Töfrandi dagar í Toronto

Stórborgin Toronto í Kanada kom mér á óvart. Hún var í rauninni bara stoppustöð á leiðinni til Montreal og reyndar líka indælt tækifæri til að kynnast fjölskyldu Kay, kærustu sonar míns. Annað erindi átti ég nú ekki þangað. En kosturinn við að vera með staðkunnugum er að þá gerir maður ýmislegt sem annars hefði verið ógert. Sumt fyrirsjáanlegt, eins og að fara í CN Tower sem samkvæmt einhverjum skilgreiningum hefur verið eða ekki verið hæsta bygging heims/Vesturlanda á einhverjum tímabilum. Alla vega horfir maður niður á háa skýjakljúfa og á aðflug og lendingar millistórra flugvéla, sem er út af fyrir sig skemmtilegt. Og útsýnið er ómótstæðilegt. Mér skilst að það sjáist til Bandaríkjanna í góðu skyggni, en okkur dugði nærumhverfið.

2013-04-26_11_55_26.jpg

Annað frekar fyrirsjáanlegt var ferð til Niagara Falls, en þar var það vatnsmagnið og dynurinn sem fylgdi því sem heillaði mig mest. Þá er hægt að skoða bæinn Nigagara-on-the-Lake líka, mjög krúttlegan bæ, og jafnvel að fara í skoðunarferð þar sem Icewine er framleitt.

2013-04-27_12_13_58.jpg

En svo er það allt þetta sem mér var sýnt af staðkunnugum, gríska hverfið með urmul af veitingahúsum og líflegu mannlífi, Distillery hverfið, þar sem hönnunarbúðir og falleg kaffihús eru á hverju stráii og svo bara einfaldlega skemmtilegt mannlíf. Utan við borgina eru ótal iðjagrænir golfvellir, hef aldrei séð þá svona þétt. Og norðan við borgina, í Kleinburg Ontario, fór ég á eina flottustu myndlistarsýningu sem ég hef séð um ævina: Changing Hands: Art without Reservation. Contemporary Native Art from the Northeast and Southeast. Þar, í McMichael safninu, sem er listaverk út af fyrir sig, er þessi sýning nú en fer í ágúst-september til annars uppáhaldsstaðar okkar Nínu systur, Santa Fe í New Mexico. Þessi sýning er ómótstæðileg! Þarna er líka falleg sýning um The Group of Seven, sem er líka mjög fín, en hin sýningin, vá! Perlusaumur er ekki bara perlusaumur og eitt videoverk sló flestu öðru við sem ég hef séð. Lúmskt!

l_2012_118_1.jpg

Og svo fór ég reyndar líka í stórt Mall enda með örstuttan innkaupalista, og þar heyrði ég íslensku í rúllustiganum, nema hvað. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband