Í stað ráðherra komi ráðríki - og þá er málið leyst!

Í stað ráðherra komi ráðríki - og þá er málið leyst! Þetta fína hvorugkynsorð, beygist: Ráðríki, ráðríki, ráðríki, ráðríkis. Ekkert flókið við þetta mál. Einfalt, þjálft og hljómfagurt orð. Á sér sögulega skírskotun, einmitt nú þykir framkvæmdavaldið (nokkur ráðuneyti skipuð nokkrum ráðríkjum) nokkuð valdamikið samanborið við löggjafarvaldið og jafnvel dómsvaldið. Það vendist fljótt að segja: Hæstvirt samgönguráðríki Kristján Möller til dæmis. Þarf að ræða þetta eitthvað frekar? Og meðan þið eruð stödd hérna á síðunni, endilega bætið í púkkið ef þið þekkið eitthvert orð sem endar á gangur og ekki hefur verið tilnefnt nú þegar.

Og svo er ráðríki auðvitað í ríkisstjórn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ég viss um að þú skemmtir þér vel  þegar þú sauðst saman þessa færslu.

Hæstvirt ráðríki?! Ja, kynin eru þá jöfn - bæði hafa misst kyn sitt. Ég hugsa að konum gangi betur en körlum að hugsa starfsheiti sitt hvorugkyns, því að þeir eru vanir því að tungumálið taki mið af kyni þeirra. Allt sem segja þarf um það birtist í fréttum Sjónvarpsins í kvöld: Sigurður Kári sá ekkert athugavert við það að konur beri karltitil (ráðherra), en þegar hann var settur í þá stöðu að bera kventitil, þá varð hann vandræðalegur.

Annars þá er íslenska sérstök (ekki einstök, en sérstök) að því leyti að mörg starfsheiti eru til í annaðhvort kven- eða karlkynsmynd. Fólk þekkir úr ýmsum öðrum tungumálum að starfsheiti eiga bæði kven- og karlkynsmynd. Kannski er það það sem margir þurfa að venjast, þ.e. að til sé bæði kven- og karlkynsmynd starfsheita og reyndar fleiri nafnorða sem vísa til kyns.

Varðandi "gangur". Var búið að minnast á rottugang, músagang? Svo má hugsa sér kattagang, hundagang og jafnvel mannagang, þar sem þessar dýrategundir eru til í of mörgum eintökum!

Helga 23.11.2007 kl. 00:29

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Jamm, heldurðu að ég hafi skemmti mér? Mér leiddist svo sem ekkert. En mér líst vel á músaganginn, á meðan hann fer ekki í hús. Kettirnir eru hættir að færa okkur ,,gjafir".

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.11.2007 kl. 02:54

3 identicon

"Einfalt, þjálft og hljómfagurt orð", segirðu. Læt ég vera hvað mér finnst það vera hljómfagurt, en það er til í málinu og það þykir alltaf vera meðmæli með orði að það sé til fyrir.  En varstu búin að fatta að það er hægt að draga af því lýsingarorð? Og þá getum við farið að stigbeygja: ráðríkur, ráðríkari og ráðríkastur.  Ráðríkasta ráðríkið! Hljómar virkilega vel!

Annars dettur mér í hug að skoða starfsheitin ráðunautur og ráðunauta, bara svona til að hafa úr nógu miklu að velja.   

Helga 23.11.2007 kl. 04:40

4 Smámynd: Linda litla

Ráðríki, mér líst vel á það. Hljómar og vel og einkar þægilegt orð

Linda litla, 23.11.2007 kl. 08:28

5 identicon

Tvær tillögur í viðbót. Önnur sótt í þennan heim: ráðkarl og ráðkona. Hin handan þessa heims: ráðmóri og ráðskotta.  Þetta er obbboooðslega skemmtilegt málefni.

Helga 23.11.2007 kl. 09:02

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Í sjálfu sér þykir mér konur lítillækka sig með þessu þusi um starfsheiti í karlkyni. Mér þykir vegur þeirra meiri að gangast inn í þessi starfsheiti og sýna með því að þær ráði við störfin ekki síður en konur. Og hvers vegna kallaði Valdís sig ekki borgarstýru meðan hún sat á stóli borgarstjóra? -- Sem henni hefði verið í lófa lagi.

En ef þarf að fletja allt út í misskildum femínisma -- hví ekki að fella herra einfaldlega aftan af? Var ekki til í okkar dönsku fortíð eitthvað sem hét etatsráð? Getum við ekki bara átt forsætisráð -- fjármálaráð og utanríkisráð? Þá færi að vera e-ð vit í viðkomandi skrifstofublokkum: forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti.

Lyktar þetta af því að ég sé kvenfjandsamlegur? Var það reynsla þín/ykkar á okkar gamla og góða vinnustað? Hafið þið hugleitt hvers vegna kvenfólk var þar oftast í meirihluta, þið ágætu kvenkyns blaðamenn og útlitsteiknarar?

Góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 23.11.2007 kl. 09:30

7 identicon

Komdu sæll, Sigurður, gaman að fá sjónarhorn þitt. Ég er sannarlega ósammála þér um að ég og og skoðanasystur mínar séu að lítillækka okkur með því að vekja athygli á því hvað okkar ástkæra ylhýra tungumál er karlmiðað og alls ekki tek ég undir að við séum að "þusa". Við vitum að við ráðum við öll þau störf sem til eru í samfélaginu og ég er viss um að þú og skoðanabræður þínir vita það líka. En konur sem eru helmingur mannkyns eru að ýmsu leyti í svipaðri aðstöðu og minnihlutahópar. Það hrópar á okkur þegar konur sækja um og ráða sig í störf sem karlar voru einir um lengi vel að konur standa skör lægra en karlar. Tungumálið eigum við saman, þjóðfélagið eigum við saman, menninguna eigum við saman og landið eigum við saman. Rétt eins og þjóðfélagið á að spegla að það er sett saman úr konum og körlum þá á tungumálið að spegla að það er eign kvenna og karla.

Nei, ég held alls ekki að þú sért "kvenfjandsamlegur". En ég held að þér hafi orðið það á að hugsa sem karlmaður og lái þér ekki að finnast orðið "ráðherra" ljómandi gott vegna þess að þú samsamar þig því sem orðið "herra" stendur fyrir. Ef þú reynir að samsama þig orðinu "frú" þá grunar mig að hríslist um þig sama tilfinning og hríslast um konu sem á að finna sig í orðinu "herra".

Kveðja til þín,

Helga 23.11.2007 kl. 10:34

8 identicon

Hvað með að hafa

Ráðherra fyrir karla

Ráðskona fyrir konur.

Bara hugmynd.

Georg 23.11.2007 kl. 11:09

9 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Helga mín -- ef ég væri á leið í starf sem endaði á -frú myndi ég gera það með gleði og reyna að standa undir því með sóma. Ég man bara ekki eftir neinu slíku. Ef ég hefði haft döngun til að verða ljósmóðir hefði mér þótt mikill sómi að bera það starfsheiti. Það hríslast um mig -- hlýjutilfinning við tilhugsunina!

Sigurður Hreiðar, 23.11.2007 kl. 15:23

10 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sigurður, þú ert hvorki kvenfjandsamlegur né mannfjandsamlegur, heldur bara góður vinur og vinnufélagi í mörg góð ár. En eins og Helga bendir á þá skemmti ég mér ágætlega í þessari umræðu, finnst hún örgrandi, spennandi og alls ekki óþörf en síður en svo neitt forgangsmál í kvenfrelsisbaráttunni. Það hafa komið fram mörg orðskrípi til að frelsa karla frá því að þurfa að vera freyjur, frúr eða konur (til dæmis skúringarkonur sem nú eru ræstitæknar) en hins vegar eru sumir nógu stórir til að bera hefðbundin starfsheiti á borð við smurbrauðsjómfrú. Ég man eftir sögu af Sölva Blöndal hagfræðingi sem sagðist glaður vera til í að bera starfsheitið hjúkrunarkona þegar það var til umræðu. Það er nefnilega margur tvískinnungurinn í þessari tilveru.

Ráðskonunafnið finnst mér alltaf mjög vingjarnlegt og svo langar mig að minna á Kvennalistinn nefndi einhvern tíma, alla vega á innanbúðarfundum, að vel mætti nota orðið ráðherra fyrir konur líka, bara að beygja það eins og kerra!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.11.2007 kl. 16:08

11 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Til að taka af öll tvímæli þá er tvískinnungurinn hjá þeim sem ekki vilja bera kvenkennd starfsheiti, ekki hjá hinum, hvorki Sigurði, Sölva né smurborðsjómfrúnni á Jómfrúnni, sem ég man því miður ekki í svipinn hvað heitir.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.11.2007 kl. 16:11

12 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Og eitt enn, fyrst ég er hér enn, tillagan um ráð er auðvitað alveg þjóðráð, jafnvel snöggtum betra en ríki. Þannig að það skyldi þó aldrei enda með því að Sigurður ætti orðið sem leysti hið háskrúfaða ráðherra starfsheiti af hólmi? Hvernig líst þér á það, Helga og þið hin?

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.11.2007 kl. 16:16

13 identicon

Hugmyndir margra jafnréttissinna um að konur beri skaða af því að vinna undir starfsheitum sem enda á maður eru að mínu mati misskilinn femínismi. Blaðakona, fréttakona, myndlistarkona...ojjjj...

Hefur einhver heyrt talað um blaðakarlmann, fréttakarlmann eða myndlistarkarlmann.

Það nýjasta er að konur geta ekki verið ráðherrar og mönnum finnst alsendis ótækt að víkka út merkingu orðsins. Væri þá ekki ráð að tala um ráðhærra? Þá geta aðstoðamenn ráðherra fengið hið nýja starfsheiti ráðlægra. Allir glaðir?

Borghildur Anna Jónsdóttir 24.11.2007 kl. 06:31

14 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Held að umræðan sé búin að færa ýmislegt skemmtilegt í ljós. Ég var til dæmis alltaf blaðamaður en ekki blaðakona, en hins vegar þingkona en ekki þingmaður. Og svo kynlaus sagnfræðingur. Mér finnst þetta alveg skipta máli, en ekki meginmáli.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 24.11.2007 kl. 21:32

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband