Vera á landsfundi VG: Að koma aftur inn í kjarna pólitískrar umræðu er ótrúlega gefandi

Hlaut mitt pólitíska uppeldi í Kvennalistanum, þótt ég hafi verið í alls konar friðar-, kvennabaráttu og annars konar réttlætisbaráttuhreyfingum á undan. Þar var grasrótarstarfið með því mesta sem gerst hefur í íslenskum stjórnmálum, þótt við höfum sjálfar oft viljað gera enn betur. Því var ég hálf hikandi að hella mér út í stjórnmál í ,,hefðbundnari" stjórnmálaflokki, það er vinstri grænum, þótt ég sé vissulega meðal stofnenda þeirrar ágætu hreyfingar og hafi starfað með henni að einstökum verkefnum. En mér líkar margt við að vera komin á bólakaf í starfið hjá vinstri grænum. Mér líkar auðvitað stefnan einstaklega vel, stefnan sem forðaði mér frá pólitísku munaðarleysi þegar ég neitaði að láta flytja mig hreppaflutningum úr Kvennalistanum yfir í Samfylkinguna á sínum tíma. Það var engin tilviljun að ég fann mig frá fyrstu tíð í þeirri stefnu.

Núna sit ég minn fyrsta landsfund VG og mér líkar málflutningur okkar fólks. Bæði fyrirfram tilkynntra ræðumanna og allra þeirra (alla vega 53) sem tóku þátt í almennum stjórnmálaumræðum í kvöld. Samhljómurinn er mikill, get tekið undir nánast með öllum nema þeim sem vilja slá af einarða andstöðu VG gegn ESB-aðild. Þeir voru teljandi á fingrum annarrar handar í umræðunni í kvöld svo ég kvíði því ekki hvernig landið liggur hjá okkur þegar tugir töluðu fyrir óbreyttri stefnu! Ég er rífandi stolt af flestu því sem okkar fólki hefur tekist að gera á stuttri setu í ríkisstjórn og þótt við eigum óunnin verk, þá mun verða gengið í þau! 


mbl.is Sterk skilaboð frá yngra fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já gott hjá þér Anna.

Þú verður bara að vera vel á verði og passa það vel að VG falli aldrei inní þetta vemmilega ESB trúboð. Það væri algerlega ófyrirgefanlegt !

Gunnlaugur Ingvarsson 21.3.2009 kl. 00:44

2 identicon

Hverjar eru lausnir VG fyrir heimili og fyrirtækin í landinu

Arnar Sigurbjörnsson 21.3.2009 kl. 10:17

3 identicon

Ömurlegt ef VG ætlar að stilla sér endanlega upp við hliðina á Náhirðararmi Íhaldsins í afstöðunni til ESB.

Bobbi 21.3.2009 kl. 10:48

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

VG tekur væntanlega sína afstöðu til Evrópusambandsins á sínum forsendum ekki annarra þó þeir kunni að komast að sömu niðurstöðu og aðrir. Ég þekki það vel að forsendur vinstri-grænna gegn inngöngu í sambandið er í flestum tilfellum allt aðrar en t.d. forsendur hægrimanna.

Hjörtur J. Guðmundsson, 21.3.2009 kl. 11:50

5 Smámynd: TARA

Vona að eitthvað gott og raunhæft sé á döfinni, landmönnum til bjargar...

TARA, 21.3.2009 kl. 19:34

6 identicon

Ég man ekki nákvæmlega töluna úr síðustu skoðanakönnun.

En ef ég man rétt, þá voru um það bil 70% landsmanna hlynnt samningaviðræðum við esb.

Ef samningur sem yrði svo lagður í þjóðar atkvæðagreiðslu.

Hvernig lýðræði er vg að tala fyrir, ef þeir treysta ekki þjóðinni til að taka sínar eigin ákvarðanir í þessu máli?

skh 21.3.2009 kl. 20:06

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það er enginn bilbugur á VG í Evrópusambandsmálum og skh man ekki alveg rétt. Seinasta könnun um hvort Íslendingar vildu sækja um inngöngu (sem eru aðildarviðræður) fór 45% með en 55% á móti.

Varðandi úrræði, þá býður VG ekki uppá innihaldslausar padentlausnir í efnahagsmálum heldur þrotlausa vinnu - því það er það sem þarf - engar 20% niðurfærslur skulda eða aðrar hókus-pókus lausnir.  Það þarf að skera niður útgjöld, bæta hag þeirra sem verst standa tafarlaust og forgangsraða rétt. Þetta eru margar aðgerðir og VG er byrjað að framkvæma nú þegar auk þess sem mýmargar hugmyndir frá grasrótinni eru nú í vinnslu, margar smáar, af vettvangi og þær virka. En hér er það sem verið er að gera:

Síðan 1. febrúar s.l. hefði ríkisstjórnin flutt og þegar fengið samþykkt sem lög:

  • Fullt og endanlegt afnám eftirlaunalaganna
  • Hækkun endurgreiðsluhlutfalls virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað úr 60 í 100%
  • Opnað fyrir útgreiðslu séreignasparnaðar
  • Greiðslu- eða gjalddagaaðlögun fyrir atvinnulífið
  • Gagnsæi í störfum fjármálaeftirlitsins,

svo nokkuð sé nefnt.

Fyrir þinginu liggur:

  • Frumvarp um 25% hækkun vaxtabóta
  • Stöðvun nauðungaruppboða
  • Greiðsluaðlögun bæði samningskrafna og veðlána
  • Frumvarp um að loka skattaskjólum
  • Frumvarp sem tryggir sérskipaða saksóknaranum aðgang að öllum upplýsingum
  • Eignaumsýslufélag til að endurskipuleggja þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.3.2009 kl. 20:22

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þarna átti að standa patent-lausnir ...

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.3.2009 kl. 20:22

9 identicon

Ég held nú raunar að ég muni rétt.

Þ.e að um það bil 70% vildu fara í samningsviðræður með það í huga að sjá hvers kyns samnignar mundu í raun bjóðast, án þess að um eiginlegar aðildaviðræður væri að ræða, mig minnir að fréttablaðið hafi verið með þessa skoðanakönnun.

ef það er rétt að það séu 45% af fólki sem vill beinar aðildaviðræður án þess að vita í raun um það hvað sé í boði, segir það eitt að engin stjórnmálamaður hefur leyfi til að neita almenningi um það að kveða upp úr um það, í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort það telji sér betur borgið innan esb.

Semsagt 45% íslendinga vill beinar aðildaviðræður um samning sem yrði svo lagður í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu.

70% vilja fá viðræður við esb um það hvað væri í boði þ.e debit - kredit hliðar inngöngu. Enda engar upplýsingar um það að fá frá íslenskum stjórnmálamönnum

Það er erfitt að skilja hvers vegna flokkur sem vill meina að hann sé lýðræðisflokkur, treystir ekki íslenskum almenningi til að taka ákvarðanir um þetta mál. Þess ber að gæta að traust íslensk almennings á íslenskum stjórnmálamönnum er afar lítið um þessar mundir, sama hvar í flokki þeir standa, og vel hugsanlegt að íslendingar vilji flytja valdið til Brussel að einhverju leiti.

Hvað er það sem vg óttast við það að setja þetta umdeilda mál í hendur almennings? Er hægt að hafa það lýðræðislegra en það. Er það meira lýðræði samkvæmt kokkabókum vg að flokkur með rúm 20% fylgi, komi í veg fyrir að þjóðin fái að útkljá þetta deilumál í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem til tilbreytingar væri það form á atkvæðagreiðslu hér á landi að  öll atkvæði væru jöfn

Þú hreykir þér af því að núverandi ríkistjórn hafi opnað fyrir útgreiðslu séreignarlífeyris sparnaðar

Var það mál ekki langt komið hjá síðustu stjórn? og raunar er útfærslan á þessari útgreiðslu hrein hörmung. Ekki gott að sjá hvernig hún t.d passar við fullyrðingar um að bæta þurfi hag þeirra sem verst standa.

skh 21.3.2009 kl. 21:40

10 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Stend við mín orð og er ágætlega stolt af VG, það er ekki nóg að segjast ætla að gera eitthvað og hafa til þess margar mánuði en gera ekki neitt. Í mínum huga er þjóðaratkvæðagreiðsla eitthvað sem þjóðin hefur frumkvæði að, og það er sannarlega verið að opna mjög myndarlega á slíkt í fyrsta sinn. Ég sé þjóðaratkvæðagreiðslu ekki sem neina ruslatunnu sem mál fara í sem fólk veigrar sér við að taka ábyrgð á. Ég stend með minni skoðun í Evrópusambandsmálum en tek heils hugar undir að ef þjóðin vill kjósa um aðildarviðræður þá gerum við það að sjálfsögðu og tökum málefnalega umræðu um aðildina.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.3.2009 kl. 22:11

11 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

shk:
Stjórnmálaflokkar marka sér stefnu og bera síðan á borð fyrir kjósendur. Ef stjórnmálaflokkur er á móti einhverju, eins og t.d. inngöngu í Evrópusambandið, er auðvitað út í Hróa hött að hann opni á slíkt mál. Ef kjósendur vilja slíka inngöngu hafa þeir þann lýðræðislega valmöguleika að kjósa einhvern flokk sem hefur það að stefnu sinni. Þetta er ekkert flókið. Stjórnmálaflokkar eru ekki bundnir að því að dansa eftir skoðanakönnunum og jafnvel ekki vilja fólks. Það kallast populismi á slæmri íslenzku.

Hjörtur J. Guðmundsson, 21.3.2009 kl. 22:20

12 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Einn misskilningurinn enn, það eru ekki til neinar ,,könnunarviðræður" annað hvort er farið í aðildarviðræður eða ekki. Það er alltaf verið að láta í veðri vaka og reyna að rugla fólk í að halda að það séu til einhverjar óskilgreindar viðræður við ESB til að vita hvaða kostir eru uppi. Þetta er annað hvort óviljandi eða viljandi misskilningur. Þær viðræður sem eru í boði til að kanna kosti og galla eru einar og það eru aðildarviðræður og meiri hluti fólks er á móti þeim og því til viðbótar er mikill meiri hluti (60-70%) á móti því að við göngum inn í ESB.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 21.3.2009 kl. 22:42

13 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Nákvæmlega.

Hjörtur J. Guðmundsson, 22.3.2009 kl. 01:16

14 identicon

Hjörtur aðeins rúm 20% kjósenda kjósa vg, þannig að vg hefur ekki neitt umboð frá almenningi til að koma í veg fyrir aðildarviðræður. Þar fyrir utan hafa kjósendur ekkiert um það að segja hvernig stjórnarmynstrið eftir kosningar verða. En ok, þetta er ný skilgreining á íbúa lýðræði (þjóðaraatkvæðagreiðslur) eða popúlismi.

"Stjórnmálaflokkar eru ekki bundnir að því að dansa eftir skoðanakönnunum og jafnvel ekki vilja fólks." Þetta stangast algjörlega á við það sem hefur komið fram hjá vg. Var þá engin ástæða til stjórnarslita, eftir búsáhaldabyltinguna? Eftir hvers vilja eiga þeir að fara? Kostunaraðilum?

Anna, það var ekki verið að tala um einhverjar könnunarviðræður.

Spurningin var hvort fólk vildi fá fram kosti og galla aðildar í viðræðum við esb, ef það væri í boði. Þetta er mjög umdeilt mál og það eina rétta væri að fara í viðræður og láta þjóðina kjósa, engin stjórnmálaflokkur ætti að óttast þjóðaratkvæðgreiðslur.

Þetta tengist popúlisma ekki neitt, ekki verið að hlaupa á eftir einhverjum dægurflugum, heldur er þjóðin að kjósa um stórt og  mikið mál, sem hefur verið í umræðunni hér á landi árum saman og verður um ókomin ár nema það fáist botn í það. Voru norskir stjórnmálamenn þá að hlaupa eftir einhverju popúlisma þegar þeir lögðu samning um aðild að esb beint undir dóm  kjósenda?

skh 22.3.2009 kl. 08:04

15 identicon

Anna, ertu semsagt  stolt af þvi semsagt hvernig afgreiðslan á útgreiðslu séreignarsparnaðar tókst til? Telur þú að það hefði ekki verið hægt að gera þetta neitt betur?

skh 22.3.2009 kl. 08:12

16 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Veit ekki alveg til hvers þú ert að vísa skh.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.3.2009 kl. 01:05

17 identicon

Ég er ekki að vísa til neins sérstaks annars en laga um endurgreiðslu séreignasparnaðar. Þú ert mjög stolt yfir því hvernig þau lög eru.

Ég er semsagt að velta því fyrir mér hvort þú teljir að ekki hefði verið hægt að útfæra þetta betur. Myndir þú til dæmis segja að þessi lög séu sniðin fyrir þá, sem helst þurfa á því að halda að taka út séreignarsparnað sinn?

by the way, Evrópusambands aðild komin á dagskrá hjá vg. Til hamingju með það.

skh 23.3.2009 kl. 15:31

18 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hljómar eins og skh sé ekkert sérlega velviljaður, en ekki hafa áhyggjur, ESB er hvorki meira né minna á dagskrá en fyrir helgi.

Varðandi séreignasparnaðinn, þá sé ég ekki að sú útfærsla sem valin er sé neitt slæm, veit sem sagt ekki hvort það er þakið á upphæðinni sem taka má út eða mánaðarlegu greiðslurnar sem fara fyrir brjóstið, og veit ekki enn.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.3.2009 kl. 21:17

19 identicon

Velviljaður hverju? Vg?, þér?,,, ég er satt best að segja algjörlega hlutlaus.

"Stórákvarðanir á borð við aðild að ESB á að útkljá með þjóðaratkvæðagreiðslu að undangenginni upplýstri og lýðræðislegri umræðu. Afstaða Vinstri grænna er sú að hagsmunum Íslendinga sé best borgið utan ESB." vg.is

"Vinstri græn samþykktu nú á landsfundi flokksins tillögu um að aðild Íslands að Evrópusambandinu skuli leggja undir þjóðaratkvæði." mbl.is

Þetta þýðir í eyrum flestra að esb samningar séu á dagskrá vg. Sjálfsagt til að útiloka sig ekki sjálfkrafa frá stjórnarsamstarfi við samfylkingu eða framsókn.

Varðandi séreignarsparnaðinn, þá er ég ekki sammála þér um það að þessi útfærsla sé góð. Upphæðin er of lág fyrir það fyrsta. Það er opið fyrir alla að taka þetta út, hefði ekki verið nær að láta skulduga einstaklinga fá hærri upphæð, og skilyrða hana við uppgreiðslu lána? Hefði það ekki verið meira í anda  þess sem þú telur til höfuðkosta vg  þ.e "bæta hag þeirra sem verst standa tafarlaust og forgangsraða rétt."

skh 23.3.2009 kl. 22:03

20 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Bara pæling ... þetta með velviljann. Ekki mál. Innan VG er skýr vilji gegn ESB sem kom greinilega fram á landsfundinum, en ,,á dagskrá" já, við viljum umræðu. Við erum líka hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslum sem prinsippi og því erfitt að vera á móti því ef þjóðin vill kjósa, en við eigum bara svo stóran pakka eftir að ræða varðandi framkvæmd þeirra og umgerð og um það er ekki ágreiningur. Get ekki skýrt þetta betur.

Séreignasparnaðurinn, já, ætli við séum ekki bara hreinlega ósammála þar, það er alveg til í dæminu. Hefur ekkert með stolt að gera, það er ekkert gaman að vera komin í þá stöðu að þurfa að opna á að fólk þurfi að grípa til eftirlaunasparnaðar, en það er ekki VG að kenna.

Komumst við nokkuð lengra með umræðuna? Ég held varla.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.3.2009 kl. 22:19

21 identicon

Jú jú,, margt að spurja um áður en hægt er að taka ákvörðun um hvert atkvæmi manns eigi að fara, og hverja er betra að spyrja en frambjóðendur?

Ertu semsagt að segja það að það sé útilokað að farið verði í aðildarviðræður við esb á næsta kjörtímabili, verði vg í stjórn?

skh 23.3.2009 kl. 23:34

22 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég svara eins heiðarlega og hreinskilnislega og ég get. Niðurstaðan í utanríkismálum hjá okkur af landsfundinum er í heild á www.vg.is og þar er ítrekuð andstaða okkar við Evrópusambandsaðild. ESB-kaflinn er stuttur, enda hefur formaður og fleiri fulltrúar okkar ítrekað að nú sé verið að vinna í miklu brýnni málum. Mér sýnist að það hljóti að leysa eitthvað að birta þennan stutta kafla hér. Það geta komið upp margs konar stöður (scenario) eftir kosningar og okkar veganesti er: VG vill ekki inn í ESB og mun þar af leiðandi ekki stuðla að inngöngu. Þjóðaratkvæðagreiðslur, sem við erum hlynnt að nota í þágu aukins lýðræðis, og gætu t.d. verið kveikja að aðildarviðræðum, eru enn án alls regluverks, þröskulda, þátttökureglna og reglna um hvenær eigi að krefjast aukins meirihluta, þetta allt þarf að leiða til lykta áður en ESB-málum er vísað til þjóðarinnar til atkvæðagreiðslu. 

Evrópumál

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrábreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.3.2009 kl. 23:54

23 identicon

Semsagt sértu evrópu sinni þá skal ekki undir neinum kringumstæðum kjósa vg.

Hvað með jafnréttismál?

Hvað með réttindi barna?

Hvað með foreldrajafnrétti?

Hvað með nútímavæðingu íslenskra barnalaga?

Hefur vg myndað sér stefnu í þessum málaflokkum.

skh 24.3.2009 kl. 13:30

24 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sértu Evrópusinni þá skaltu endilega ganga í VG. Sértu Evrópusambandssinni verður þú eflaust svolítið í minnihluta. Já, VG hefur sannarlega stefnu í öllum þessum málaflokkum og fjallaði um öll þessu málefni á sínum landsfundi, meira um sum en önnur og hefur stefnu í þeim öllum, nútímavæðing íslenskra barnalaga er að vísu mjög háð túlkun (gildishlaðið) en ég fullyrði í öllum þessum málum ef VG besti valkosturinn. Hér með vísa ég allri umræðu um einstök málefni til www.vg.is þar sem bæði stefnuskrá VG er finnanleg og einnig sú kosningastefnuskrá sem við erum að leggja fram. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 24.3.2009 kl. 18:30

25 identicon

Sæl aftur.

Ég er búin að lesa kosningstefnuskrána og stefnuskrá vg. Ég finn því miður ekkert um foreldrajafnrétti, rétt barna til beggja foreldra, né neitt um þörfina á því að nútímavæða íslensku barnalögin. Það væri óskandi að það væri háð túlkun, hvort íslensk barnlög séu gamaldags (vægt til orða tekið)

Hugsanlega ertu ekki vel inn í þessum málaflokki, það er algengur misskilningur hjá fólki sem ekki hefur kynnt sér málin, að íslensk barnalöggjöf standist samanburð við sambærileg lög þeirra þjóða sem við helst viljum bera okkur saman við. Íslensku lögin stangast raunar á í veigamiklum atriðum við samning S.Þ um réttindi barna, samning sem eftir því sem ég best veit var lögfestur hér nýlega. Teljir þú þá túlkunaratriði að íslensk lög ættu að vera í samræmi við téðan samning, þá finnst mér það fyrir mitt leiti óásættanleg skoðun hjá mannesku í framboði, þ.e að íslensk börn skuli njóta minni réttar en s.þ mæla fyrir um.

Ég fann margar ágætar ályktanir um jafnréttismál, þær snerust þó að mestu leiti um það að jafna rétt kvenna í hinum ýmsu málaflokkum. Mér þótti t.d merkilegt að sjá að heimilisofbeldi sé skilgreint sem kynbundið ofbeldi karla á konum, býst þó við að það helgist af því að gerendur eru í langflestum tilfellum karlmenn, þannig að vel kann að vera að sú skilgreining eigi fullan rétt á sér, en hvað kallast þá "heimilisofbeldi" þar sem konur eru gerendur? 

Vona að þú sjáir þér fært að vísa mér beint á ályktanir um t.d foreldrajafnrétti, og ályktanir um ógildishlaðnar breytingar á barnalögum.

Þú vilt gera mig að evrópusambandssinna, ég er það ekkert en ég vil fá að dæma um það sjálfur. Hvort ég telji mig og mína betur komna í evrópusambandinu. Traust á íslenskum stjórnmálamönnum er jú í molum. Hvort sem þeir eru í sjálfstæðisflokki eða vinstri grænum eða þar á milli. Spurningin er hvort almenningur fái eða fái ekki að ákveða það í þjóðaratkvæðagreiðslu, helst að öllu að hreinlega kjósa um aðild eftir að samningar liggja fyrir. Þú treystir íslenskum pólitíkum greinilega betur, ætli við verðum ekki að vera sammála um það að vera ósammála þar.

skh 24.3.2009 kl. 19:53

26 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Foreldrajafnrétti, það kom fram tillaga um það mál á landsfundinum, hún var ekki mikið unnin og því beint til flokksstjórnar og flokksráðsfund sem munu fjalla um hana og því ítreka ég að www.vg.is svarar flestum spurningum þínum, sumt er í vinnslu. Þekki þá umræðu sem þú ert að vísa til varðandi heimilisofbeldi og fullyrði að það er vilji til að hafa það sem sannast reynist, þótt við séum sammála um að yfirgnæfandi heimilisofbeldismál varði karla sem gerendur. Barnalögin þekki ég ákaflega vel, var með í að gera einar mestu breytingar sem gerðar voru á þeim og þetta er málefni sem er í stöðugri umræðu hjá VG. Það væri mikil tilviljun ef við værum búin að ljúka umræðu um öll þau mál sem þú vísar til en ég ítreka, þetta er ýmist afgreitt eða í umræðu hjá okkur.

Varðandi ESB þá hef ég fjallað um það út frá mínu sjónarhorni og reynt að svara öllu eins samviskusamlega og ég get mögulega gert. Geri þér ekki upp neinar skoðanir í þeim efnum. 

En enn og aftur nú bið ég þig að fylgjast með www.vg.is því þar eru þau mál sem eru til lykta leidd birt jafnharðan í formi kosningastefnskrár, ályktana og í alls konar öðru formi. Best væri að þú gengir í VG og tækir þátt í umræðunni innan okkar hóps, þannig gætir þú sannarlega sett fókus á þá umræðu sem þér er efst í huga.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.3.2009 kl. 00:04

27 identicon

Fylgist spenntur með vg.is ekki hægt að kjósa flokk sem ekki er með það á stefnuskrá að bjóða íslenskum börnum upp á sambærilega löggjöf og best þekkist í löndunum í kringum okkur :)

Því miður tókust þær breytingar á barnalögunum sem þú vísar til ekki nægjanlega vel, þó eflaust hafi sumt verið til einhverra bóta. Kannski besta sönnunin fyrir því er eins og áður sagði, þau ganga í berhögg við samning s.þ um réttindi barna.

þakka þér fyrir spjallið.

skh 25.3.2009 kl. 00:22

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband