Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Fólk með sterkar en misjafnar skoðanir á veðrinu og ný könnun lítur dagsins ljós

Takk fyrir góða þátttöku í seinustu skoðanakönnun. Ég beið lengi vel eftir að línur færu að skýrast, en það var ekki fyrr en á lokasprettinum að það gerðist. Könnunin snerist um hvernig veðrið yrði í vetur og undir lokin tók athyglisverður valkostur loks forystuna: Þeir sem segja að sér sé slétt sama hvernig veðrið verði í vetur og ætla að eyða honum á Kanarí stungu aðra af í könnuninni. Næstvinsælastur var valkosturinn: Rysjóttur vetur og Snjór og stillur fylgdu á eftir ásamt þeim sem telja að veturinn muni harðna eftir áramót.

Og nú er ég búin að setja inn nýja könnun, þar sem ekki er nema rétt rúmur mánuður til jóla. Endilega takið þátt í að skoða ykkur og aðra í samfélagsspeglinum.  


...besti brandari í heimi og reynt að horfa EKKI á Prison Break

Mér finnst alltaf að besti brandari í heimi sé þessi:

Þegar Tolstoy var lítill drengur stofnaði hann leynifélag ásamt bróður sínum. Inntökuskilyrðin voru að standa í hálftíma úti í horni og hugsa EKKI um ísbjörn.

Tek fram að það eru ekki allir sammála mér.

En ástæða þess að brandarinn rifjaðist upp fyrir mér er sú að nú sit ég með litlu, bleiku tölvuna mína í fanginu heima í stofu og reyni að horfa EKKI á Prison Break. Full heilagri reiði yfir því hvernig seinustu tvær seríur enduðu (ekki) þá ætla ég sko ekki að láta plata mig enn einu sinni. Hélt út fram í miðja seinstu seríu og horfði ekki á þættina. Samt sé ég útundan mér að bróðir meints morðingja, fyrrverandi fangavörður hans, löggan sem elti hann og átti við amfetamínvanda að stríða og barnaperrinn eru saman í einhverju slísí fangelsi en meinti morðinginn (sem er auðvitað saklaus) er að reyna að bjarga þeim út, með óhefðbundnum leiðum auðvitað. Úff, lofar ekki góðu, eins gott að ég ætla ekki að fylgjast með.


Minningar úr kampavínshvelfingu

Milli heimadæma og söguskrifa er gaman að rifja upp nýliðna Spánarferð. Var að spjalla við tengdamömmu aðeins í kvöld og hún minnti á að ég hafði tekið nokkrar myndir í hinum gífurlegu kampavínshvelfingum sem við heimsóknum. Reyndar má ekki nota orðið kampavín yfir hið indæla cava (freyðivín) lengur, en í eldri auglýsingum var það kallað kampavín, þótt það sé ekki frá Champagne héraði í Frakklandi, sem nú hefur einkarétt á nafninu. En auðvitað er þetta ekkert nema kampavín og ég nýt frelsisins á blogginu og kallað það réttu nafni. Ég var ekki búin að setja myndir úr þessum hluta ferðarinnar inn í myndaalbúmin hér á blogginu en búin að bæta úr því núna.

Ótrúlega mikið af kampavíni


Óvænt sunnudagskvöld á föstudegi

Fann það í kvöld hvað ég er farin að sakna sunnudagskvöldanna, svona stundum. Fyrir ykkur lesendur sem ekki þekkið inntak sunnudagskvölda þeirra sem haldin voru árum saman hér heima, þá verð ég að upplýsa að ég fer ekki út í ítarlegar útskýringar núna, þótt það væri freistandi. Stutta útgáfan er þessi: Í 17-18 ár komu vinir, kunningjar og vinir vina minna saman hér heima á sunnudagskvöldum, drukku saman kaffi og borðuðu osta og/eða kex, spjölluðu og hlustuðu á fáránlega tónlist í bland við aðra venjulegri.

Tvö eða þrjú ár eru frá því þessi siður lagðist af vegna ýmissa viðburða í tilverunni og stundum söknum við, mörg hver, sunnudagskvöldanna. Fyrir hreina tilviljun var þó óvænt sunnudagskvöld hjá mér í kvöld.

Tilviljun 1: Talaði við Elísabetu systur þegar hún var stödd í nágrannabyggðarlagi ásamt Nínu systur og við ákváðum að hittast hjá mér eftir smá tíma. Tilviljun 2: Meðan ég beið eftir að fá systurnar í heimsókn (sem flokkast nú bara undir fjölskylduheimsókn) þá hringdi annar góðvinur sunnudagskvöldanna, Halldór, og við lentum á dæmigerðu sunnudagskvölda-flippi, en hann ber ábyrgð á mörgum furðulegustu tónlistaratriðunum sem kynnt hafa verið til sögunnar á sunnudagskvöldum. Var enn að kjafta við hann þegar systur mínar komu og þannig æxlaðist að áður en ég gat rönd við reist var Halldór búinn að senda mér tvo mjög geggjuð lög í tölvupósti, sem mér var uppálagt að hlusta á. Það er reyndar allur gangur á því hvort ég hlýði því. Elísabet systir átti eftir að tékka á hvort hann hefði fengið undarleg skilaboð úr nýlegu afmæli, skilaboð sem hún hélt jafnvel að gætu valdið vinslitum. Þannig að skyndilega var hún komin í hrókasamræður við Halldór, annað fyrirbrigði sem var furðu algengt á  sunnudagskvöldunum sálugu: Það er að fjarstaddir væru dregnir með í fjörið í gegnum raðsímtöl.

Svo þegar systur mínar voru lausar úr síma og spjalli við feðgana niðri í stofu (yfir frekar hefðbundnum sunnudagsveitingum) fórum við upp á loft í tölvuna mína. Það var orðið æði algengt á sunnudagskvöldum í seinni tíð að safnast væri saman kringum einhverja tölvuna. Þar spilaði ég fyrir þær Hó, hó Eurovison lagið hans Barða, sem þær höfðu ekki heyrt. Lagið sló í gegn enda eru hljómgæðin í gömlu tölvuhátölurunum mínum eru talsvert mikil, en á því þarf lagið að halda til að njóta sín til fulls. Fann þetta lag reyndar ekki strax á RUV-vefnum, sem var frekar lélegt því ég setti sjálf link á það hér á blogginu. Því leitaði ég aðstoðar í Ungverjalandi (með aðstoð msn) og Hanna mín fann það fyrir mig í hvínandi hvelli. Og fyrr en varði sátum við og hlustuðum á dellutónlist, meðal annars framlagið frá Halldóri, sem ekki olli vonbrigðum. Sannkallað en óvænt sunnudagskvöld, þótt það sé ekki kominn nema föstudagur. Gurrí mín, hvar varst þú eiginlega? Eða Óli Sig.? Þetta er engin frammistaða.


Ég þarf eiginlega að fara að lesa Álftaness sögu

Sú saga er sögð um einhvern náunga sem tók þátt í spurningakeppni, sem haldin var á Hótel Borg held ég, fyrir eitthvað um það bil sextíu árum, að hann hafi getað hlustað á hvaða texta sem var og sagt úr hvaða bók hann væri. Þar kom þó að hann gataði, og bókin var eftir hann sjálfan! Þá á hann að hafa sagt: ,,Þá bók hef ég að vísu skrifað, en aldrei lesið." Ef einhver getur sagt mér nánari deili á þessum manni þá er það vel þegið, ég er alin upp með sögunni en man hana ekki á annan hátt en þennan.

En ástæðan fyrir því að ég rifja þessa sögu upp er sú að ég hef nokkrum sinnum að undanförnu heyrt eitthvað sem mér finnst áhugavert um sögu Álftaness og verið sagt að þetta stæði í Álftaness sögu. Það er svo sem allt í lagi, nema hvað ég skrifaði hana víst sjálf og það angrar mig aðeins að þekkja ekki efni hennar betur. Það eru ekki nema tólf ár síðan ég lauk ritun hennar.  Og núna, þegar ég er á fullu að skrifa texta sem varðar sögu Álftaness, þá er ég alltaf að uppgötva eitthvað nýtt, sem ég mundi ekki. Þannig að kannski væri það þjóðráð að lesa nú Álftaness sögu einhvern tíma. 

Annars er þetta að frétta af frelsisvinnunni minni: Brjálað að gera þrátt fyrir að Sandgerðissaga sé í biðstöðu meðan ég fæ viðbrögð við áætlun sem ég var að senda til ritnefndar. Er að reyna að sökkva mér ofan í stærðfræðina en líklega hef ég þurft að ljúka því verkefni sem ég er í núna til að geta einbeitt mér betur að henni. 

 


Nokkrar Barcelona myndir komnar í albúm

Þá er ég byrjuð að tína inn myndir úr Barcelona ferðinni góðu. Sitt lítið af hverju og eflaust á ég eftir að bæta einhverju inn á næstunni.

Loksins sá ég Sagrada Familia kirkjuna

 

Mig hefur lengi dreymt um að sjá Sagrada Familia kirkjuna hans Gaudi, sem er í eilífri byggingu. Nú rættist draumurinn.

 

 

 

 

 

 

 

Í garðinum góða þar sem húsið hans Gaudi stóð, Ari og útsýnið

 

 

Í garðinum þar sem heimili Gaudi var á fallegum degi. Ari og útsýnið.

 

 

 

 

Hús Gaudis var ótrúlega bleikt

 

 

Og húsið hans Gaudis olli ekki vonbrigðum, auðvitað bleikt.

 

 

 

 

Í Sitges, flotta strandarbænum rétt hjá Barcelona

 

 

 

 

Sunnudagsbíltúr á slóðir cava- (kampavíns) bænda og endað í strandbænum Sitges.


Foreldrahúsið, Vímulaus æska og nokkur kraftaverk

Það hefur verið yfirvofandi um nokkurt skeið að Vímulaus æska missti Foreldrahúsið góða, sem hefur verið starfrækt í allmörg ár. Þegar ég fletti dagblöðunum í dag, í smá andleysiskasti, sá ég að þetta er að bresta á. Þannig að: Ef þið þekkið eitthvað til starfsemi Vímulausrar æsku, þá endilega reynið að finna gott húsnæði undir starfsemi Foreldrahússins, þið vitið þá væntanlega hversu ótrúlega mikils virði hún er fyrir fíkla á batavegi, fjölskyldur allra fíkla og í fyrirbyggjandi starfi. Ef þið þekkið ekki til starfsemi samtakanna þá hvet ég ykkur til að kynna ykkur hana. Þarna er nefnilega verið að vinna alveg ótrúlegt starf, fyrir lítið fé, með mikla reynslu og sérþekkingu í farteskinu og ekki alltaf verið að velja sér auðveldustu eða ,,vinsælustu" málin, heldur þau sem brýnast er að bæta úr.

Ef nógu margir eru tilbúnir að leggja málinu lið þá held ég að við skuldum því góða fólki sem starfar í Foreldrahúsinu eitt lítið kraftaverk og það sé hægt að finna nýtt og betra Foreldrahús og fjármagna leigu á því. Þau eru ekki svo fá kraftaverkin sem hafa unnist fyrir tilstilli starfsfólks, sjálfboðaliða og sérfræðinga Foreldrahússins.  


Flug og frestanir

Tæplega þriggja tíma frestun á flugi er svo sem ekki mikil, nema kannski ef frestunin er frá klukkan tvö til að verða fimm að nóttu. Var svo ljónheppin að eiga mág í Barcelona þannig að eftir vænan blund heima hjá honum héldum við nokkrir ferðafélagar þokkalega hvíldir af stað um miðja nótt út á flugvöll. Ferðafélagarnir, sem beðið höfðu á vellinum mislengi, voru margir frekar framlágir þegar við mættum, kona með ótrúlega þægt barn hafði til dæmis beðið frá því um tíu leytið kvöldið áður. Hvers vegna hún mætti svona snemma veit ég reyndar ekki. Tvær vélar voru til Keflavíkur, við Heimsferðalangar þurftum ekki að bíða svo óskaplega lengi en hitt flugið sýndi alla vega sjö stunda frestun.

Sjaldnast neitt við svona löguðu að segja og eftir að hafa horft á fyrri myndina á leiðinni var bara að leggja sig, sem yfirleitt gengur vel, reyndar svo vel að ég svaf í gegnum lendinguna. Rumskaði reyndar svona hálftíma áður þegar skandinavíski flugstjórinn fór að segja brandara: ,,Svona lítur öryggisbeltaljósið út þegar kveikt er á því og svona þegar slökkt er á því! Núna er kveikt á því og allir eiga að drífa sig í sætin." Þetta endurtók hann tvisvar þar til tókst að smala liðinu í sætin. Norrænn húmor. Svo datt ég aftur útaf þegar ég kom heim í morgun, þannig að ég missti af tíma og ætla að bæta það upp með aukinni áherslu á heimadæmin, sem hvort sem er þarf að sinna. 

Eftir að heimanám og vinna hafa fengið þann fókus sem nauðsynlegt er ætla ég að reyna að setja inn myndir og smá ferðasögu úr frábærri ferð til Barcelona.  

 


Barcelona, bleik hús og gott fólk

Gódir dagar í Barcelona ad baki og vid á heimleid eftir nokkrar stundir. Frá ýmsu ad segja eftir heimkomuna og lofa nokkrum gódum myndum, medal annars af bleikum húsum, en hér er nóg af slíku.


Vakað eina nótt

Í fyrsta sinn eftir að ég fór að vinna í lausamennskunni fyrir tæpum mánuði ,,tókst" mér að vaka heila nótt. Fullt af hugmyndum á flugi, smá stærðfræði og ljósritun á milli. Samanlagt bara gott. Þá er komið að því að leggja sig í svona 5-6 tíma, ef hugmyndirnar og úrvinnslan verða ekki að flækjast fyrir mér.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband