Nýrnalotterí

Ég hef beðið með að blanda mér í þessa furðulegu nýrnaumræðu, það er raunveruleikaþáttinn sem á að sýna í Hollandi, þar sem þrír nýrnaveikir þátttakendur eiga að keppast um nýru dauðvona krabbameinssjúklings. Fáránleikinn verður sífellt meiri. Nógu slæmt er að æsa upp einhverja múgæsingu (ef einhver horfir á þessi ósköp) og láta fólk fara að greiða atkvæði um  hver eigi skilið að fá nýra og hver ekki. Samkvæmt kvöldfréttum eru hins vegar ýmsir aðrir vankantar, ekki vitað hvort nýrun henta tilvonandi nýrnaþegum (þeim heppna eða heppnu - ekki vitað hvort eitt eða fleiri eru í boði né heldur hvort eitt eða fleiri vantar) eða ekki, né heldur hvort gjafanýrun eru hugsanlega með krabbameini innanborðs, veit ekki hvort átt er við möguleika á frumubreytingum eða meinvörpum. Evrópusambandið er hins vegar næstum að gefa grænt ljós þvert á eigin fordæmingu með því að detta núna fyrst í hug að það sé sniðugt að útbúa samræmd líffæragjafakort, vatn á myllu þeirra sem segja að svona þættir eigi rétt á sér. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Einhvers staðar heyrði ég eða las að þátturinn væri hugsaður til þess að ýta við heilbrigðisyfirvöldum í Hollandi sem hafa staðið sig eitthvað illa í stykkinu, rétt eins og þau íslensku í ýmsum málum. Þetta er reyndar ansi langt gengið, nema um sé að ræða leikara og allt sett á svið ... æ, ég veit það ekki ...

Guðríður Haraldsdóttir, 30.5.2007 kl. 20:36

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það er svo margt skrítið í kýrhausnum!  Framleiðendur afþreygjingaefnis virðast oft á tíðum ekki stjórnast af öðru en peningagræðgi.  Lífsgildi og siðgæði eru látin fjúka lönd og leið.

Ester Sveinbjarnardóttir, 31.5.2007 kl. 00:36

3 identicon

Þegar ég horfði á þessa frétt í sjónvarpinu fékk ég yfirþyrmandi vanmáttarkennd. Mér finnst siðferðið í þessum raunveruleikaþáttum vera komið svo gjörsamlega út á tún að ég fyllist einhverju vonleysi um að það takist nokkurn tíma að snúa því til baka. Og ég get ekki skilið hvað gengur á uppi í hausnum á fólki sem fær svona hugmynd að sjónvarpsþætti.

Anna Ólafsdóttir (anno) 31.5.2007 kl. 01:06

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband