Kjósendur eiga skilið að að fá heiðarlega valkosti

Fer ánægð af löngum og efnisríkum landsfundi VG. Mikill fjöldi efnismikilla ályktana var samþykktur í dag og greinilegt að okkar fólk fer ekki ráðalaust í kosningabaráttuna, velferðarmál, lýðræðismál, atvinnumál, efnahagsmál, utanríkismál og ýmislegt fleira var meðal þess sem ályktað var um og á síðu Vinstri grænna www.vg.is eru margar þessara ályktana þegar komnar inn.

Skýr krafa um heiðarleika, róttækni og málefnalega umræðu þar sem allt er uppi á borðinu er niðurstaða þessa fundar og kjósendur VG þurfa ekki að óttast að hreyfingin okkar fari undan í flæmingi. Samþykkt var tillaga sem gerir ekki bara núverandi stjórnarsamstarf að þeim valkosti sem flestir líta til heldur útilokar að kjósendur VG eigi á hættu að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda með fulltingi VG. Mér finnst býsna gott að tilheyra heiðarlegri hreyfingu.


mbl.is VG bundin - á móti Sjálfstæðisflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Ertu ekki hrædd um að VG sé að skjóta sig í fótinn með þessu? Að Samfylkingin geti í krafti vissunnar, um að hafa VG í vasanum, knúið fram mál sem annars væru torsótt? Þetta er skák þar sem hugsa þarf nokkra leiki fram í tímann. Í pólitík er ekki skynsamlegt að rétta öðrum flokki vopn sín, þó hann sé samherji í augnablikinu.

Samfylkingin gat ekki einu sinni fundið sér formann. Á endanum var það Jóhanna sem neyddist til að taka að sér hlutverkið sem hún vill ekki. Þessi sundurlausi hópur stundar ESB trúboðið að krafti af því að þau þurfa að sameinast um eitthvað.  Það kemur í staðinn fyrir pólitíska stefnu. Allra meina bót. Þessi flokkur getur reynst enn hættulegri en jafnvel vondur Sjálfstæðisflokkur. Þá er vont að vera búinn að loka þeirri leið.

Ég er nú samt á því að kjósa VG - en væri vissari ef ég hefði tryggingu fyrir því að VG láti ekki draga sig inn í einhverja ESB vitleysu. Að misnota kreppuna til slíks er eitthvað sem framtíðin mun ekki fyrirgefa.

Haraldur Hansson, 23.3.2009 kl. 16:41

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Vissulega væri gott að segja að ég hefði engar áhyggjur, en þannig er tilveran sannarlega ekki og ég sé engan óskakandídat til samstarfs. Geri mér ekki þær grillur að VG fái hreinan meirihluta út af fyrir sig, þannig að næstbest er að blása til samstarfs með aðild VG. Núverandi samstarf er það eina sem mér finnst lífvænlegt vegna velferðarmálanna og efnahagsmálanna og einkum vegna samspils þessara þátta sem skipta svo miklu máli í tilverunni. Það er miklu betra að mínu mati að veita jafnaðaröflunum í Samfylkinginnu brautargengi gegn frjálshyggjuöflunum. Þetta segi ég þrátt fyrir ESB, ekki vegna ESB. Það sem mér líkar best er að það er kynnt fyrir kjósendum að ekki standi til að starfa með Sjálfstæðisflokknum, sem mér finnst mjög óöruggur í ESB-málum, hef starfaði nóg með Vilhjálmi Egils og tel hvorki tilvonandi formanni(-mönnum) né varaformanni treystandi í þeim efnum frekar en Samfylkingunni.

ESB er mér mikið áhyggjuefni en ég held að slagkraftur Samfylkingarinnar sé ekki neitt óskaplegur og eitt er víst, flokksforystan í VG hefur fengið rækileg skilaboð frá landsfundi um að við séum eftir sem áður alveg gallharður andspyrnuflokkur ESB. Komi til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB (aðildarviðræður svona til að byrja með), sem allt eins gæti verið að frumkvæði þjóðarinnar, þá er ekki verjanlegt að rasa um ráð fram. Góð kynning, góð umræða, mikilvægar ákvarðanir um svona stórar ákvarðanir, sem verða væntanlega undir í stjórnarskrárnefnd, allt eru þetta atriði sem VG er vel ljóst og stefna flokksins tekur mið af því.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.3.2009 kl. 20:04

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband