Framtíðin sem byrjar í dag

Ég hef alltaf tekið stjórnmál alvarlega. Hef, held ég, húmor fyrir flestu öðru, en pólitík er að mínu mati ekkert grín. Vitna stundum í orð Svavars Gests skemmtiþáttastjórnanda, Lionsmanns og trommara (sárasaklauss af Icesave) sem sagði þegar hann var spurður hvort hann ætlaði ekki í pólitík, hvort það vantaði ekki húmorista á þing. Hann svaraði: Nei, það vantar menn sem taka pólitík alvarlega.

Þetta segi ég ekki af því mig dauðlangi aftur á þing. Þegar ég kvaddi alþingi eftir sex ára góða veru þar, var það til að snúa mér að öðru, sem ég gerði svo sannarlega. Búin að skrifa nokkrar bækur, klára master númer 2 (í tölvunarfræði) og ýmislegt fleira síðan þá. En eftir búsáhaldabyltinguna í vetur, hrunið og vegna fyrirsjáanlegrar ESB-umræðu og jafnvel aðildarumsóknar, sem nú er orðin að veruleika, neyddist ég til að snúa til baka og er því orðin varaþingkona enn á ný - í fúlustu alvöru, þótt skyldur mínar verði varla miklar á þessu kjörtímabili, margir til kallaðir. 

Brátt er liðið ár síðan allt breyttist á ytra borðinu. Breytingarnar urðu miklu fyrr, með nýfrjálshyggjunni og einkavinavæðingunni. Ég er fegin að VG er við völd, ekki af því VG ráði ferðinni í öllum málum, þá værum við ekki búin að sækja um aðild að ESB, heldur vegna þess að ég sé ekki annan betri kost í að móta framtíðina, sem því miður er ennþá að byrja, í dag. Allt of mikill tími hefur farið í óþarfa. ESB bull. Icesave-samninga og samningsbætur. Því verður ekki breytt. Það eina sem við getum breytt er framtíðin. Þrátt fyrir skuldbindingar eigum við mikið inni hjá framtíðinni. En til þess þarf að fara að einbeita sér að uppbyggingu og að fara í harkalegan niðurskurð á bulli og sækja þann pening sem útrásarvíkingar og vitleysingar stálu af okkur. Ég veit það kvíða margir vetrinum. Meira að segja Pollýönnu-mengaða æska mín megnar ekki að láta mig raula fyrir munni mér: Don't worry, be happy! Fjárlagafrumvarpið sem lagt verður fram í haust verður áreiðanlega enn einn skellurinn. Mér finnst reyndar að það eigi að fara að taka þjóðina á sálarfræðinni og leggja fjárlagafrumvarpið fram á björtum vordögum, og elska ég þó skammdegið eins og fleiri Íslendingar sem eru með skerta skammdegisþunglyndishneigð, skv. rannsóknum Jóhanns Axelssonar. 

Framtíðin byrjar á hverjum degi og ég held að það sé kominn tími til að notfæra sér það lag sem nú er til þess að stokka alveg upp á nýtt og skapa nýtt og réttlátara samfélag, áður en allt fellur í sama farið og bölsýni og brokkgengt minni fær okkur til að gera sömu mistökin aftur.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband