Sandgerði - Barcelona - Álftanes - Grímsstaðaholt
7.11.2007 | 21:57
Hvað eiga þessir staðir sameiginlegt? Held að þeir eigi sér allir einhverja útgerðarsögu, fer þó eftir því hvort leyfilegt er að teygja skilgreininguna á Grímsstaðaholti niður að sjó eða ekki. Annað sem þeir eiga sameiginlegt þessa stundina er að lífið hjá mér snýst um þá.
Ekki hægt að láta sér leiðast. Var að ljúka við æði mikla verkáætlun varðandi Sandgerðissöguna, sem verður væntanlega ögn stærra dæmi en ég hélt, sem er bara gott. Spennandi að fylgjast með því dæmi. Helgarferð til Barcelona framundan, þangað hef ég - merkilegt nokk - aldrei komið. Simbi og Óli einir í kotinu en eins og Óli sagði svo ágætlega: Ætli ég taki nokkuð eftir því þótt þið skreppið. það er nefnilega svo yndislega anarkíst heimilishald hér á bæ. Heimkomin þarf ég að einhenda mér í að ljúka tveimur verkefnum sem varða Álftanesið og svo má ekki gleyma blessuðu Grímsstaðaholtinu, þar sem dagarnir mínir byrja við stærðfræðiiðkun flesta daga vikunnar. Sit núna í nýju skrifstofuaðstöðunni minni uppi á loftið og dreifi í kringum mig heimadæmum, flestum óreiknuðum, en nokkrum nýloknum.
Maraþondagur að baki
7.11.2007 | 00:41
Snemma í morgun var ég komin á þá skoðun að líklega myndi ég lifa það af að halda fyrirlestur um stærðfræði, meira að segja þótt hann væri auglýstur innan deildarinnar. Við þurfum reyndar öll að gera þetta sem erum í kúrsinum RRR (Reiknirit, rökfræði og reiknanleiki) en þetta er í fyrsta sinn sem þessi háttur er hafður á og smá glímuskjálfti í mér út af því. En sem sagt, ég lifði af, held jafnvel að þetta hafi verið alveg nothæfur fyrirlestur, en skrýtin var tilfinningin óneitanlega.
Það sem eftir lifði dags fór í ýmsar nauðsynlegar útréttingar og svo var alveg nauðsynlegt að leggja sig aðeins fyrir fund sem fyrirhugaður var í kvöld, enn og aftur um skipulag Álftaness. Fínn fundur, fyrirsjáanlegt nöldur (eðilega) út af ýmsu smálegu en í stærstu dráttum held ég að við séum komin með miðbæjarskipulag sem uppfyllir þarfir og væntingar flestra. Rosalega GRÆNT skipulag og allt er vænt sem vel er grænt, er það ekki?
Kynning á tillögum hefur verið mikil og góð, bæði gagnvirk með fundahöldum og svo á netinu. Hrifin af flestu í þessu græna skipulagi, þarf að taka afstöðu til eins nýs máls, þar sem ég er aðeins sveigjanlegri en ég hefði haldið.
Hverjum dettur í hug að hætta sér út í að halda (stuttan) fyrirlestur um stærðfræði?
6.11.2007 | 00:23
Svandís sterkari en nokkru sinni fyrr
5.11.2007 | 01:46
Barði er ,,ekki hægt"
3.11.2007 | 22:06
Hef ekki haft nennu í mér við að setja mig inn í kapphlaupið um íslenska framlagið í Eurovision, vildi alveg afdráttarlaust fá Svein, höfund ,,Ég les í lófa þinn" aftur með í þetta sinn og er ekki alveg að fatta fyrirkomulagið. Áfram ósátt við fjarveru Sveins. Heyri lag og lag á Rás 2 og þau hafa ekki vakið athygli mína, ennþá. En í kvöld var það smá blogg frá Jenný Önnu sem varð til þess að ég fór á vef RÚV og horfði á lag sem ég var búin að heyra utan að mér að ætti að vera í kvöld. Var næstum búin að leggja undir mig umræðuna hjá henni og sé að það er víst bara best að hlífa henni og segja það sem ég hef að segja hér.
Sem sagt, einn lagahöfunda nú er Barði Jóhannsson, sem sló í gegn í mínu lífi með því að syngja hið ofurhressa lag: Stop in the name of love! eins og algert dauðyfli og gera það töff. Hann er með fyndnari mönnum. Þegar ég heyrði að hann ætlaði að vera með techno og Gilzenegger þá óneitanlega vaknaði forvitni mín. Og svo þegar ég var búin að lesa bloggið hennar Jennýar Önnu þá var bara að tékka á laginu, og Hó, hó! þetta lag er alveg með ólíkindum, sem og viðtalið við Barða (sem er bara venjulegur Barði). Erpur kemur líka sterkur inn. Þið sem eruð óþolinmóð eins og ég, færið bara stikuna fram í rúmlega miðjan þátt. Og það vann sem sagt í keppni kvöldsins.
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4360041
Menning og listir | Breytt 4.11.2007 kl. 13:05 | Slóð | Facebook
Eggert og blómin
2.11.2007 | 18:21
Hafdís vinkona mín var búin að segja mér að ég mætti alls ekki gleyma því að fara á sýninguna hans Eggerts á Kjarvalsstöðum. Ég er í mikilli þakkarskuld við hana, eins og nokkrum sinnum áður, til dæmis þegar hún dreif mig á Þingvelli einhvern tíma í góðu tómi og við gerðum nokkar vatnslitamyndir af fallegum mótívum þar. Myndir af afrakstrinum reyndar hér í myndamöppunni Myndlist.
Þessi sýning hans Eggerts er alveg ótrúleg. Eini gallinn við hana er sá að það var alveg útilokað að skoða hinar sýningarnar í húsinu, sem voru ágætlega áhugaverðar, eftir upplifunina. En alla vega, síðasta sýningarhelgi núna um helgina, þið sem hafið tök á, ekki missa af þessari sýningu.
Þverpólitísk samstaða staðfestir fljótaskrift
1.11.2007 | 12:05
![]() |
Borgarráð samþykkir að hafna samruna REI og Geysis Green |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Borgir sem byrja á B-um og vinnutarnir
31.10.2007 | 13:25
Skrýtið hvað fjölskyldan er sjálfri sér samkvæm í einu og öllu. Eins og allir séu að fara til einhverra B-borga. Elísabet systir nýkomin frá Berlín, Síví mágkona nýbúin að vera í Bejing og Belfast og ég nýkomin frá Budapest og á leiðinni til Barcelona - og með hverjum? Auðvitað allri tengdafjölskyldunni. Nína systir flýgur til Bandaríkjanna um jólin (nei ég veit að Bandaríkin eru ekki borg!) og ég var auðvitað viss um að hún flygi um Boston, en nei, nei, auðvitað flýgur hún um Baltimore, nema hvað (!). Ég efast ekki um að ég sé að gleyma einhverju. Þetta er svona eins og um árið þegar við fórum í búð og keyptum ekkert nema það sem byrjaði á k-i, eins og rakið hefur verið víðar hér í bloggheimum.
Nú er álagstoppur í ýmsum verkefnum hjá mér. Svo mikið að gera í skóla og vinnu að ég kemst ekki í tíma en er sest við tölvuna klukkan hálf níu að morgni þessa dagana. Er að gera áætlanir vegna tveggja stórra verkefna sem bæði eru framundan og svo verð ég með fyrirlestur í stærðfræðikúrsi í næstu viku. Mikið rosalega er ég fegin að hafa sagt upp fastavinnunni minni, þau verkefni sem ég hefði annars þurft að vísa frá mér eru hreinlega of góð til að ég megi til þess hugsa að missa af þeim. Á seinustu árum hef ég stundum hugsað til þess með söknuði þegar ég hef þurft að segja nei við allt of spennandi verkefnum og þetta var bara dæmi sem ekki gekk upp.
Eitt sinn sagnfræðingur, ávallt sagnfræðingur
30.10.2007 | 00:10
Þrátt fyrir næstum sjö ár í hugbúnaðarbransanum, sem ég er mjög skotin í, þá eru þessar tvær vikur sem ég hef nánast eingöngu helgað mig sagnfræðinni (og næstu sjö vikur á undan þegar ég var að reyna að sinna sagnfræðinni ásamt námi og 69% starfi) eins konar deja vu. Það er eins og ég hafi aldrei hætt, enda hætti ég víst aldrei alveg. Að setjast aftur í fallega lessalinn í þjóðdeildinni í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem vatnið gárast rétt utan við gluggann - flott bygging hjá Manferð - og fletta í skjölum, gömlum blöðum og skýrslum, fara á efri hæðirnar og spæjast svolítið í héraðssögum og ævisögum og sitja svo í tölvunni heima og pússla saman myndefni og máli, þetta er bara gaman.
Sem sagt, Sandgerðissagan er að verða að bók. Það sem er búið að vera allt of lengi bara handriti í hillu og myndir í kössum og umslögum verður vonandi bara virkilega skemmtileg bók fyrir marga að lesa.
Svo er bara svo margt að gerast í sagnfræðinni, margar hugmyndir, draumar og fjör.
En það er reyndar talsvert af draumum mínum varðandi þróun tölvutækninnar sem ég á eftir að hrinda í framkvæmd, engin spurning, hér og þar, þessar hugmyndir eru kannski ekki nema riss í bók og pikk í tölvu en þeirra tími mun koma.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:14 | Slóð | Facebook
Volgt sódavatn og vinnutími
26.10.2007 | 14:02
Eitt af því sem ég hlakkaði til í nýja free-lance lífinu mínu var að geta hagað vinnutíma mínum að hentugleikum. Var því heldur hissa í gær þegar ég var sest við tölvuna og farin að vinna kl. 9 um morgun. Í ljósi spakmælisins ,,Sá sem ekki getur sofið til hádegis hefur slæma samvisku" komst ég auðvitað að því að ástæðan var sú að ég var búin að setja á mig sjálfskipaða dead-line í lok dagsins fyrir ákveðinn hluta þess verkefnis sem ég er aðallega að vinna í núna. Þannig að allt var þetta laukrétt.
Annað sem kom mér á óvart var að sódavatnið mitt góða, sem húkti inn í ísskáp, hreyfðist ekki. Svo tók ég það úr ísskápnum og eftir smá hlýnun þá drakk ég það af bestu lyst. Þannig að sennilega þykir mér það betra volgt. Hins vegar stendur klakavélin alltaf fyrir sínu og ófá klakavatnsglösin sem hafa verið drukkin að undanförnu.
Núna er ég komin í meira sannfærandi fasa, svaf með góðri samvisku til hádegis og drolla eflaust yfir verkefnum frameftir nóttu. Fína vinnuaðstaðan mín uppi er ekki komin í gagnið, það kostar smá tíma að setja hana upp, og hann hef ég ekki eins og sakir standa, enda fer ágætlega um mig í stofunni með tónlist í eyrum, vel varin fyrir umhverfishljóðum, fjölskyldumeðlimir í kring, Hanna á msn og horfi ekki á annað í sjónvarpinu en House.