Mikilvægasta ríkisstjórn lýðveldisins í burðarliðnum?

Sú tímasetning, þeir atburðir og sá aðdragandi sem hefur verið að myndun nýrrar ríkisstjórnar gerir hana sennilega að mikilvægustu ríkisstjórn lýðveldisins, þótt skammlíf verði vegna komandi kosninga. Aðild Samfylkingarinnar að henni setur auðvitað spurningarmerki við getu hennar til að taka á alvarlegustu og brýnustu málum dagsins. Samfylkingin er enn í og að koma úr þeirri ríkisstjórn sem átti að fara frá, það var krafa mótmælanna. Getur hún umsnúist bara með því að komast í annan félagssskap (og betri að mínu mati, enda VG-kona)? Reyndar er breytt verkaskipting innan ríkisstjórnarinnar (ekki síst hlutverk Jóhönnu), eins og fregnir herma að hún verði, ávísun á einhverjar breytingar en hvort þetta tvennt dugar til veit ég ekki. 

Við vitum svo sem ekki hvort þetta var besta ríkisstjórin sem hægt var að mynda miðað við núverandi aðstæður. Eitt er víst, Þjóðstjórnarhugmyndin, með þá meginhugsun að allir öxluðu jafna ábyrgð fram að kosningum sem yrðu fljótt (!), datt út af borðinu um leið og Sjálfstæðismenn viðruðu þá hugmynd að ,,eðlilegast" væri að þeir leiddu hana. Það hvarflaði ekki eitt andartak að mér að utanþingsstjórn yrði mynduð, þótt hugmyndin væri góð var aldrei minnsti möguleiki á slíku, það var því miður augljóst.

Þessi stjórn sem er að fæðast verður dæmd af verkum sínum. Ég get ekki annað en fagnað henni og brýnt hana til allra góðra verka. Mér segist svo hugur að pólitískt landslag við næstu kosningar verði allt öðru vísi en það er núna og það er mjög jákvætt ef svo verður. Nýju öflin og áherslurnar í samfélaginu, krafan um stjórnlagaþing hefur þegar haft áhrif á umræðuna, allt er þetta af hinu góða. VG veitir svo sannarlega ekki af góðum samstarfsflokkum eftir kosningar. Ég óttast að ef ESB-umræðan verður dregin inn í brennidepil á nýjan leik muni það skyggja á hin raunverulegu viðfangsefni þessarar stjórnar, endurreisn Íslands. Nú er bara að bíða og sjá hvað setur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband