Hrímkalt haust í bland við hlýja síðsumarssólskinsdaga

Svolítið skringilegt veður, vaknaði klukkan fimm í morgun uppi í sumarbústað við ægifagurt veður og hitamælirinn sýndi meira að segja 4.7 gráður úti. En þegar ég sá hrímið á grasinu fyrir utan og bílrúðunni fékk ég smá hroll, þrátt fyrir fegurð morgunsins. Dalalæðan lúrði niðurfrá og aðeins syfja og tímapressa stoppaði mig í að taka ómótstæðilega mynd (ekki mátti láta frændurna missa af flugi). Svo kom þessi ægifagri sólardagur, sem ég að vísu eyddi í vinnunni, en það tilheyrir vinnandi fólki.

Svolítið ráðvillt alltaf þegar haustið nálgast, mér er hlýtt til myrkursins, enda trúi ég á rannsóknir Jóhanns Axelssonar um skammdegisþunglyndi meðal Íslendinga og Vestur-Íslendinga sem í stórum dráttum hafa sýnt fram á minna skammdegisþunglyndi meðal Íslendinga en annarra norlægra þjóða. Þær eru á vísindavefnum en ég greip eina setningu þaðan: ,,Á Íslandi hefur tíðni skammdegisþunglyndis verið athuguð og voru niðurstöður þær að tíðni skammdegisþunglyndis og milds skammdegisþunglyndis var lægri hjá Íslendingum en fólki búsettu á austurströnd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi talsvert norðar. Þessar niðurstöður komu mjög á óvart þar sem talið hefur verið að skortur á ljósi yfir vetrartímann sé ein aðalorsök skammdegisþunglyndis."  En ég er ekki hrifin af hálkunni sem fylgir fyrstu frostunum (og heldur ekki þeim sem fylgja á eftir fram til vors). Fallegir síðsumardagar bæta reyndar úr skák, en samt, 19 stiga hiti og 10 stig í plús um nætur eru alveg í lagi mín vegna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, ég skil þetta vel. Mér finnst líka kalt.

Þegar fór úr 40 gráðunum í 25 gráður þá var mér kalt.

Mér varð nú svo kalt áðan að við flúðum inn af því að það var komið niður fyrir 20 gráður. Það var ekki séns fyrir kulda að sitja úti...

Kv, kuldaskræfan

Já, ég kannast alveg við að vera kuldaskræfa.

Jóhanna 28.8.2007 kl. 21:56

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ah, fegin samt að það er fallið úr 42 gráðum!

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 29.8.2007 kl. 10:27

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir vinarboðið, Anna mín, hér með þegið sem vænta mátti. Annars má maður ugglaust passa sig að eiga ekki of marga bloggvini. Þar sem annars staðar er best að eiga hæfilega marga vini en vel valda.

Ekki kvíða vetri. Hálkan er að vísu oft til bölvaðrar óþurftar, en minnsti þess hve fallegt landið er þegar snjórinn leggst yfir það með sinni hvítu blæju. Þá trúi ég sé fallegt á Álftanesi líka, ekki síður en í Borgarfirði.

Heilsan i bæinn

Sigurður Hreiðar, 29.8.2007 kl. 15:47

4 identicon

Eru þeir ekki eitthvað að tala um að melantón (eða hvað það heitir) lagi þetta árstíðabundna þunglyndi?

Anna Ólafsdóttir (anno) 30.8.2007 kl. 02:14

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Í rauninni er það bara hálkan sem mér er uppsigað við á veturna, snjórinn er óskaplega fallegur og myrkrið er bara svo indælt líka, hlýlegt og gott. Ég kvíði engu á veturna nema hálkunni, mér finnast allar árstíðir góðar. Held ég hafi heyrt eins og nafna að melantónín sé þetta sem frelsar okkur frá þunglyndinu, kannski hafa ræktast upp eitthvað hressilegri byrgðir af því hjá okkur hér á eyjunni okkar en hjá nágrönnunum. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 31.8.2007 kl. 20:27

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband