Bílaþvottur fyrir byrjendur

Þegar ég eignaðist frekar nýjan, svartan bíl þá fann ég, kannski í fyrsta sinn á ævinni, hjá mér þörf til að þvo hann svolítið, ekki oft, ekki mikið, en meira en oftast áður. Þetta er samt meira en að segja það. Gamli rauði var að vísu í þjónustusamningi hjá mér á tímabili, en hvort tveggja er að hann er bæði hávaxnari en ég og kústurinn samanlagt (eða þannig) og svo eltist hann smátt og smátt. Var einu sinni settur í Löður, en þoldi ekki atganginn og miðstöðin varð aldrei söm eftir það, né heldur tókst að loka bensínlokinu fyrr en tveimur dögum seinna. Í sumar, meðan veðrið var hlýrra og skárra, þá var þetta lítið mál með svarta Volvo-inn, en svo var farið að vera með moldroksframkvæmdir við Álftanesveginn og frekar fúlt að aka á nýþvegnum bíl gegnum fíngert moldrokið.

CarwashNú, svo kom vetur, ekkert gaman að þvo bíla við svoleiðis aðstæður. Ég er enn ekki orðin hagavön annars staðar en á þvottaplönum, en hef rennt hýru auga til einhverra bílaþvottastöðva þar sem maður mætir og fær sápu og svoleiðis með því að borga í einhvern stöðumæli. Íhuga það. 

En alla vega, ég kom við á bílaþvottaplani í dag áður en ég verslaði í matinn. Við erum óvenjumörg í mat í kvöld, þannig að ég þurfti að sleppa mjög síðboðuðu kvennaboði í fjölskyldunni, það er ekki hægt að vera alls staðar. Ætlaði ,,rétt að skola af bílnum" í leiðinni eins og ég segi oft svo hæversklega. Það merkir yfirleitt að ég sé ekki grábrúnu blettina sem verða eftir fyrr en bíllinn er orðinn nokkuð þurr. Það merkir líka að ég skola mjög lauslega af dekkjunum. Sennilega hef ég þó gert það betur núna en oft áður, því ég varð skelfingu lostin þegar ég áttaði mig á því að það snarrauk gufa frá framdekkjunum, bremsudiskar, mun vera eðlilegt (ég ætla rétt að vona að svo sé)!

CarwashNema hvað, ævintýrin voru á næsta leiti, fyrst þurfti ég að renna upp úlpunni og setja á mig hettuna, þar sem maðurinn á næsta bás gekk mjög hart fram í sínum bílaþvotti. Annars mjög krúttlegt hvernig hann spreyjaði á örlítið lausa og hangandi lista sem héngu utan á bílnum hans og pússaði þá af natni, sem minnti óþægilega mikið á fyrstu fimm bílana mína af aldri og útliti að sjá. Og pússaði mjög vafasama hliðar bílsins, sem ég var dauðhrædd um að létu undan. 

Mórallinn í sögunni er: Það er greinilega vor í lofti! Þegar ég kom úr búðinni og sá hvaða hlutar bílsins höfðu sloppið við mjúkar strokur kústsins skrapp ég á tvö plön og þau voru bæði sneisafull af fólki í sömu erindagjörðum, þannig að ég varð frá að hverja með hann Flekk minn. En núna er dóttirin komin með bílinn í lán og smá hint um að það megi ljúka þessu verki. Hún lofaði engu, en það er aldrei að vita. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Aha, möguleiki að ég muni einhvern tíma prófa það. En ennþá er ég í byrjendaliðinu.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 18.4.2008 kl. 17:57

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sendi eigendum svarta bíla innilega samúð. Sjálfur vil ég helst ekki nema silfur- eða gulllita bíla, einkum þá fyrrnefndu, það er nánast sama hvað þeir verða skítugir þeir líta alltaf út fyrir að vera hreinir.

Ég hef hugsað mér að vera ekkert að púkka upp á svarta bíla -- það er nóg fyrir mig að vita að mér muni skutlað síðasta spölinn í þannig litu appírati.

Kv. í bæinn

Sigurður Hreiðar, 18.4.2008 kl. 18:38

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Æ, sá svarti er nú sætur, en það er sannarlega rétt að það sér vel á honum. Hef átt bíla í ýmsum móskulegum litum, minna mál. En Gulla er búin að segja mér hvað ég á að gera ...

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 19.4.2008 kl. 01:11

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband