næstu árin en stopulla, en þó man ég eftir einum degi þegar ég fór með morgunflugi á námskeið í Bröndby, skrapp svo í Tívolí og tók kvöldvélina heim. Ég var að vinna með yndislegum vinnufélögum að nánast óleysanlegu verkefni, eina vikuna var mér sendur Óli sonur minn mér til halds og trausts í tæknilegri hugbúnaðarprófanir, við unnum öll eins og þjarkar, en Danirnir sem við unnum með fórum heim klukkan fjögur á daginn.

Miðað við að við unnum oft til miðnættis (og sungum jafnvel eins og galeyðuþrælar eftir tíu á kvöldin) þá náðum við að fara á ótrúlega marga veitingastaði, suma mjög góða, og djamma alveg óheyrilega mikið, stundum lengur en til fimm á morgnana eins og þegar ég var fimmtán á La Carrusell. Held að það hafi verið Helle vinkona mín sem kynnti okkur fyrir áströlskum bar rétt fyrir neðan Strikið, sem var góður, við fórum líka á Fræbbbla-konsert, það var daginn sára þegar Íslendingar töpuðu 6-0 á Parken og ekki allir í jafn góðu skapi. Helle spurði varlega hvort Fræbbblarnir hefðu verið í löngu fríi, en ég sagði að söngvarinn hefði alltaf sungið svona. ,,Nú ... „ sagði hún.

Næst varð ég ástfangin af Hamborg, en kom þó reglubundið við í Kaupmannahöfn og fékk meðal annars eitt besta salat ævi minnar þegar við Elísabet systir héldum upp á stórafmæli hennar með einkaferð til Susse frænku helgarpart meðan ég bjó í Hamborg.

41552563_10217333447306619_5197327611218362368_nAllt þetta og ótal margt fleira rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skrapp í örstutta Kaupmannahafnarferð (gist á 4* hótelinu Absalon) um daginn, eiginlega á því augnabliki þegar ég settist með Ara mínum á veitingahús á Vesturbrú, sæmilega þreytt eftir daglangt rölt um bæinn og fór að segja honum brot af því sem ég hef nú sett á blað. Nostalgían helltist yfir mig, allar góðu Kaupmannahafnarminningarnar sem ég á. Þarna á ég líka rætur, yndislega ættingja, hef rápað stefnulaust um æskuslóðir pabba án þess að átta mig á því, farið á flottan ballett (auðvitað í Tívolí) séð Victor Borge (en þá var ég bara sjö ára og ekkert svo sleip í ensku) og farið á yndislegar listsýningar í Glypotekinu og Louisiana. Öll skynsemi segir mér að ég ætti að eiga Kaupmannahöfn sem mína uppáhaldsborg, kannski uppgötva ég það einhvern tíma að hún er það, en þangað til: Halló London, Hamborg, Seattle, Montreal, Budapest, Singapore, Auckland ...

 

P.S. ef einhver er ósáttur við stafsetningu (skemmti)staðanafna þá er ég á skáldaleyfi í þetta sinn og fæ að hafa þetta svona. Stundum hef ég reyndar efast um að staðurinn hafi verið til (þessi rangt stafsetti) því enginn virðist muna hann nema ég, en hann VAR til: 

https://www.setlist.fm/venue/le-carousel-copenhagen-denmark-3bd44c3c.html


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband