Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

... víxlarnir falla og blöðin detta

Það er mikil hauststemmning í fréttum og á fjármálamörkuðum. Eftir að sólin hefur skinið á þessum mörkuðum um allnokkurt skeið þá er eins og haustgarrinn sé alveg tekinn yfir. Sumt af þessu var fyrirsjáanlegt, annað ekki. Hér heima var varað við harðri lendingu þegar stóriðjufylleríinu lyki, erlendis mátti víða heyra viðvörunarraddir líka, mestmegnis fyrir daufum eyrum. Þessar djúpu haustlægðir í fjármálaheiminum eru, eins og hauslægðirnar Gústav, Ike og afgangar þeirra hér norðar, vísbending um að of mikill belgingur, þenslan margumtalaða, getur valdið eyðileggingu.

Einhvern tíma í vor vitnaði ég í Tómas Guðmundsson, Reykjavíkurskáldið sem menn vilja endilega að sláist í hóp með ,,styttum bæjarins, sem enginn nennir að horfa á". Í vor var hægt að segja:

Í nótt hefur vorið verið á ferli

og vorið það er ekk' af baki dottið

því áður en fólk kom á fætur í morgun

var fyrsta grasið úr jörðunni sprottið.

Þá hélt ég framhaldinu vísvitandi leyndu, þótt ég viti svo sem að margir þekkja það jafn vel og ég. En það hljómar svona (það er niðurlag ljóðsins - eftir minni):

En sumir halda að hausti aftur

þá hætta víst telpur og grös að spretta

og mennirnir verða vondir að nýju

því víxlarnir falla og blöðin detta.


mbl.is Hlutabréf lækka á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsjónir og mænuskaði

Samtök sem berjast fyrir bættum hag fólks með mænuskaða eru að fara í mikla fjáröflun á næstunni og ég ætla rétt að vona að allir verði tilbúnir að leggja þessum málstað lið. Elfa vinkona mín Gísladóttir (sumir muna best eftir henni sem Beggu frænku á Stöð 2) var hér í sumar og langaði að vera með í einhverju slíku átaki, eins og því kraftaverkaátaki sem gert var í þessum málaflokki fyrir 20 árum að mig minnir. Ragnheiður Davíðsdóttir hefur auðvitað verið pottur og panna í þessu máli og ég gleðst því innilega yfir því að hún keyrir málið áfram núna þótt Elfa hafi ekki náð að vera með í þessu átaki á meðan hún var á landinu (hún er leikhússtýra með meiru í Washington-fylki í Bandaríkjunum núna en bjó áður í Kanada). Og nú er allt á fullri ferð í málinu. Það er svo margt hægt að gera með samstilltu átaki.


Daginn eftir kvöldið á undan ... (og ein viðbót um magnaðan seið)

Veit einhver hvaðan setningin ,,the day after the night before" er komin? Google vinur minn tengir þetta við timburmenn og fleira óskemmtilegt, en líka ýmislegt hvert úr sinni áttinni, þannig að ég er aldrei þessu vant litlu nær. Mér finnst þetta alltaf svo flott setning, en vil gjarnan að hún eigi sér skemmtilegri skírskotun. Dagurinn í dag hefur verið svona dagur, án timburmanna þó. Hef sem sagt verið talsvert í símanum að endurlifa gærkvöldið og spennuna í Útsvarinu gegnum lífsreynslu annarra. Svo var ég reyndar sofnuð í sófanum þegar Ari setti endursýninguna á Útsvari á og þá fyrst gerði ég mér grein fyrir hversu erfiður þessi þáttur hefur verið fyrir þá sem héldu með okkur Álftnesingunum. Reyndar fínt að horfa á hann þegar maður veit hvernig fór. Ara fannst það líka ;-)

Ég verð eiginlega að upplýsa það að Álftnesingurinn Margrét Pála Ólafsdóttir, sem var gestur í Kastljósi, og þar af leiðandi í sminkinu líka, sagðist hafa magnað seið okkur til handa, miðað við gang þáttarins þá virkaði hann, takk! Margrét Pála er í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur lengi verið og ég fékk það skemmtilega hlutverk fyrr á árinu að taka viðtal við hana, sem var auðvitað púra ánægja. Óska henni velfarnaðar með allt hennar skólastarf og frumkvöðlahlutverk.

En það er ýmislegt fleira verið að gera núna, ég er að undirbúa ágætis lotu í tilverunni, koma Sandgerðissögu í prentun og leggja lokahönd á enskan texta sem ég er að skrifa fyrir Álftanes. Og svo styttist í Ameríkuferðina og ég var að heyra í Nínu systur, sem er alltaf gaman, eftir að hafa verið að kjafta við Elísabetu systur lengi vel í dag. Miklar pælingar í gangi eins og alltaf.

Svo er ég búin að fá að vita að fyrsta vikan í skólanum hjá Hönnu þessa önnina var bara alveg ágæt, sem er ákveðinn léttir, því ég veit að sennilega er þetta strembnasta önnin á skólaferlinum hjá henni. Þar sem ég var rétt búin að átta mig á því að Óli er búinn að bóka ansi stíft á sína önn, þá var þetta auðvitað að bera í bakkafullan lækinn, en mér finnst samt aðeins auðveldara að vera innan seilingar fyrir hann, ég meina, ég get alla vega lesið yfir ritgerðir, en minna gagn að senda á mig einhverjar læknisfræðiglósur. Ég var lengi að átta mig á því hvað er skrýtið, það er að ég er ekki byrjuð í skólanum (reyndar einn myndlistarskúrs framundan).

Sem sagt, dagurinn eftir kvöldið áður er að kvöldi kominn og ég get ekki hreykt mér af miklum afköstum (kannski er fullt eftir að deginum samt, en að mér læðist syfja og það allt of snemma).

 


Ótrúlega afslöppuð eða útúrstressuð á leið í spurningakeppnina Útsvar í kvöld með Guðmund Andra og Hilmar Örn mér við hlið

Eiginlega hef ég ekki hugmynd um hvort ég er ótrúlega afslöppuð eða útúrstressuð yfir því að vera að fara í spurningakeppnina Útsvar í kvöld, fyrir hönd Álftnesinga. Með mér í liði eru reynsluboltarnir Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði, tónskáld og tónlistarmaður, og fullkomin leynd hvílir yfir undirbúningi. Það skal þó upplýst að bensínafgreiðslumaður í Garðabæ hefur áhyggjur af leikhæfileikum okkar og giskgetu (og örugglega margir fleiri), námsmaður í Ungverjalandi þurfti að senda fyrirspurn um hvort Útsvar yrði nú örugglega sent út á neitinu (svo er sagt) og ekkert okkar, að ég held, hefur boðið ættingjum sínum að vera við, þó hefur frést að einhverjir hafi sjálfir útvegað sér miða. Guðmundur Andri hefur skirfað mjög spaklega grein í héraðsfréttablaðið okkar, alftanes.is um hvað maður sé miklu gáfaðri í sófanum heima en við spurningaborðið, tek undir hvert einasta borð, hef nefnilega einu sinni áður látið véla mig í spurningakeppni í sjónvarpi. Frést hefur að Fjarðabyggð, sem við etjum kappi við, hafi skipt út öllu sínu liði frá því í fyrra.

Kvenfélagið á Álftanesi mun, ásamt Lions, gera grín að okkur á komandi þorrablóti, hvort sem við vinnum eða töpum, ef marka má reynsluna frá í fyrra, en þá var ég reyndar ekki með í liðinu. Hef samt orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera skotspónn á þorrablóti, endur fyrir löngu, ásamt fleirum reyndar, og fannst það miklu skemmtilegra en sumum hefur þótt, nefni engin nöfn ;-)

Þannig að þetta verður yndislega sveitó hjá okkur, eins og það á einmitt að vera. Bara gaman!


Velkomnir, nýir Íslendingar og skynsamleg stefna í vali flóttamanna

Fylgist með mikilli athygli með frásögninni hennar Gurríar af komu nýju Íslendinganna til Akraness. Það er ákveðin skynsemi sem ég kann vel að meta í vali á flóttamönnum sem hingað koma. Þegar Júgóslavarnir komu var lagt upp með þá hugsun að fá hingað fólk sem ætti erfitt uppdráttar í heimalandinu, ekki síst vegna þess að hjónaböndin voru þvert á þær víglínur sem sköpuðust í stríðinu þar. Þannig komu allmörg hjón sem voru annað hvort serbnesk/króatísk eða blönduð á annan hátt. Það er líka skynsamlegt að bjóða hingað einstæðum mæðrum, því hér á landi hefur blessunarlega lítið verið um fordóma í þeirra garð miðað við margar aðrar Evrópuþjóðir til dæmis, þannig að þetta umhverfi ætti að vera gott fyrir þessar stríðshrjáðu fjölskyldur sem hingað eru komnar. En endilega fylgist með Gurrí.

Þá er að rjúfa þögnina (mína) um Söruh Palin

Ég hef ekki sagt stakt orð um Söruh Palin, þótt mér séu forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hugstæðar, enda mikilvægt að koma Bush frá. Okkur feministum er oft legið (ranglega) á hálsi fyrir að vilja fá konur í allt ,,bara af því að þær eru konur" eins og oft er sagt. Það er mikill misskilningur. Það var Hannes Hólmsteinn, en ekki feministar, sem hyllti Margréti Thatcher á sínum tíma. Og ég held að hann hafi ekki verið að hylla hana ,,bara af því hún er kona" enda ekki grunaður um neinn umtalsverðan feminisma. Mér finnst reyndar komment í viðtali sem ég tók við ofurskemmtilegan, enskan feministaleikhóp, Clapperclaw, segja allt sem segja þurfti um Margréti Thatcher: She MAY be a woman but she is not a sister!

Og þá er það Sarah. Ég ákvað að gefa henni sjans þegar ég heyrði fyrst af henni. Vissi ekkert um konuna og var tilbúin að bíta í það súra epli að McCain hefði verið sá slyngi refur að finna ómótstæðilegt varaforsetaefni. Það hefðir verið slæmt fyrir okkur sem viljum ekki framhald á veldi repúplikana. En nú hef ég heyrt smávegis frá Söruh sjálfri, hún er vel máli farin, sem er ekkert furðulegt, merkilegra hversu langt sumir (mið)aldraðir, hvítir karlar komast án þess að vera kjaftfærir. Hins vegar eru þau gildi sem hún stendur fyrir ekki fýsileg að mínu mati, á móti valfrelsi kvenna þegar kemur að fóstureyðingum, hlynnt byssueign og á móti spillingu annarra en ekki endilega í eigin ranni, ef marka má fréttir. Þannig að þótt hún sé kona, mjög frambærileg og án efa mjög hæf, þá er ég ekki sátt við að skoðanir hennar nái brautargengi. Mér er hins vegar slétt sama um óléttu dóttur hennar, mér kemur það bara ekkert við hvort hún ætlar að giftast barnsföður sínum eða ekki. Vona samt að ef hún gerir það verði það af réttum ástæðum, ekki vegna einhvers óeðlilegs þrýstins íhaldssamra repúplikana.

Þannig að sorrí, ég verð að halda með framboði karlanna tveggja, vissulega held ég að demókratar væru betur settir núna ef Hillary væri í fararbroddi, en ég er afskaplega sátt við Obama og vil hann endilega sem næsta forseta Bandaríkjanna, það væri svo sannarlega heillaspor. Og ég vona innilega að hann muni að vera ötull talsmaður fyrir feminisma, ekki veitir af og ég veit að það er fullt af góðu fólki í kringum hann sem mun halda honum við efnið.


Haustið og House

Mér finnst komið haust í sjónvarpsdagskrána, House er byrjaður. Venjulega er það þannig á sumrin að jafnvel fólk sem er að reyna að rækta upp sjónvarpsáhuga, eins og ég er farin að gera eftir að houseég uppgötvaði hvílík hvíld svona heilalaust sjónvarpsgláp getur verið, gleymir tilvist þess langtímum saman. Helst að ég rumski þegar ég heyri af Monk á sumarkvöldi. En með haustinu koma þessir þættir einn af öðrum, House og haustlaufin, Greys Anatomy og vetrarstormarnir og loks American Idol og jólakreditkortareikningurinn. Mér finnst full fljótt að House sé kominn, fá lauf fallin og flest græn ennþá nema rauða röndin meðfram einhverri akbrautinni sem ég brunaði framhjá. Hitastigið framundan segir mér að House eigi ekki að vera byrjaður. En House er kominn á kreik og minnir á óhjákvæmilega komu vetrarins, einn góðan veðurdag.

Ferðir og ferðalög

Einhvern tíma voru upplesnar ,,millifyrirsagnir" í auglýsingum í ríkisútvarpinu. Ein þeirra var ,,ferðir og ferðalög". Ég er mjög ferðaglöð manneskja og var búin að ákveða það strax í sumar að nota vildapunktana mína, sem margir hverjir renna út um næstu áramót, til þess að skreppa til Ameríku að heimsækja Nínu systur sem er í eins vetrar ,,útlegð" í Ameríku núna. Nema ef McCain verður kosinn forseti, þá á ég allt eins von á að hún komi heim fyrr ;-) en við skulum nú rétt vona að til þess komi ekki. Þorði ekki annað en fara að bóka þessa ferð, allar helstu óvissubreytur úr sögunni, meðal annars held ég að ég sleppi smá millihoppi sem ég var að hugsa um að taka, nema ég heyri í vinkonu minni á vesturströndinni alveg ákafri að ég komi við hjá henni. Kemur allt í ljós. Seinasta ár var mikið ferðaár, fór í sex mismunandi ferðir til útlanda, en núna verð ég rólegri í tíðinni (nema eitthvað breytist skyndilega) en bæti það upp með því að vera lengur í hverri ferð. Það er líka ágætt ;-)

Suðurnes

Mér hefur alltaf fundist eitthvað svo heillandi við Suðurnesin. Ákveðin dýnamikk sem maður finnur ekki alls staðar á landinu. Ég er reyndar Innnesingur og Álftanesið mitt, sem er auðvitað næstum fullkomið, telst ekki til Suðurnesja. Þegar ég var sex ára fór ég til Keflavíkur þar um borð í skip sem bar okkur, þrjá ættliði í kvenlegg, til Spánar þar sem við vorum næsta hálfa árið. Mér fannst alveg Asandgerdistjorneins spennandi að hafa farið til Keflavíkur eins og til Gibraltar, þar sem við tókum land, en svo festist Spánardvölin auðvitað betur í minni og yfirskyggði annað. Á unglingsárum gerðu sumar vinkonur mínar sér ferð til Keflavíkur til þess að kaupa flottustu skóna á landinu, þeir fengust ekki annars staðar. Og svo var ég ekki nema fimmtán ára þegar ég fór á ball í Stapanum, það var toppurinn. Jónsí vinkona mín úr skátunum og Sirrý, sem ég flæktist með í Köben þegar ég var fimmtán, voru tveir töffarar úr Keflavík. Og svo voru Hljómar auðvitað þaðan, og gott ef ekki Óðmenn líka. Seinna kynntist ég svæðinu mjög vel, þegar ég var í þingmennsku í sex ár fyrir svæðið. En það sem mér finnst einkenna Suðurnesin er að þar eru hlutirnir ekkert svo mikið mál, fólk er mjög sveigjanlegt, hörkuduglegt og frekar kátt. Mikið um aðkomufólk, fólk að koma að fara, sumir ílendast, aðrir ekki, og þannig hefur þetta lengi verið, enda margar góðar verstöðvar. Ekki spillir að þetta er hliðið til útlanda og heim aftur.

Vinna sem ég innti af hendi við ritum sögu Sandgerðis á árunum 1999-2001 og aftur núna síðastliðinn vetur og fram á sumar að hluta, hefur enn styrkt mig í þessari skoðun minni á svæðinu og ég nýt þess alltaf að fara þangað. Og svo finnst mér hreinlega fallegt á Suðurnesjum! Hafið þið farið að (og inní) Hvalsneskirkju? Eða siglt út frá Keflavík og undir fallegu fuglabjörgin? Ekið frá Garði og yfir í Sandgerði og komið að Sandgerðistjörn og öllu því fuglalífi sem þar er. Eða út á Reykjanes? Í Ögmundarhraun? -  þar sem Björn Þorsteinsson dró okkur sagnfræðinemana oftar en einu sinni niður að merkilegum rústum sem þar eru. Og hvergi er fallegra að horfa á Snæfellsjökul en á smá spotta á Miðnesheiði, þar sem ekið er beint á móts við jökulinn og hann er svo ótrúlega stór. Suðurnesin eru spes.


Ufsilonið

Úpps, ég fann ufsilon (sem sumir kalla ypsilon) á snarvitlausum stað. Það æpti á mig eins og slasaður maður á götu, eitthvað sem maður vill ekki sjá. Um leið og ég sá það (ekki um leið og ég skrifaði það) þá fór hrollur um mig. Þetta var nefnilega í næstu færslu á undan (búin að laga það). Man eftir einu öðru tilviki af sama tagi, ufsiloni sem átti ekki að vera þar sem það var og það í mínum eigin texta (sá það þegar ég las hann, ekki þegar ég skrifaði hann), og þótt hátt í fimmtán ár séu síðan er mér enn hálf bumbult út af því. Þetta hlýtur að vera einhvers konar skilyrðing, ufsiloni ofaukið (í eigin texta) og þá ,,á" ég að kveljast. Mér er slétt sama um skort eða ofgnótt af þessum kvikindum í annarra texta, vil bara hafa þetta á réttum stað hjá sjálfri mér. Þrátt fyrir að ég hafi reynt og reynt að segja sjálfri mér og öðrum að blogg sé talað ritmál og ég taki það sko ekkert alvarlega, þá get ég ekki varist því að vera alveg miður mín út af þessu bulli sem var á síðunni minni hátt í sólarhring. Úff! Ég lifi góðu lífi með þeim innsláttarvillum sem slysast inn í textann minn, enda sjálfmenntuð að mestu á ,,ritvélar" - hins vegar finnst mér ufsilonvilla vera meira svona ,,viljandi" og því óafsakanlegri.

Og ég sem hélt að ég væri svo afslöppuð!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband