Eftir lestur ævisögu Clapton

Eftir lestur á sjálfsævisögu Clapton er margt sem fer um hugann. Búin að heyra ýmislegt um bókina og einkum hversu óvæginn hann sé við sjálfan sig og dragi ekki fallega mynd upp af sjálfum sér. Það sem mér finnst standa uppúr eru lýsingar hans á áhrifavöldum og tónlistarpælingum, einkum á yngri árum (þrátt fyrir sukkið er tónlistin þá ennþá númer eitt). Tímabilin sem hann gekk í gegnum, Mynd004sem gítarleikari í ýmsum hljómsveitum, stemmningin, afstaða hans til ýmissa tónlistarmanna og tilurð einstakra laga, þetta eru silfurmolarnir í frásögninni (silfur er aðal málmurinn í dag ;-). Og mismunandi þol, ánægja, snobb, virðingu og annað sem ræður afstöðu hans til tónlistar hverju sinni er mjög skemmtileg pæling sem skilar sér vel í bókinni.

Hitt sem mér finnst magnað er bataferlið hjá honum og að það skuli yfir höfuð hafa tekist að rífa hann upp úr móðunni sem hann var að hverfa inn í. Ég segi ,,það skuli hafa tekist" en ekki að honum hafi tekist það upp á eigum spýtur, þrátt fyrir að ég viti að ef hann hefði ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að vilja snúa við blaðinu hefði þetta auðvitað ekki tekist. En hann skilar því líka vel hversu mikla hjálp hann þurfti og fékk. Á köflum finnst mér of mikið um upptalningar án efnis, en þetta eykur reyndar heimildagildi bókarinnar, sem ég held að hljóti að vera ótvírætt.

Þá er það sukkið, jú, lýsingarnar eru óvægnar og nöturlegar, en bæta kannski ekki svo miklu við það sem fjölmiðlar hafa verið ólatir að segja okkur. Reyndar fannst mér svolítið merkilegt hvernig hann lýsir einangruninni og að því virðist hrútleiðinlegu lífi heróínfíkilsins, sem hann var. Á hinn bóginn virtist hann skemmta sér mun betur sem fyllibytta, en með ömurlegum afleiðingum.

Las einhvers staðar að þýðingin væri stirð og þar sem ég las bókina í þýðingu og hef ákveðnar skoðanir á svoleiðis löguðu, þá verð ég að bera blak af þýðandanum, hún er auðlæsileg en svolítið flöt. Þó ég hafi ekki borið hana saman við frumtextann, þá hallast ég að því að þessi flatneskja (upptalningarnar sem ég nefndi) sé á ábyrgð frumtexta. Þetta er ekkert bókmenntaverk. Hnaut um örfáar leiðinilegar enskuskotnar setningar sem ég skrifa á hraða þýðanda. Þar stakk mig helst orðalag eins og ,,hans gítar" (eða hvaða hlutur það var nú) þar sem íslenskan ætlast til þess að skrifað sé ,,gítarinn hans". En þetta er sparðatíningur, bókin er auðlesin.

Clapton galopnar ekki inn á sig í þessari sögu, þrátt fyrir óvægnu hreinskilnina, nema þegar kemur að tónlistinni og afstöðu til hennar. Og það finnst mér kostur. Fjölskyldan hans er flókin, en það gerist nú á fleiri bæjum, hann skýrir ýmislegt í lífi sínu með þeim grunni sem hann byggir á, en það vekur engan ofboðslegan áhuga minn. Hins vegar finnst mér gaman að heyra um ,,menningarlega árekstrar" eins og mismunandi húmor Breta og Ameríkana. Þar datt ég gersamlega inn í frásögnina, þótt hún væri knöpp.

En sem sagt, góð bók fyrir Clapton aðdáendur og blúsáhugafólk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Kristjánsson

Takk fyrir þetta. Ætla að grípa þessa bók í næstu ferð :-)

Kristján Kristjánsson, 27.8.2008 kl. 14:36

2 Smámynd: Steinþór Ásgeirsson

Las þessa bók á frummálinu núna í byrjun ágúst, fannst hún nokkuð góð lesning

En sennilega bara af því að ég hafði áhuga á því að lesa um hann.

En hann var ekki að hlífa sér.

Góð lesnig

Steinþór Ásgeirsson, 27.8.2008 kl. 16:20

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Já, þetta er bók sem er vel þess virði að sé lesin, en einkum áhugaverð fyrir áhugafólk, sem er fjölmargt, eins og augljóst var á tónleikunum góðu.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.8.2008 kl. 18:01

4 Smámynd: Þráinn Árni Baldvinsson

Takk fyrir góðan pistil.

Bókin er á náttborðinu, ólesin en á planinu.

Ég ætla að lesa ensku útgáfuna og hlakka mikið til. Er einmitt að hlusta mikið á gamla stöffið hans.

Þráinn Árni Baldvinsson, 27.8.2008 kl. 20:08

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér finnst ég hlusta á sum lög með Clapton aðeins öðru vísi núna en ég gerði áður, það er einn af kostum bókarinnar.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.8.2008 kl. 21:13

6 identicon

Það sem pirrar mig við bækur eins og þessa, er að greinilega hefur verið kastað til verksins í flýti að einhverju leyti. Á titilsíðunni (síða 3) er að finna 3 prentvillur (2 sinnum lítill stafur í nafni þegar á að vera stór -- og svo þessi hræðilega villa "áamt" - á greinilega að vera "ásamt".

Þetta eitt segir mér það að ég vil frekar lesa óþýdda bókina heldur en þýðingu sem er svona. Ég veit að ég er smámunasamur ... en eftir að hafa starfað í bókaútgáu í 11 ár og vinnandi nú á bókasafni, þá skiptir þetta mig máli.

Eins og stendur á kápunni á nýrri þýðingu á bók Camilla Läckberg: "... höfundur Svíðþjóðar..." !!! Já, menn eiga alltaf að vanda sig

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson 29.8.2008 kl. 09:31

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sammála að fljótaskrift er alltaf til baga, en ég er svo ljónheppin að ég rek ekki augun í villur af því tagi sem þú ert að benda á, Doddi, hins vegar er ég frekar viðkvæm fyrir stirðbusalegu orðalagi og málvillum, þótt einhverjar fari framhjá mér, ég yrði án efa afskaplega vondur prófarkarlesari. En starfandi við bókaútgáfu, namm, það hljómar eins og ánægjulegt starf.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 29.8.2008 kl. 15:38

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Já, og eitt enn. Vissulega er alltaf gott að lesa bækur á frummálinu, einkum ef það er enska eða skandinavíska (orðin of mikil áreynsla ef tungumálið er annað, alla vega fyrir mig) en hins vegar ræður tilviljun því oftast hvort ég les bækur í þýðingu eða ekki. Er til dæmis í bókaklúbbum sem boðsenda mér alls konar bækur í íslenskum þýðingum (oftast þokkalegum) og stundum hreinlega dett ég mun bækur sem mig langar að lesa, til dæmis Clapton í Hagkaupum um daginn, og þá rölti ég ekki út í Eymundsson til þess að finna hana á ensku, heldur læt bara slag standa og borga bókina með hrásalatinu og hrökkbrauðinu ;-).

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 29.8.2008 kl. 15:42

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband