Tímabundnu sumar(framkvæmda)frí frestað um stund - módelmyndir úr hættu - og bláþráðstungl á himni

Smá langloka undir svefninn, miklu betra að blasta þessu á bloggið en að taka allar hugsanirnar með sér í háttinn ;-)

Töfrarnir hérna í Borgarfirðinum eru ekki bundnir við blíðviðrið heldur datt ég í vinnugírinn sem ég ætlaði mér, og það gerðist eins og hendi væri veifað um leið og ég sneri inn eftir svefndrukkinn dag í sólinni. Þetta eru svo sem engir töfrar, ef að er gáð, en bara meira gaman að kalla þetta einhverju heillandi nafni. Heima kalla verkefnin meira á mig, fleira ógert í augnablikinu, þótt hér uppfrá megi vissulega finna óunnin verkefni líka. Þannig að vinnan kemst í meiri forgang en framkvæmdirnar og það er reyndar mjög gott mál núna, mig langar að ljúka ákveðnum hluta verkefna minna fyrir helgi og sýnist að það muni takast. Þá get ég sungið við málningavinnuna, enda þurrkspá frá og með föstudegi, jibbí! og eflaust ítarlegri þurrki. Þetta sumar hefur nefnilega verið með þeim ósköpum gert að oft hefur ekki orðið úr rigningu sem spáð hafði verið, en flest sumur sem ég man eftir fram til þessa hafa frekar verið öðru marki brennd.

Fékk indælis heimsókn í kvöld, Arý móðursystir hans Ara kíkti við hér í bústaðnum, ég var að láta hana fá myndina sem ég ætlaði að gefa henni fyrir um það bil tuttugu árum, en hvarf á dularfullan hátt og fannst ekki fyrr en núna í vikunni þegar ég neyddist til að fara í gegnum allar myndirnar mínar til að redda þeim frá handtökum Henriks smiðs, sem af siðsemi rúllaði öllu þessu nakta fólki model1saman, þessi sem Arý fékk var ekki bara nakin heldur líka ólétt, ég get ímyndað mér að það hafi ekki verið vinsælt. Annars munaði litlu að blessunin hann Henrik smiður lenti á körfuboltaleik þegar við vorum, með hjálp pólsku orðabókarinnar, að reyna að finna út hvað hann vildi gera fyrstu helgina á Íslandi. Við fórum línuvillt í orðabókinni og vorum að hugleiða hvaða körfuboltaleik væri hægt að finna þegar við tókum eftir að orðið sem fingurinn nam við var alls ekki körfubolti heldur kirkja. Og þess vegna vitum við allt um kaþólskuna hans Henriks, hann sótti kirkju mjög ötlullega á meðan hann var að vinna fyrir okkur, en við vorum svoilítið áhyggjufull þegar hann hætti, hann var nefnilega kominn í félagsskap annarra og ekki eins kirkjurækinna landa sinna. En okkur kemur það svo sem ekkert við, myndirnar mínar virðast hafa bjargast blessunarlega. Þessi sem hér fylgir var reyndar aldrei í hættu af því hún kúrði örugg inni í vatnslitamöppu þar til ég fann henni annað heimili.

Tunglið er eins og smá augnhár á himninum og úr þessu getur ekkert gerst annað en það fari að stækka á nýjan leik. Áður en góð götulýsing kom á Álftanesið var ég alltaf mjög vel að mér í tunglstöðunni en núna er það helst á Kanarí og í Borgarfirði sem ég tek eftir tunglinu og er reyndar nýfarin að veita því eftirtekt eftir björtustu sumarvikurnar.

Blágresisfræin mín fara niður í fyrramálið, ef að líkum lætur, og svo förum við Gunna vinkona í smá leiðangur til að sækja ömmu hennar Katarinu. Jamm, viðburðaríkur og ofurhlýr dagur framundan á morgun.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband