Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Skírn í fjölskyldunni og hátíðin læðist að, blessunarlega

Litli sonur hans Stebba bróðursonar míns og Margrétar var skírður í dag, Kári litli sem sagt kominn með nafn og Katla stóra systir hans stækkar bara og stækkar. Yndislegt að hitta svona marga úr nánustu föðurfjölskyldunni á einu bretti, tvíburarnir hennar Guðrúnar (systur Stebba) sem voru skírðir fyrir nánast réttu ári eru orðnir þvílíkt stórir að ég ætlaði ekki að trúa því, Emil ,,litli" líkist stóra bróður sínum sífellt meir. Gaman að taka frá dag til þess að spjalla við fjölskylduna og fá fréttir og sjá sprettuna í ungviðinu. Þarf að finna tíma til þess að setja inn myndirnar sem ég tók í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Það er að bresta á einhver hátíðartilfinning í kollinum á mér, verð bara að viðurkenna það. Hef verið veik fyrir jólaskrauti (auðvitað elt tilboðin í anda kreppunnar) allt frá því við Gunna vinkona fórum í leiðangur á milli funda á fyrsta des. Það er sem sagt slatti af nýju jólaskrauti komið á heimilið, enda setjum við stóra jólatréð okkar upp, væntanlega uppi, í fullum skrúða í þetta sinnið, vona ég. Og gamla búbbl sérían fær að komast upp við tækifæri vona ég, hún er sennilega næstum jafngömul og ég, sem sagt fifties framleiðsla og ótrúlegt að hún skuli enn vera við lýði, auðvitað líka með óvirðulegri perum í bland, því þessar búbbl perur eru enginn hægðarleikur að hafa upp á. Samt gerðist ég svo fræg að finna tvær á Ebay og kaupa þær. Held bara að það sé það eina sem ég hef keypt á Ebay, en margt hef ég nú skoðað þar.

 

 


Dýrin í lífi okkar - mestmegnis um ketti

Veit ekki hvort það er nánd jólanna eða eitthvað annað, en mér verður hugsað til dýranna í lífinu þessa dagana. Simbi liggur á rauðum púða við hlið mér og er eina dýrið sem eftir er hér heima. Indælis köttur, mjög street-smart, alinn upp annars staðar í fjölskyldunni, en kom til okkar sem sumardvalarköttur og var fyrst í stað tekið frekar illa af hinum tveimur sem voru heimilisfastir hjá okkur þá stundina. Annað sumarið hans hér rættist úr því og síðan hefur hann búið hér hjá okkur og er bara sæmilega sáttur með okkur, held ég. Hann tekur blíðuköst af og til en er frekar sjálfstæður inn á milli.

Ari og Simbi

Ein kattafjölskylda hefur fylgt okkur öðrum fremur, amman, Kría, var sumardvalarköttur hjá okkur fyrir meira en tuttugu árum, við fengum kettling undan henni, hinn stórkostlega Bjart (sem yfirleitt var kallaður ,,Bjartur og fagur") og var einn blíðasti köttur sem um getur. Hann eignaðist dóttur, með læðu úr sömu kattafjölskyldu, Fjólu hinni fögru, sem Gurrí stórbloggari átti. Dóttirin, Mjallhvít, var sem sagt alin upp hjá einstæðum föður og var mikill villingur en gullfalleg, loðin og hvít eins og Kría, amman. Mjallhvít var sönn prinsessa, mjög vönd að virðingu sinni og heillaði alla fressketti í nágrenninu en hafnaði þeim öllum. Bjartur varð fyrir bíl ungur að árum en átti von á kettlingum í nágrenninu og við fengum einn þeirra, Grámann hinn grálynda, sem er hreinlega skemmtilegsti köttur sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Grámann kom til okkar mjög ungur og meðal ævintýra hans var að stelast inn í ísskáp og sofa í konfektkassanum. Hann var vitlaus í kex og kartöflur. Mjallhvít hálfsystir hans tók honum ekki vel í fyrstu, þannig að það kom í hlut hundsins okkar, hans Tinna, að ala hann upp og fórst honum það svo vel (fyndið að sjá smá gráan hnoðra í fanginu á þessu frekar stóra hundi) að seinna meir, þegar Tinni var orðinn gamall og hrumur, drattaðist Grámann með honum út þegar Tinni var settur út í band, stundi að vísu og kvartaði undan þessari skyldu sinni, en hann fór með hundinum út í band alveg ótrúlega oft, merkileg tryggð, og svo er sagt að kettir séu ekki trygglyndir!Grámann og Mjallhvít náðu bæði háum aldri á kattamælikvarða, hún var 15 ára þegar hún lenti í slysi og hann var 13 er hann lét sig hverfa, en tveimur árum fyrr skilaði hann sér eftir 10 daga útivist, svo við vorum ekki mjög stressuð þegar hann hvarf. 

Tinni, eini hundurinn okkar hér í Blátúni, varð 14 ára og það var hann, miklu frekar en kettirnir, sem eyddi upp alla vega níu lífum, áður en hann varð allur. Þegar hann elti hestamennina (Ara minn og aðra) yfir Kjöl, fór hann fjórum sinnum yfir þegar þeir fóru einu sinni. Hinn hundurinn í ferðinni var reiddur mestalla leiðina en Tinni karlinn hljóp hress á undan, kom svo til baka, hljóp svona hálfan kílómetra til baka og náði svo hestamönnunum aftur. Eitt sinn var sundriðið yfir Markarfljót og þá vildi Tinni auðvitað ekki vera minni en hestarnir en fljótið bar hann langt niður eftir og allir mjög fegnir þegar hann fannst. Hann hefur dottið niður í stíflu, fallið fram af klettinum, en að lokum var það aðeins há elli og hrumleiki sem bar hann að ofurliði. 

Alltaf erfitt að kveðja dýrin sín, en ég er alin upp með gullfiskum, páfagauk, hundum og köttum. Jú, við reyndum líka að vera með skjaldbökur, þær eiga að vera langlífar, ekki mikill félagsskapur af þeim á veturna, því þá voru þær í kassa uppi á háalofti og sváfu (sem sagt í dvala). En þetta voru flottar skjaldbökur, hétu Litla og Stóra, og sú stóra var bara skemmtileg. Svo fengum við þá sem við kölluðum Minnstu og hún var víst veik og smitaði hinar. Þannig fór það, ekki nóg að geta orðið 100 ára, það þarf líka að verða það. 

Svo hefur Ari átt æði mikið af hestum en þeim hef ég ekki kynnst að ráði þótt mér finnist þeir fallegir. Eitt af seinustu skiptunum sem ég fór á hestbak fældist hesturinn og fleygði mér af baki og braut í mér hryggjarlið svo ég missti áhugann.

Þarf endilega að setja inn fleiri dýramyndir við tækifæri, en það útheimtir skönnun, sem ég gef mér ekki tíma fyrir nákvæmlega núna.

 


Nokkrar jólabækur - vertíðin lofar góðu - og bera konan með spottann!

Byrjuð að lesa jólabækurnar, á milli þess sem ég les Robert B. Parker krimmana sem alltaf liggja við rúmstokkinn (þær hafa þann kost að vera skrifaðar í knöppum ,,Íslendingasagnastíl" og stuttir kaflar mátulegir fyrir svefninn, á ferðalögum og jafnvel á umferðaljósum - djók) og gríp í ljóðabækur, sem eiga sér sama samastað. Ein þeirra verðskuldar reyndar umræðu, Blótgælur, sem ég var lengi búin að ætla mér að kaupa. Afgreiðslufólkið í Máli og menningu hafði ágætar skoðanir á þeirri bók, hrifin (afsakið, ég bara get ekki sett ,,hrifið" (-fólkið) hér inn þegar ég sé stelpu og strák í afgreiðslunni fyrir mér, enda segi ég alltaf ,,hún" um kvenkyns forseta, ráðherra og aðra -seta og -herra). Annað þeirra var sem sagt hrifið af öllum ljóðunum og hitt af sumum þeirra. Ég er í hópi þeirra sem er hrifin af allflestum ljóðunum og hef lúmskt gaman af paródíunum sem þar á milli leynast.

En þetta er jólabók síðasta árs. Nú ætla ég að hafa skoðanir á þessum sem ég er búin að lesa, var reyndar búin að ræða aðeins um Myrká Arnaldar, en langar að bæta því við að ég er sérstaklega spennt að sjá næstu bók hans, mér finnst Arnaldi takast betur að líta í aðrar áttir en áður í þessari bók en í öðrum þar sem hann hefur yfirgefið Erlend. Vona samt að Erlendur komi ,,hress og kátur" (ekki alveg hans stíll auðvitað) í næstu bók, en ég þori engan veginn að treysta því.

Dimmar rósir, eftir Ólaf Gunnarsson. Skrambi góð bók. Ég fór að lesa hana á bandvitlausum forsendum, var komin með smá löngun til þess að detta inn í sixties stemmningu, einkum þar sem titillinn vísar til eins flottasta íslenskra lagsins frá þeim tíma, mig minnir með Töturum. Jú, vissulega er það andrúmsloft á svæðinu með skáldaleyfi sem hefur greinilega pirrað einhverja - ekki mig þótt ég hafi verið í Austurbæjarbíói á Kinks-tónleikum. Það sem heillaði mig við bókina er samt eitthvað allt annað og ekki endilega það sem ég ef fundið í fyrri verkum Ólafs, sem ég hef lesið (á enn góðar bækur ólesnar og hlakka til). Andrúmsloftið er þessi margslungna tenging fólksins innbyrðis, sem mér finnst sterkasti þátturinn í bókinni og skilar sér fullkomlega. Til eru kvikmyndir, að vísu mun lakari, sem spila á þessar tengingar á svipaðan hátt, bókin tengist þeim í raun betur að mínu mati en þær skáldsögur sem spinna svipaðan vef, og það finnst mér kostur.

Viðtalsbók/ævisaga sem fjallar um ævi Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Ég skal vera Grýla, eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur (minnir mig). Ég fer yfirleitt á hundavaði yfir ævisögur, fletti upp á markverðum atburðum eða spennandi frásögnum og les þetta efni meira eins og sagnfræðingur í heimildaleit, enda farið í gegnum svona hundrað slíkar í þeim tilgangi. En þessi er sér á parti. Auðvitað fyrst og fremst vegna þess að Magga Pála er einstök. Ég var svo ljónheppin að fá tækifæri til að taka viðtal við hana snemma á þessu ári og það var draumahlutskipti, nú orðið er blaðamennska mín nánast eingöngu lúxushobbý hjá mér, tækifæri til að tala við áhugaverðar konur. Þess vegna hlaut ég að lesa þessa bók með gagnrýnum augum, en útkoman var mjög jákvæð. Eftir smá skann fram og til baka, eins og ég les svona bækur, byrjaði ég á byrjuninni og las bókina í tveimur mislöngum lotum og gat eiginlega ekki lagt hana frá mér í seinni - lengri - lotunni. Mér finnst Margrét Pála stökkva ljóslifandi út úr bókinni af miklum lífskrafti, hugrekki og samt svo margslungin, eins og hún sannarlega er. Þessi bók gladdi mig ósegjanlega.

Nú er ég byrjuð á Auðninni hennar Yrsu og lofar góðu, þótt ég sé svolítið á móti því að kvelja mig á að lesa um eitthvað kalt eða kuldalegt. En þetta get ég auðvitað ekki sagt eftir að hafa nánast drukknað í Smillas fornemmelse for sne ... eins og sú ágæta bók Peters Hoeg hét, svona sirkabát.

Byrja óvenju snemma á jólabókunum í ár, venjulega hef ég verið í prófum eða verkefnaskilum, en ekki núna, setti verkefnaskil viljandi eftir áramót og sé ekki eftir því. Þannig að ég hlakka til að lesa þær allar sem ég man ekki nákvæmlega hvað heita, Segðu mömmu að mér líði vel, Sjöunda soninn og allar hinar sem ég ætla svo sannarlega að lesa ... Þetta með að muna ekki nákvæmlega hvað bækur heita getur stundum endað með skemmtilegum afbökunum (óviljandi) en engin jafnast þó á við það þegar Þórarinn á Skriðuklaustri var í miðri ræðu og mundi ekki alveg málsháttinn sem hann ætlaði að vitna til þannig að hann sagði ,,æ, þið munið ... bera konan með spottann!" Og auðvitað mundu allir: Neyðin kennir naktri konu að spinna.

Já, þetta ætlar að verða góð vertíð.


Davíð í gömlu áramótaskaupi og jólalag Baggalúts

Jólalag Baggalúts er svolítið öðru vísi en seinustu árin, heitir: Það koma vonandi jól! Úff, af gefnu tilefni mun ég ekki rökstyðja hvers vegna mér finnst þetta svolítið fyndið.

En annars rakst ég á alveg ótrúlega fyndið vídeó á Facebook, áramótaskaup sem er sjö ára gamalt en ótrúlega ferskt. Þetta er eitthvað sem Dóri Braga hafði grafið upp og þar sem ég veit að hópanir mínir á Facebook og moggablogginu skarast ekkert sérlega mikið, þá leyfi ég fleirum að njóta vel:


Spaugstofan með allra, allra, besta móti

Mikið hrikalega fannst mér Spaugstofumönnum takast vel upp í kvöld. Fóru svolítið hægt af stað, en síðari hluti þáttarins var alveg með því besta sem hefur komið að undanförnu. Þið sem misstuð af getið bæði séð endursýningu og skoðað hér (þátturinn ætti að detta inn hvað á hverju).

Aðildarviðræður um ESB í skugga hótana? Íslendingar ekki vanir að láta stjórnast af hótunum ráðamanna - en hvað nú?

Erfitt er að helda reiður á hvað ræður ferð í íslenskum stjórnmálum nú. Í morgun var sú hótun sem legið hefur í loftinu staðfest, Samfylkingin ætlar að slíta stjórnarsamstarfinu og stefna til kosninga eigi síðar en í vor, nema samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðismenn hlýði þeim og samþykki að fara í aðildarviðræður. Sama dag vill svo til að tveir forsvarsmanna Sjálfstæðismanna hafa komist að þeirri niðurstöðu að halda skuli í aðildaviðræður. Annar þeirra yfirlýstur andstæðingur ESB-aðildar og mér er þessi niðurstaða hans nokkur ráðgáta, burtséð frá því hvort hann treystir á það að þjóðin muni fella aðild að ESB að samningum loknum. Vissulega hef ég sömu trú á þjóðinni, en mér finnst tilviljunin og tímasetningin á hótuninni annars vegar og þessari yfirlýsingu, rúmum mánuði FYRIR landsfund Sjálfstæðismanna (sem hefði átt að taka þessa ákvörðun, hélt ég) alveg stórfurðuleg. Annað ekki síður merkilegt er að Samfylkingin skuli þarna vera að gefa Sjálfstæðisflokknum fyrirheit um að hann geti setið enn um sinn, meira að segja komin með verðmiða á það. Var að fá sendan link á blogg sem hefur sínar skýringar á því, Samfylkingin þykist bara vilja kosningar, en það henti betur að setja verðmiða á áframsetuna: http://blogg.gattin.is/blog.php?view=post&id=i0w63hk1dm

Of margar ákvarðanir hafa verið teknar í skugga hótana ráðamanna að undanförnu, og ekki allar mjög skynsamlegar.

  • Að setja hryðjuverkalög á íslenskan banka í Englandi var auðvitað ekkert nema hótun breskra stjórnvalda í garð Íslendinga.
  • Hótanir stórra og sterkra ríkja, það er ESB-þjóðanna innan alþjóða gjaldeyrissjóðsins hefur svínbeygt stjórnvöld í samningum við sjóðinn.
  • Og nú er varla hægt að skilja mál öðru vísi en svo að hræðsla Sjálfstæðismanna, alla vega í valdastólum, við kosningar í vor, hafi leitt þá til þeirrar niðurstöðu að láta undan kröfu Samfylkingarinnar um aðildarviðræður og að öruggast sé að koma með svona skýr skilaboð sex vikum fyrir landsfund, sem ætla hefði mátt að myndi skera úr um málið. Vissulega er óttinn við kosningar mikill hjá flokki sem er í sögulegu lágmarki samkvæmt könnunum. Samt hef ég heyrt í fjölmörgum óbreyttum Sjálfstæðismönnum sem eru hreint ekki til í aðildaviðræður og þora alveg í kosningar.

Þjóðin hefur gallvösk harðneitað því að landinu sé stjórnað í skugga hótana og með því að láta undan hótunum og þessi krafa hefur verið sterk á síðustu, erfiðu tímum. Fróðlegt að fylgjast með framhaldinu. Krafa þjóðarinnar hefur líka verið að tímabært sé að efna til kosninga í vor. Fljótlega býst ég við að niðurstöður úr skoðanakönnun um það hversu margir vilja kosningar komi í dagsljósið, ég lenti nefnilega í úrtakinu á slíkri könnun og veit að hún er í gangi, spennt að sjá niðurstöðurnar.


Forvitnilegt, ef heimildir Björns eru réttar, þá eru þetta tíðindi í þessum hópi, þótt vitað sé um hópa á móti, þá hefur forystan eflaust viljað sjá aðra niðurstöðu

Mér finnst þessi frétt nokkuð forvitnileg. Ef heimildir Björns eru réttar, þá eru þetta tíðindi í þessum hópi, þótt vitað sé um hópa (útvegsmenn eru víst enn inni) á móti (nema kannski Samherji), þá hefur forystan, alla vega Vilhjálmur, eflaust viljað sjá aðra niðurstöðu. Ætli þeim sé stætt á öðru en að birta niðurstöðurnar?
mbl.is Dómsmálaráðherra: Hvers vegna birtir SA ekki niðurstöðu könnunar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bragð er að þá Uffe finnur - Uffe Elleman-Jensen varar Íslendinga við inngöngu í ESB við núverandi aðstæður, að ætla að fara inn til þess að ,,leysa" allan efnahagsvanda, ESB sé ekki töfralausn við efnahagserfiðleikum.

Á dauða mínum átti ég von en ekki því að heyra Uffe Elleman-Jensen vara Íslendinga við að fara inn í ESB við þær aðstæður sem nú eru hér á Íslandi, með þá tálsýn að ESB-aðild muni leysa einhverjar efnahagslegar flækjur, sem við erum í. Hann var í Kastljósi í kvöld og upptakan ætti að detta inn á RUV hvað á hverju, enn er þátturinn frá í gær fremstur, en þetta er hlekkurinn þar sem hægt er að horfa þegar að því kemur:

http://www.ruv.is/kastljos/


Hvað næst? Lafir sú leiða stjórn?

Enginn velkist í vafa um að þjóðin vill ríkisstjórnina frá. Var að ræða málið við vinkonu mína um daginn og ég var ekki í vafa um að hún færi frá fyrir vorið. Fjárlagafrumvarpið, breytingarnar sem nú eru gerðar við aðra umræðu, breytir ekki þeirri skoðun minni. Það er hvorki verið að taka á málum eins og þarna sé ríkisstjórn sem ætli að lafa, né heldur eru skerðingarnar þannig að þær auki kyrrðina í samfélaginu. Sannarlega ekki.

Í algleymi myndlistarinnar - jaðrar við jólastemmningu

Smá tóm til að sinna myndlistinni núna, eftir frekar ásetta síðustu viku. Er í endurvinnslunni á fullu ennþá, það er að búa til alveg ný myndverk byggð á eldgömlum módelmyndum sem ég á í fórum mínum í stöflum, þrátt fyrir mikla grisjun að undanförnu. Rakst á eina gamla og góða sem er frá því aaaaCIMG4159að Ingólfi Erni Arnarssyni, sem eitt sinn kenndi mér módelteikningu í Myndlistaskólanum í Reykjavík datt í hug að láta okkur mála vængi á módelin sem við vorum að teikna og/eða mála. CIMG4201Þegar ég var að vinna upp úr þessari datt mér í hug að það væri sennilega öruggara stækka vængina, ekki svo að skilja að hún (engillinn) gæti flogið á þessu, en enn síður á gömlu vængjunum. Eftir hrikaleg mistök í gær í bakgrunninum, framhaldsvinnslu heima í tölvunni, þá er ég orðin nokkuð sátt við blessaðan engilinn og fékk svo smá útrás í viðbót með spaðann í hendi, áhald sem ég á enn eftir að finna út hvort ég á að vinna með að ráði í framtíðinni eður ei. Sé eins og allaf smálegt sem ég ætla að lappa uppá á morgun eða eftir áramót, eftir því hvenær ég finn mér næst tíma til þess að skjótast og mála smávegis.

Það er alltaf svolítið fjör að vinna frjálst, það er að segja ekki eftir fyrirmyndum, eins og gömlu CIMG4202myndunum mínum, en að sama skapi er ekki eins auðvelt að átta sig á því hvenær maður er að hitta í markog hvenær ekki. Stundum er það tíminn sem sker úr um það, stundum veit maður það strax. Með þessa hér, þá er ég ekki viss, ekki enn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband